Leikhúsumfjöllun: Þar sem tveir heimar mætast

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Umfjöllun um Sex í Sveit og Atómstöðina - endurlit

Sex í sveit

Sex í sveit var fyrst sýnt hér á landi árið 1998 og varð vinsælasti gamanleikur sem settur hefur verið upp í Borgarleikhúsinu. Hér er verkið í uppfærslu Bergs Þórs Ingólfssonar og Gísla Rúnars Jónssonar, þeir reyndu að hreinsa verkið af hinseginfordómum og kvenfyrirlitningu en slíkt hefur lengið verið samgróið försum. Verkið er upphaflega eftir Marc Camoletti.

Við erum mætt norður í sumarbústað til hjónanna Benna (Jörundur Ragnarsson) og Þórunnar (Sólveig Guðmundsdóttir). Hún ætlaði að heimsækja móður sína og Benni ætlaði að grípa gæsina og bjóða viðhaldi sínu, Sóleyju eða Sollu (Vala Kristín Eiríksdóttir), og besta vini sínum, Ragnari (Sigurður Þór Óskarsson), að koma í bústaðinn en Benni veit ekki að Ragnar er viðhald eiginkonu hans. Þórunn hættir við heimsóknina til þess að hitta Ragnar. Þar með er jafnvæginu raskað og fjörið byrjar. Inn í atburðarásina bætast kokkurinn Sólveig (Katrín Halldóra Sigurðardóttir), einnig kölluð Solla, og eiginmaður hennar Benni (Haraldur Ari Stefánsson) en hann mætir fremur seint í leikinn og fær einungis að verma sviðið síðustu mínúturnar. Hann leikur norðlenskan ofbeldismann sem gagnrýnendum Stúdentablaðsins fannst ósannfærandi. 

Að okkar mati er Sólveig kokkur besta persóna sýningarinnar. Hún gengur inn í leðurgalla og talar með ýktum en mis sannfærandi norðlenskum hreim. Hún stórgræðir á leikriti hástétta framhjáhaldaranna og fær hvern tíuþúsundkallinn á eftir öðrum fyrir hvert nýtt hlutverk sem hún tekur að sér innan bústaðarins. Sólveig mætir sem kokkur en þarf svo að leika kærustu Ragnars, frænku hans, viðhald, módel og Reykjavíkurmær. Sóley er týpíska heimska módelið og Sólveig klassískur „trukkur“ og því skondið að sjá Sólveigu kokk leika Sóleyju módel. Stefanía Adolfsdóttir sá um búningana sem hentuðu persónunum vel og ýktu ákveðna karaktera. Þórunn er yfirstéttakona í fínum fötum, Ragnar mætir í dúnvesti, með ullartrefil, pólóbol og virkar eins og skandinavískur borgartöffari. Fötin voru einnig notuð sem hluti af gríninu. Kjóll Sóleyjar er stuttur og sýnir rassinn, kokkurinn er í grófum mótorhjólaleðurgalla þegar Ragnar heldur að hún eigi að vera módel, kjóll Þórunnar gyrtur í sokkabuxurnar og Benni í fyndnum skyrtum sem sýna að hann var vel undirbúin fyrir helgi með unga viðhaldinu. Guðbjörg Ívarsdóttir sá um leikgervin sem voru trúverðug og pössuðu vel við búningana. Við setjum þó spurningarmerki við síða hár Haralds sem okkur fannst óþarfi og undarlegt í ljósi þess að hann er með stutt hár í sýningarskránni. 

Sumarbústaðurinn er mjög grand, hönnun og yfirburðir í fyrirrúmi. Petr Hlousek sá um leikmyndina sem ásamt búningum sýndi fram á fjárhagslega góða stöðu Þórunnar og Benna. Bústaðurinn er í gamalli sveit þar sem herbergi eins og fjós og svínastían eru fullkomið svið fyrir komandi svínarí. Leikmyndin var vel nýtt og allt þjónaði tilgangi. Á sviðinu eru fimm hurðir sem þjóna farsagríninu feikivel. Þórður Orri Pétursson sá um lýsinguna sem passaði vel inn í rýmið og sumarbústaðarstemninguna.

Þorbjörn Steingrímsson sá um hljóð. Í bústaðnum eru allar græjur, þar á meðal Google Home, þar sem Þórunn og Benni skipa „Ok google“ fyrir. Það verður hluti af gríninu þegar það spilar vitlausa tónlist, hækkar, misheyrir og misskilur líkt og þau misskilja hvert annað. Það er þó ekki notað mjög mikið og spurning hvort það hafi verið óþarfi eða hvort hægt hefði verið að nýta það meira. Í sýningunni var mikið lagt upp úr alls kyns orðagríni en okkur fannst það stundum of mikið af því góða. Líkt og í öðrum försum eru persónurnar ýktar staðalímyndir, grínið gengur út á misskilning, hurðaskelli og framhjáhald. Leikurinn er einnig ýktur og leikararnir nota mjög stór svipbrigði sem og hreyfingar. Það er erfitt að hafa samúð með karakterunum og siðferði þeirra má draga í efa. Samskipti Þórunnar og Benna eru mjög ýkt, ef til vill til þess að ýkja óheiðarleikann milli þeirra þar sem þau eru bæði að leika hlutverk. Það er engin persóna sem veit allan sannleikann en þær halda þó að þau séu með allt á hreinu. Alþýðan vinnur að lokum þegar kokkurinn fer heim með manninum sínum með tug þúsundir í vasanum og í 600 þúsund króna pelsinn sem Benni gaf viðhaldinu Sóleyju. Þau skilja framhjáhaldarana og viðhöldin eftir í bústaðnum til að greiða úr sínum málum sjálf. Þá hefur sagan náð ákveðinni hringrás. Það leysist ekkert í lok verksins, allir halda lygunum áfram, samskiptin verða vandræðaleg og allir eru meðvitaðir um þá staðreynd að þeir hafa verið að ljúga að hver að öðrum. Í lok sýningar para hjónin sig saman og Ragnar og Sóley og með því er jafnvæginu náð á ný. 

Leikaraskipti hafa orðið síðan gagnrýnendur Stúdentablaðsins sáu verkið. Nú leikur Vala Kristín hlutverk Sollu kokks og Rakel Björk Björnsdóttir kemur inn í staðinn sem módelið Sóley. Það gæti verið mjög áhugavert að sjá sýninguna eftir leikaraskipti en dýnamíkin í leikritinu hlýtur að hafa breyst töluvert.

Atómstöðin - endurlit

Hér hefur Dóri DNA unnið leikverk úr skáldsögu afa síns í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur sem er einnig leikstjóri sýningarinnar. Anna María Tómasdóttir er aðstoðarleikstjóri, Gréta Kristín Ómarsdóttir er dramatúrg og sýningarstjórn sér Elín Smáradóttir um. Þegar tjaldið fer upp koma í ljós bekkir og í reykjarmökk ganga leikararnir inn og setjast. Sviðið er hvítt og leikararnir sitja í þögn. Bekkjunum er svo ýtt upp að veggjum og leikmyndin verður að stóru opnu rými sem getur orðið hvað og hvar sem er, götur Reykjavíkur, svefnherbergi Löggunnar (Oddur Júlíusson), heimili Organistans (Stefán Jónsson) og hús Árlandsfjölskyldunnar. 

Leikararnir fara ekki af sviðinu heldur sitja á bekkjunum og fylgjast með. Þar á einhver leikur sér stað og þau grípa reglulega inn í atburðarásina. Jafnframt er fjórði veggurinn oft brotinn í verkinu, til að mynda stöðva húsfrúin (Birgitta Birgisdóttir) og dóttirin Guðný (Snæfríður Ingvarsdóttir) verkið, leiðrétta og lesa upp úr skáldsögunni. Markmið verksins er ekki að nútímavæða söguna heldur endurspegla og er því enginn einn tími. Okkur fannst tímaleysið ekki hafa verið nægilega skýrt. Sumt var mjög nútímalegt, búningar jafnt sem atriði, eins og þegar aðalsmaður flossar á einum tímapunkti en annað var abstrakt og á köflum var líkt og við værum stödd á 9. áratugnum. Hvað er það annað en tenging við nútímann? Að sama skapi er tungumálið stundum gamaldags og stundum nýstárlegt sem býr til furðulega blöndu.

Í verkinu eru tveir ólíkir heimar, heimur hástéttarinnar og verkalýðsins, líkt og tvær þjóðir í einu landi. Ugla (Ebba Katrín Finnsdóttir) stendur á milli þessa tveggja heima en hún glímir við innri togstreitu. Hvort á hún að velja ástina eða það sem hún trúir á? Ugla er 21. árs sveitastúlka sem kemur til höfuðborgarinnar til þess að læra á orgel. Ugla er hörð á sínu og veit hverju hún trúir, það er að segja áður en hún verður fyrir áhrifum höfuðborgarinnar. Hún les ekki blöðin og á því að vera óupplýst og áhrifagjörn. Fyrir utan þá frásögn að hún sé að norðan er lítið sem segir áhorfendum að hún sé sveitastelpa. Norðlenskur hreimur hennar er ekki sannfærandi og hún klæðist hvítu. Búningurinn er óháður hinum og gæti átt að ýta undir sakleysi hennar en hægt væri að líkja henni við engil eða Maríu mey.

Á meðan Reykjavíkurdvölinni stendur er Ugla vinnukona hjá ráðherrahjónunum Búa Árland og frú og þremur börnum þeirra: Guðnýju, Arngrími (Arnmundur Ernst Backman) og Þórði (Hallgrímur Ólafsson). Við setjum spurningarmerki við að barnaleikari leiki ekki Þórð, því í verkinu virðist hann vera þroskaskertur en ekki barn. Ugla verður ástfangin af Búa en byrjunarsenan setur tóninn fyrir það sem koma skal. Löggan og Ugla eru bæði að norðan. Þau daðra og eitt leiðir af öðru þegar hún týnir lyklunum að húsinu. Ólétt Ugla játar ást sína á löggunni en heldur honum alltaf eilítið fjarri vegna ástar sinnar til Búa. 

Mirek Kaczmarek sér bæði um búninga og leikmynd. Verkalýðurinn er í bláum heilgöllum með belti um sig miðjan og á sellufundi eru borgarar í lopapeysum. Búningarnir eru vel heppnaðir að mestu leyti. Kjólarnir voru fallegir en okkur þóttu þeir oft ekki í samræmi við aðra búninga, til að mynda búninga Guðnýjar og Arngríms. Organistinn er pönkaralegur í svörtum fötum, leðurjakka og með svartan augnskugga. Hann býður Uglu að hlusta á glymskrattann sem gefur frá sér óhljóð, eins og raunverulegur glym - skratti. Þó að organistinn taki sér djöfullega mynd er það Búi sem er eins og djöfullinn á öxl Uglu að bjóða henni hvað sem hún vill, ef hún lofar að tilbiðja hann. Hann er myndarlegur, sjarmerandi og vel til hafður.

Eftir hlé er einræða um loftlagskvíða og gróða leikhússins á sýningunni. Í lok leikritsins er Ugla komin með plöntur í mold í mittispung, hún er orðin móðir náttúra og rusl flýgur um sviðið. Plöntur eru víða í verkinu, sérstaklega í kringum organistann sem er einskonar táknmynd frelsis. Löggan leiðir Uglu að rúmi sínu með pottaplöntum, fær hana til þess að tengjast við sínar rætur og forðast freistingar Búa, freistingar ríkidæmis og spillingar. 

Gísli Galdur Þorgeirsson sér um tónlist en ásamt honum sjá Aron Þór Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson um hljóðmynd. Tónlistin var áhugaverð og nútímaleg en öskraði allan tímann „Halló þetta er nútímasýning,“ sem passar ekki alveg inn í tímaleysið sem sýningin vill halda. Lög á borð við „Ó hve létt er þitt skóhljóð,“ „Maístjarnan“ og „Ísland er land þitt“ eru sett í nútímabúning auk þess sem útgáfa Pascal Pinon af „En þú varst ævintýr“ eftir Davíð frá Fagraskógi hljómar. Drungaleg hljóð óma við drungalega lýsingu og í lok sýningar heyrist „Ísland úr NATÓ, herinn burt“ í bakgrunni. Tónlistin á í góðu og miklu samtali við atburðarás verksins eins og þegar þjóðleg íslensk lög eru notuð til þess að mótmæla enskum áhrifum og sölu Íslands. 

Ólafur Ágúst Stefánsson sér um lýsingu en ljósin eru þungamiðja sýningarinnar. Ólafur er ekki hræddur við að nota liti en blár, fjólublár og rauður hjúpa sviðið oftast nær og sumar persónur og tilfinningar virðast eiga sinn lit. Ljós organistans er rautt með hvítum formum, þar sem hvítur kassi býr til leikrýmið, bleik og blá birta fylgir oft ástarmálum Uglu og hvítt bjart ljós stoppar sýninguna og gefur leikendum á hliðarlínunni meira pláss, sérstaklega verkalýðnum. 

Verkalýðurinn talar til áhorfenda um bókina, fordæmir hana og talar hæðnislega um hvað hún er flott og mikilvæg Íslendingum. Verkalýðurinn mótmælir efni sýningarinnar. Hann segir að hún fjalli ekki aðeins um „leiðinlega fjölskyldu í Þingholtunum“ en segir jafnframt að þetta sé ekki saga um samfélagið né Ísland heldur um ólétta stelpu að norðan sem er ástfangin af ráðherra. Truflanir verkalýðsins eru þó ekki til þess til þess að fjalla um íslenskt samfélag eða spillingu. Þetta er rödd þeirra fátæku gegn þeim ríku og spilltu. Þó má enn spyrja sig að því hverju skal treysta og hverju ekki. Það eiga allir einhverra hagsmuna að gæta, óháð stéttinni sem þeir tilheyra.