Kona fer til Uppsala

EAFB85DE-13A6-453F-AA2A-8CC575305E8B.jpeg

Skiptinemapistill frá Höllu Hauksdóttur, málvísindanema

Ég efaðist aldrei um að ég þyrfti að drífa mig út. Hugmyndin um skiptinám hafði ekki heillað mig í menntaskóla en í ágúst 2018, þegar ég hóf nám við HÍ, var ég þess fullviss að eftir ár yrði umhverfið annað. Og úr varð. Áfangastaður varð Uppsalir, stúdentaborg rétt norðan við Stokkhólm. Hér fæddist ég og bjó um tíma í Stokkhólmi þegar ég var yngri þannig að samfélagið var mér ekki alls ókunnugt þegar ég flutti hingað í haust. 

Námið

Ég er BA-nemi á öðru ári í málvísindum. Á haustönn lagði ég stund á indóevrópsk samanburðarmálvísindi þar sem tungumál indóevrópsku málaættarinnar eru könnuð í sögulegu samhengi. Við lærðum að bera saman tungur ættarinnar og reyndum að nálgast frumtunguna með því að kanna ýmsar mál- og hljóðbreytingar síðustu alda. Nú á vorönn kynnist ég t. a. m. merkingarfræði, félagslegum málvísindum og tungumálatengslum. Allt námið er á sænsku og að kynnast tungunni á akademískan hátt hefur í senn verið krefjandi og skemmtilegt. 

Hið óbeina

Eins og gefur að skilja snýst skiptinám að miklu leyti um það sem maður lærir meðfram bóknáminu og er alltaf æfing í sjálfstæði. Á stúdentagarðinn á Rackarberginu kom ég beinustu leið úr foreldrahúsum og ábyrgðarhlutverkin hafa þannig orðið fleiri og meiri. Ég skil t. d. núna hvað það er mikilvægt að búa sér til heimili, að gera fermetrana sem manni eru úthlutaðir eins notalega og mögulegt er. Ef ég týni lyklum er ég stórskuldug, ég geng aldrei að því vísu að neinn sjái um matinn og þarf í raun að stóla á mig sjálfa í einu og öllu. Svo getur líka verið gott að sakna. Ég hafði aldrei hlakkað til jólanna heima á Íslandi í þeim mæli sem ég gerði þegar líða tók á haustönnina og tíminn heima með fólkinu mínu yfir hátíðirnar var yndislegur.

Aðrir skiptinemar skipa stóran sess í skiptináminu og nú hef ég öðlast reynslu af því að tilheyra Íslendingabyggð í útlöndum. Að fá að tala íslensku annað slagið við fólk í sömu sporum er kærkomið og alltaf er af nógu að taka. Kynni mín af erlendum nemum eru mér ekki síður mikilvæg og morgunstundir með þýskum meðleigjanda mínum, Enrico, þar sem við sötrum kaffi á langri gluggasyllu í eldhúsinu með útsýni yfir skólasvæðið, hverfisbúðirnar og hjólatrafíkina munu seint renna mér úr minni.

A25A15F2-9BD8-4320-B3EC-C9BBAF3329A2.jpg

Ráð

Að kynnast venjum heimamannsins og tileinka sér þær er örugglega besta ráð sem ég get gefið þeim sem hefur hug á að fara í skiptinám. Ég reyni eftir bestu getu að haga mér eins og Svíi; horfi á sænskar fréttir á hverjum degi, hef skipt íslenskum hlaðvörpum út fyrir sænsk, les sænskar skáldsögur, hlusta á sænska tónlist, horfi á sænskt sjónvarpsefni og hitti sænska vini og ættingja, bæði hér í Uppsölum og í Stokkhólmi. Litlu hlutirnir búa til hversdaginn og frá byrjun langaði mig til að hafa hann eins sænskan og ég gæti.

Ég mæli heilshugar með að hafa Uppsali í huga ef velja á stað fyrir nám erlendis. Borgin er sannkölluð stúdentaborg og hún heldur velli sem slík þökk sé öflugum nemendafélögum Uppsalaháskóla. Alls eru félögin 13 talsins og þau reka starfsemi sína í fallegum, gömlum húsum, vítt og breitt um miðbæinn. Í hverju og einu þeirra er að finna bókasafn, kaffihús, veitingastað, bar, klúbb, lærdómsaðstöðu og veislusal. Mánaðarlega eru gríðarinnar veislur haldnar (sk. gasque) þar sem boðið er upp á þríréttaðan kvöldverð, sænskar vísur eru sungnar og snaps drukkinn með. Sértu nemandi og meðlimur í a.m.k. einu nemendafélagi færðu allt ofangreint á spottprís.

Hliðardútl

Að lokum langar mig til að vekja athygli á verkefni sem ég hef unnið að samhliða námi. Þar sem ég var í sögulegum málvísindum á haustönn ákvað ég að slá til og taka upp hlaðvarp um orðsifjar. Í þáttunum rýni ég í áhugaverð orð; rek ferðir þeirra, fjalla um notkun þeirra og merkingu, greini frá því hvernig þau eru á frændtungum o.s.frv. Þættirnir munu heita Sifjuð og verða gefnir út á helstu hlaðvarpsveitum í haust. Fylgist endilega með! 

F4B94E15-EDAC-42E3-8805-65F5CFACA5B0.jpeg