Frumvarp um Menntasjóð námsmanna afgreitt á vorþingi
Stúdentablaðið ræddi við Lilju Alfreðsdóttur á skrifstofu hennar í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu á miðvikudagseftirmiðdegi þann 5. febrúar síðastliðinn. Lilja hefur starfað sem mennta- og menningarmálaráðherra frá því í nóvember 2017 og í embætti sínu unnið að mörgum stórum málefnum innan menntakerfisins. Meðal þeirra sem hefur borið hvað hæst undanfarið eru aðgerðir til þess að fjölga nemum á Menntavísindasviði sem og nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Mikilvægasta starf allra samfélaga
Lilja sagði frá aðgerðum til þess að auka nýliðun í kennaranámi en á síðasta ári skiluðu þær meðal annars 45% aukningu í grunnskólakennaranám. „Þegar ég var nýtekin við blasti við kennaraskortur, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum. Menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, kennaraforystan og fleiri höfðu unnið skýrslu sem sýndi fram á að það væri umtalsverður skortur. Við gerðum færniþörf til þess að sjá hversu marga vantaði. Í bestu sviðsmyndinni vantaði 1500 kennara og í þeirri verstu 2300.“ Þetta var af ýmsum ástæðum. Bæði voru starfandi kennarar að eldast og færri hófu nám. Lilja segir að ákveðið hrun hafi orðið eftir að kennaranám var lengt. Það var gert árið 2009 og þá var námið lengt úr þremur árum í fimm.
„Mér fannst þetta vera eitt af mínum stærri málum að reyna að snúa þessari þróun við. Við héldum áfram að vinna með kennaraforystunni, Menntavísindasviði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að því hvernig við ættum að gera þetta. Eitt af því sem við vorum búin að heyra var að við þyrftum að skilgreina starfsnámið betur.“ Það þurfti að huga að ýmsu við það. Ekki var nóg að skilgreina bara starfsnámið þannig að fimmta árið væri starfsnám og að tryggja það að allir kæmust í starfsnám í skóla og fengju starfsþjálfun. Sá galli var á að margir fóru í starfsþjálfun og útskrifuðust svo ekki endilega eða luku henni ekki. Lilja talar um að þau hafi viljað passa upp á að starfsnámið yrði klárað. Hún nefnir að einnig sé verið að styðja betur við leiðsagnarkennara sem aðstoða kennaranemana. „En það sem er mikilvægast er að kennaranámið skiptir svo miklu máli í íslensku samfélagi. Það er ekki hægt að segja bara: „Allir eiga að fara í kennaranám!“ Fólk þarf að átta sig á því að þetta er mikilvægasta starf allra samfélaga af því að það leggur grunninn að öllum öðrum störfum. Ég held að það sem okkur hafi tekist svolítið er að benda á mikilvægi þessa. Við getum ekki kallað okkur ríki eða land þar sem eru jöfn tækifæri þegar við höfum þá þróun að okkur skorti kennara. Nú þurfum við að halda áfram, ég hef talað um að okkur vanti stærðfræði- og náttúruvísindakennara og beðið um tillögur um hvernig við getum fengið fleiri slíka.“
Á vorþingi 2019 voru einnig samþykkt lög um eitt leyfisbréf en þau kveða á um að ef aðili uppfyllir ákveðin grunnskilyrði á viðkomandi skólastigi og hefur lokið kennaranámi getur hann kennt á framhaldsskóla-, grunn- eða leikskólastigi. Lilja segir skipta miklu máli að það sé hreyfanleiki milli skólastiga eins og á vinnumarkaði almennt. „Þeir sem voru að vinna með okkur í þessu sáu að það var raunverulegur hugur í okkur, að við ætluðum að gera betur. Þetta er árangurinn. Við höfum minnkað bilið mjög mikið og þetta lítur vel út. En ég vil auðvitað halda áfram á þessari braut og ég vil að það sé þannig að það sé miklu meiri eftirspurn eftir því að fara í kennaranám en framboð.“
Aðgerðir á öðrum sviðum
Aðspurð um hvort það sé á döfinni að standa fyrir álíka aðgerðum með launuðu starfsnámi á Heilbrigðisvísindasviði, til dæmis fyrir hjúkrunarfræðinema, segir Lilja að klínísk pláss vanti. „Við í ráðuneytinu settum aukið fjármagn t.d. í hjúkrunarfræðinámið í HA en þar var ekki hægt að taka á móti fleirum vegna þess að það skorti klínísk pláss. Þá segi ég að það þurfi fyrst að laga það en það er ekki á mínum enda. Við erum tilbúin og viljum koma að þessu. Það er búið að skipa vinnuhópa undir forystu heilbrigðisráðherra þar sem við komum að þessu. Þegar maður fer í svona aðgerðir þarf maður að vera búinn að sjá fyrir sér hvað maður vill sjá koma út úr þeim. Varðandi kennaranámið vildum við sjá mikla aukningu í nýliðun kennara, að fleiri færu í kennaranám, og það tókst. En varðandi hjúkrunarfræðinemana þurfum við að passa að námið í heild sinni gangi upp. Þá þurfa spítalarnir að vera tilbúnir til þess að taka á móti hjúkrunarfræðinemunum og við þurfum að styðja betur við þann enda.“
Styrkja þurfi menntakerfið í heild
Aðspurð um hvort sér finnist nóg að standa fyrir átaki í nýliðun ef starfsumhverfið breytist ekki segir Lilja að svo sé ekki. „Starfsumgjörð og vinnuumhverfi kennara þarf að vera spennandi. Kennarar þurfa að finna að það sé mikil viðurkenning á störfum þeirra. Við sjáum til dæmis í rannsóknum sem eru gerðar meðal kennara að 90% telja að það megi bera meiri virðingu fyrir þeim. Eitt af því sem við sjáum er að í þeim ríkjum sem eru talin hafa framúrskarandi menntakerfi þar segja kennararnir flestir: „Störf mín eru vel metin.“ Það er leiðarljósið í því að styrkja allt menntakerfið. Menntunin fer fram í kennslustofunni og kennarinn stýrir henni. Menntakerfið verður aldrei burðugra en sú umgjörð sem við sköpum kennurum.“
Frumvarp sem talar við framtíðina
Í nóvember síðastliðnum lagði Lilja fram nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem í frumvarpinu fær nýja nafnið Menntasjóður námsmanna. Stúdentablaðið spurði hverjar væru helstu breytingarnar í nýja kerfinu.
„Helstu breytingarnar eru að stuðningurinn verður mun jafnari en áður. Allir námsmenn sem ljúka námi á tilsettum tíma, og þar er ákveðinn sveigjanleiki, fá 30% niðurfellingu á námslánum. Áður var það þannig að þeir sem voru lengst í námi, tóku hæstu námslánin og fóru kannski mjög seint í námið, þeir fengu mestu niðurfellinguna. Við gátum verið með dæmi þar sem sumir fengu 85% niðurfellingu meðan þeir sem fengu minnstu niðurfellinguna voru með 2%. Þannig að við erum að jafna þetta verulega. Við erum líka með stuðning fyrir barnafólk. Í stað þess að lán sé tekið með hverju barni þá er styrkur. Eins og var í fréttum nýlega er nú lægsta fæðingartíðni sem sést hefur á Íslandi og það er auðvitað áhyggjuefni. Þess vegna vilja stjórnvöld styðja við ungt fólk. Við gerum það á marga vegu en meðal annars í gegnum Menntasjóð námsmanna. Við höfum líka möguleika og ívilnanir fyrir ákveðið nám og fyrir ákveðin landsvæði ef á þarf að halda. Svo þetta er frumvarp sem talar við framtíðina.“
Óvissa um vaxtahámark
Stúdentar hafa hins vegar vakið athygli á ákveðnum þáttum frumvarpsins og gagnrýnt þá. Meðal þeirra er sú staðreynd að enn sem komið er, er ekkert vaxtahámark í nýja frumvarpinu. Í núverandi kerfi eru vextir á námslánum fastir í 1% en gætu farið í það að vera hærri, breytilegir og án hámarks.
„Í nýja frumvarpinu er það þannig að námsmenn fá bestu mögulegu vaxtakjör Ríkissjóðs Íslands, en það fær enginn betri kjör á markaði en Ríkissjóður,“ segir Lilja. „Ofan á vextina leggst reiknað álag sem verður yfirfarið árlega. Í gamla kerfinu voru fastir 1% vextir auk verðtryggingar. Þessi vaxtakjör voru styrkurinn til námsmanna. Í nýja kerfinu eru til viðbótar við bestu fáanlegu vexti sem bjóðast á Íslandi, styrkir vegna framfærslu barna sem áður voru lán og 30% niðurfelling af höfuðstól námsláns ef náminu er lokið innan tímamarka.“ Lilja segir nemendur sem ljúka náminu innan tímamarka og/eða eigi barn á námstímanum alltaf koma betur úr í nýja kerfinu. „30% niðurfelling á höfuðstól námslána eða barnastyrkurinn gerir það að verkum að höfuðstóllinn af námsláninu er það mikið lægri að vaxtamunurinn hefur ekki áhrif. Þessar breytingar gera það að verkum að allir nemendur sem klára námið sitt innan tímamarka fá 30% styrk frá ríkinu en áður var styrkurinn mismunandi eftir lánsfjárhæð og endurgreiðslutíma. Þeir fá alltaf þessi 30% og það eru réttindi sem námsmenn ávinna sér.“ Lilja segir námsmenn nánast undantekningarlaust koma betur út í nýja kerfinu, en þeir sem komi best út séu námsmenn með börn í leiguhúsnæði.
Hvað vaxtahámarkið varðar segir Lilja að það sé til skoðunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis og verið sé að tala um að það yrði 4%. Þá yrði kölluð saman nefnd og ráðherra hefði svigrúm til þess að bregðast við efnahagsþróuninni hverju sinni. „Ég er mjög hlynnt því.“ Lilja segir einnig að breytingin komi á góðum tíma. Það sé samdráttur í hagkerfinu og alþjóðakerfið í lágvaxtaumhverfi. „Jafnvel þótt verðbólgan fari af stað falla 30% lánsins niður sem gerist ekki í núverandi kerfi.“
Fjárhagserfiðleikar stúdenta
Samkvæmt könnun Eurostudent frá 2019 voru fjárhagserfiðleikar þriðja algengasta ástæða þess að íslenskir nemendur þurftu að rjúfa námsferil sinn í tvö misseri eða fleiri meðan á námi stóð. Stúdentar hafa lengi talað um að grunnframfærsla framfærslulána sé of lág. Aðspurð um hvort stuðningur við nemendur meðan þeir eru í námi verði aukinn segir Lilja að frítekjumarkið hafi verið hækkað um 43% í mars síðastliðnum. Að öðru leyti virðist hvorki standa til að hækka frítekjumark né grunnframfærslu frekar. „Nú er að klára frumvarpið og fá það í gegn,“ segir Lilja. „Svo sjáum við hvernig þessi mál þróast en við höfum nú þegar tekið umtalsverð skref. Mest um vert fyrir menntakerfið er að við klárum þetta frumvarp núna á vorþingi.“ Eins og Lilja nefndi áður er frumvarpið sem stendur hjá allsherjar- og menntamálanefnd en hún vonast til þess að nefndin klári vinnu sína við það á næstu vikum svo hægt verði að ljúka vinnunni við það í vor.
Tekjutenging fyrir 35 ára aldur
Í nýju frumvarpi um Menntasjóð námsmanna, eða MSN eins og hann er kallaður til styttingar, geta stúdentar valið um tekjutengdar afborganir ef þeir ljúka námi áður eða á því ári sem 35 ára aldri er náð. Eftir það eru afborganir ekki tekjutengdar. Lilja segir tekjutenginguna hafa verið setta inn en í gamla frumvarpinu [Lánasjóðsfrumvarpi Illuga Gunnarssonar] hafi afborganir ekki verið tekjutengdar. „Það sem gerðist þá var að við hefðum getað lent í því að fólk veldi ekki störf sem gáfu ekki eins miklar tekjur. Þá er allt í einu búið að skapa kerfi sem gæti fælt stúdenta frá því að fara í ákveðnar greinar. En þarna gefum við klárlega rými frá 19 ára til 35 ára til þess að velja hvort þú sért tekjutengdur eða ekki.“ Frumvarpið nýti sér að stúdentar hafi meira svigrúm til þess að endurgreiða lánið á fyrri æviskeiðum en því seinna sem nemendur fari í og ljúki námi, því síðar greiða þeir til baka til lánasjóðsins.
Stjórn MSN og fulltrúi frá SHÍ
Í stjórn Menntasjóðs námsanna verða þrír fulltrúar stúdenta skipaðir af LÍS, Landssamtökum íslenskra stúdenta. Þar er ekki tryggt að árlega komi einn fulltrúi frá Háskóla Íslands þrátt fyrir að 70% stúdenta á Íslandi stundi nám við HÍ. Það mætti telja það hagsmuni nemenda HÍ að einn fulltrúinn kæmi ávallt úr röðum nemenda hans en á skrifstofu SHÍ hefur um árabil verið starfandi lánasjóðsfulltrúi. Lilja segir að þetta þurfi að skoða betur og sér finnist mest um vert að þeir sem séu fulltrúar endurspegli þorra nemenda. „Við þurfum að skoða þetta aðeins. Ég ætla ekki að segja neitt núna, en mér finnst mestu máli skipta að þetta sé lýðræðislegt og að það sé alveg ljóst að stjórnin endurspegli hagsmunabaráttu stúdenta og það sé alveg á hreinu.“
Farsælt samstarf við stúdenta
Að lokum segist Lilja vera ánægð með aðkomu stúdenta að Menntasjóðsfrumvarpinu. „Ég er mjög ánægð með þeirra umræðu og hvernig þeir hafa komið að þessu. Líka með það samtal sem við höfum átt varðandi kjör námsmanna og meginhugmyndafræðina. Stúdentar eru að nefna þá óvissuþætti sem þeir hafa viljað skýra enn frekar og mér finnst það hafa verið afskaplega farsælt samstarf.“