Mér vantar engan málstaðal, takk
Þessi pistill er hluti af pistlaröð um framtíð íslenskunnar.
Pistill: Anton Sturla Antonsson, asa48@hi.is
Árið 2017 létu yfir þrjátíu þúsund Mexíkóbúar lífið í tengslum við stríðið gegn fíkniefnum. Hér á Íslandi geisar öðruvísi stríð. Vissulega hefur enginn fallið í valinn svo vitað sé og líklega myndu hin þágufallssýktu fórnarlömb ekki telja það smekklegt að þau séu borin saman við fórnarlömb raunverulegra harðinda. Hins vegar eiga þessi tvö ólíku stríð eitt sameiginlegt: bæði eru tilraunir til að breyta einhverju sem ekki verður breytt.
Flestir Íslendingar hafa heyrt talað um þágufallssýki og margir hverjir hafa gerst sekir um slíka „óvandaða“ málnotkun. Frumlög sagna á borð við vantar og langar eiga að vera í þolfalli. „Það á að segja mig langar ekki mér langar.“ Þessa möntru kannast allir eflaust við. Á móti kemur að hún er einfaldlega röng. Málfræðilega séð er bæði rétt að segja mig langar og mér langar, samt á sér stað upphafning á þolfallinu og þágufallið er stimplað sem sýki (Ari Páll Kristinsson 2017). Þetta tiltekna atriði er einungis ein af mörgum undarlegum og forneskjulegum hefðum sem má finna í íslenskum málstaðli. Sá staðall myndaðist á 19. öld og var í þróun fram á fimmta áratug 20. aldar. Lokahönd var lögð á staðal vandaðs ritmáls fyrir um það bil áttatíu árum. Það skal ekki teljast undarlegt að spyrja spurninga um það hversu viðeigandi slíkur staðall er í dag (Eiríkur Rögnvaldsson 2015).
Líklega myndu hin þágufallssýktu fórnarlömb ekki telja það smekklegt að þau séu borin saman við fórnarlömb raunverulegra harðinda.
Sífellt er deilt um rétta notkun á málinu. Eldra fólk talar gjarnan um „lélega“ íslensku unga fólksins og unglingar slengja á milli sín ýmsum slangurorðum sem einungis jafnaldrar þeirra skilja. Stór spurning vaknar við þessar vangaveltur, spurning sem líklega má ekkert svar finna við. Hvenær verður einhver tiltekin málnotkun „rétt“? Það má segja að ef málnotkunin er hluti af málkunnáttu íslenskumælandi fólks er hún óumdeilanlega rétt en hversu marga íslenskumælandi einstaklinga þarf til þess að svo verði, væri til dæmis hægt að segja að slangur unglinga sé rétt málnotkun ef yfirgnæfandi meirihluti þeirra notar það? Fólk notar mismunandi mál við mismunandi aðstæður og þar að auki hefur hver og einn einstaklingur sín persónulegu málviðhorf og málviðmið. Það þýðir einfaldlega að einstaklingurinn hefur að einhverju leyti sína eigin persónulegu útgáfu af málinu. Hann velur ákveðin orð fram yfir önnur, segir þau frekar í þessari röð heldur en hinni og svo framvegis (Ari Páll Kristinsson 2017).
Eigum við að halda í fordæmda fantasíu um fagurfræðilega yfirburði þolfallsins eða gefa baráttuna upp á bátinn og leyfa fólki að tjá sig eins og því finnst eðlilegast?
Réttu spurningarnar snúast um það hversu langt við eigum að ganga í því að viðhalda fornum stöðlum. Eigum við að halda í fordæmda fantasíu um fagurfræðilega yfirburði þolfallsins eða gefa baráttuna upp á bátinn og leyfa fólki að tjá sig eins og því finnst eðlilegast? Eigum við að stofna til málfræðilegrar byltingar, henda fornum hefðum í sjóinn og byggja upp nýjan og nútímalegan staðal? Eitt er ljóst: við getum ekki barist gegn straumum samfélagsins. Þágufallssýkin hefur sýnt okkur það. Til hvers væri slík barátta? Ef hún er einungis byggð á fagurfræðilegum grunni eru líklega mikilvægari orustur í vændum. Orustur tengdar tækniþróun, alþjóðavæðingu, enskuvæðingu og öðrum öflum sem herja nú þegar á íslenska tungu. Kannski ættum við einfaldlega að leyfa tungumálinu okkar að þróast á sinn náttúrulega hátt og beita okkur frekar gegn því sem hótar að gera út af við það.
Heimildir
Ari Páll Kristinsson. 2017. Málheimar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Eiríkur Rögnvaldsson. 2015. Hugrás.is. 15. nóvember. Skoðað 4. febrúar 2019. http://hugras.is/2015/11/ad-breyta-fjalli-stadli/.