Drap femínisminn farsann? 

Leiksýningin Sex í sveit var sýnd í Borgarleikhúsinu fyrr á leikárinu.

Leiksýningin Sex í sveit var sýnd í Borgarleikhúsinu fyrr á leikárinu.

Við hittum Berg Þór Ingólfsson, leikstjóra Sex í sveit, í Tjarnarbíó og ræddum um verkið og sýn hans á farsa. Á meðan við sátum inni með kaffibolla blés Kári 14-16 metra á sekúndu fyrir utan. 

„Farsi er alþýðuleikur, alþýðuskemmtun og gamanleikur,“ segir Bergur og bætir við að Sex í sveit sé í grunninn eins og eldgamall alþýðuleikur, eins og í Commedia dell'arte eða Molière verki. Þar sem fólk af efri stéttum, sem telur sig yfir aðra hafið, skemmtir sér og ætlar jafnvel að svala fýsnum sínum í mat, drykk og kynlífi. Við fáum að sjá svallið hjá efri stéttinni og hlæjum að þeim. Í Sex í sveit gengur alþýðustúlka út með 600.000 króna pels og fullt af tíuþúsundköllum. „Þetta er ekki endilega til þess að uppfræða heldur til þess að staðfesta hvernig lífið er og þetta fjallar mikið um stéttir.“

„Ég hef leikið í allmörgum försum,“ segir Bergur og segir að sér finnist farsar snúast að miklu leyti um list leikarans, tímasetningar, fyndni og að fara af alvöru inn í aðstæður, atvik, tilfinningalíf og innri andlegan þroska. Þetta er flókinn frásagnarmáti og getur orðið rosalega flókið net sem er í sjálfu sér fyndið. „Hvað veit ég þegar þessi er í herberginu? Hvað veit ég ekki þegar allir þessir eru í herberginu? Hver er ég? Og svo framvegis. Þetta er náttúrulega bara fín speglun á hvernig við erum í dag á samfélagsmiðlum, maður er einhver annar eftir því við hvern maður er að tala.“ Aðspurður um viðtökur við nýrri uppfærslu Sex í sveit segir Bergur að þær séu jákvæðar. „Fólk er mjög ánægt og glatt, því finnst þetta fyndið og skemmtilegt og fer ánægt heim.“

Hvers vegna ákvaðstu að uppfæra Sex í sveit?

Í upphafi var mér sendur farsinn og ég var spurður, er þetta hægt, getum við sett upp farsa, getum við sett upp þennan farsa, eru allir farsar gamaldags? Fyrir utan einhver atriði fannst mér þetta hægt og í lagi að segja þessa sögu,“ segir Bergur en bætir við að þau hafi fengið að heyra frá einum gagnrýnanda að þau ættu að loka þessu eins og skot og hann ætti að skammast sín. Bergur segir að persónur verksins séu ennþá til í dag þó verkið sé skrifað 1985. „Þessar persónur haga sér ekkert verr en fullt af fólki sem maður þekkir þó manni finnist þetta fólk svona svolítið lið.“ Hann bendir á að fólk eigi til að gleyma að persónur verks séu ekki endilega málpípur höfundar eða leikstjóra. Hjónin í verkinu eru mjög óheiðarleg og ráðskast með sannleikann. „Ætli þau séu ekki í öllu, ástar-, kynlífs- og áfengisfíkn,“ segir Bergur. En leikritið snýst ekki um bata, þá væri það varla mikill farsi. 

Aðspurður hvað þurfi að hafa í huga þegar maður setur upp farsa segir Bergur að hann þurfi að vera fyndinn. Hann bætir því þó við að sér finnist ekki vera mikill munur á því að setja upp farsa og annars konar sýningar og það sem skipti mestu máli sé að vera samkvæmur sínu. „Ég tók þá ákvörðun að Sex í sveit ætti að vera svona „situation farsi,“ það er að segja að aðstæðurnar ættu að vera það sem er fyndið. Svona farsar eru fyrst og fremst alþýðuskemmtun, þú ert með viðmælendur sem er salurinn. Þú ert í samtali við áhorfendurna og þið gerið einhvers konar samkomulag um að þetta sé satt og að þessar aðstæður séu fyndnar,” segir Bergur.

Drap femínisminn farsann?

„Það hefur alveg verið litið niður á farsann innan stéttarinnar,” segir Bergur aðspurður um stöðu farsans en segist þó ekki taka eftir slíku í dag. „Ég held að flestir í bransanum innan leiklistarinnar viti að þetta er ekki eitthvað sem maður dregur upp úr rassvasanum,“ segir Bergur og bætir við að í drama verði fjórar vendingar í öllu verkinu en í farsa verði fjórar vendingar á hálfri mínútu. Síðan er hins vegar spurning hver staða farsans sé í þjóðfélaginu. „Af því að hann gengur rosalega mikið út á, að manni finnst, og hefur gengið út á vitlausar konur og hommabrandara. Ef það er einhver kall kysstur þá fara allir að hlæja og konan á að vera nakin og heimsk til þess að þetta gangi upp,“ segir Bergur. „Vinur minn fór einu sinni í kynjafræði í háskólanum og honum var tilkynnt þegar hann byrjaði þar að það fyrsta sem myndi hverfa í kynjafræði væri húmorinn. Þetta var fyrir 15-20 árum.“ Við uppsetningu á Sex í sveit setti Bergur upp kynjagleraugun og skoðaði farsann, því femínisminn ætti að vera „búinn að drepa hann.“ Bergur athugaði hvort persónur verksins væru í jafnri stöðu óháð kyni, hvort einhver væri neyddur til einhvers og hvort samþykki allra lægi fyrir. „Það hefur náttúrulega ótrúlega mikið breyst síðustu áratugi. Sigur einhverrar persónu fyrir 30 árum yrði enginn sigur í dag heldur jafnvel viðbjóður,“ segir Bergur. „Þegar maður er að gera eitthvað sem á að vera fyndið verður maður að hugsa hvað er fyndið í dag og við hvern er maður að tala, hverjir eru í áhorfendasalnum og á hvaða öld erum við stödd og svo framvegis.“ „Ég held að farsinn sé ekki dáinn en kannski eru einhverjir farsar dánir,“ segir Bergur. 

Blaðamenn Stúdentablaðsins spurðu Berg hvaða leikverk væri hans uppáhalds. Sú sýning sem sprengdi á mér hausinn var Sprengd hljóðhimna hægra megin eftir Magnús Pálsson. Hún var sýnd í Þjóðleikhúsinu fyrir einhverjum tuttugu eða þrjátíu árum. Hún var algjör sýra og ég hugsaði með mér, þarna vil ég eiga heima,“ segir Bergur. Hann bætir því við að hann sé mikill aðdáandi sögunnar um Ödipus þegar um er að ræða leikverk. Bergur hefur leikið í mörgum försum í gegnum tíðina en segist ekki eiga sinn uppáhalds. Hann bætir því þó við að hann gæti hugsað sér að skrifa einn slíkan. 

Spurður hvort að hann hefði viljað breyta einhverju við sýninguna þegar hann liti til baka á ferlið sagði Bergur að hann telji sýninguna hafa þróast á mjög skemmtilegan hátt hjá hópnum sem kom að henni. „Það urðu leikaraskipti hjá okkur og þá breyttist hún nokkuð mikið. En það er engin eftirsjá. Auðvitað þegar maður er reynslunni ríkari gerir maður hlutina öðruvísi, þegar maður safnar í sarpinn. Allt er reynsla,” segir hann.

Að lokum var Bergur spurður hvað væri uppáhalds Baggalútslagið hans. Hann sagði að hann yrði að segja að Komdu með mér í bústað væri sitt uppáhaldslag með hljómsveitinni.