Aðdáun á störfum
Að alast upp með tveimur systrum hefur haft ýmislegt gott í för með sér. Eitt af því skemmtilegra sem við systurnar gerðum var að hafa huggulegheit heima (líka þekkt sem kósýkvöld) og horfa á klassíska stelpumynd. Í flestum þessara mynda þá er einhver sæt stelpa sem hittir sætan strák, átök koma fram í miðjunni en svo reddast allt og sæta stelpan og sæti strákurinn byrja saman.
Í afar fáum myndum er þessi sæti strákur einhver meðaljón, hann er annað hvort læknir eða lögfræðingur, hávaxinn og dökkhærður eða skandinavískur og ljóshærður. Þessi sæti strákur er oftast ekki þessi týpíski strákur sem labbar Laugaveginn eða djammar á B5. Nei, það gerir hann svo sannarlega ekki. Í stað þess að eyða kvöldinu á B5 þá er hann að taka á móti sexburum í neyðarkeisara eða frelsa alla úr þrælkunarbúðum í Norður-Kóreu.
Sæti strákurinn er nefnilega oftar en ekki einhver útgáfa af ofurmenni. Hann hefur hæfileikana, aurinn, útlitið og sjarmann, þ.e. með öðrum orðum þá er hann allur pakkinn. Þegar sæta stelpan hittir fyrst sæta strákinn þá beinast spjótin oft að vinnu hans. Frasar eins og „hann er hjartaskurðlæknir“ eða „hann er mannréttindalögmaður“ hafa heyrst ófáum sinnum á þessum kósýkvöldum okkar systra.
Mr. Cleaver og Mr. Darcy
Sem dæmi má nefna hina góðkunnu mynd, Bridget Jones (betur þekkt sem Birgitta Jónsdóttir). Í þeirri mynd keppast tveir menn um hylli hennar, annar er mannréttindalögmaðurinn Mr. Darcy en hinn, Mr. Cleaver sem vinnur hjá bókaútgáfu.
Í byrjun virðist Mr. Cleaver vera algjör herramaður en hann reynist síðan vera algjör drullusokkur. Mr. Darcy er þó algjör hrokagikkur en eftir því sem líður á myndina þá verður hann að draumaprinsinum. Þó svo að störfin eigi ekki beinan þátt í hvernig persónuleikar þeirra eru þá hefði kannski verið jafnara ef annar væri læknir og hinn lögfræðingur.
Bókaútgefandinn er nefnilega ekki með heillandi starfsheiti en skv. mömmu Bridget þá er mannréttindalögmaður draumastarfið fyrir tilvonandi tengdason. Nú er spurningin: af hverju þurfti Darcy að vera mannréttindalögfræðingur en ekki smiður? Hefði það breytt myndinni ef starfsheitum þeirra hefði verið víxlað?
Hefur starfsframi svona mikil áhrif á makaval?
Annað dæmi er í hinum sívinsælu Friends þáttum. Í einum þætti byrjar Rachel að hitta tengdaföður Ross og segir að það skipti máli að hann sé afar farsæll lögfræðingur. Mætti þá túlka það svo að ef tengdafaðirinn hefði verið farsæll bókaútgefandi þá hefði hún hætt að hitta hann? Hefur starfsframi svona mikil áhrif á makaval?
Þessi aðdáun á tilteknum störfum er komin út í öfgar. Það eru gerðir ótal þættir um störf lækna og lögfræðinga. Sárasjaldan eru þættir þar sem fylgt er eftir ungum jarðfræðingum reyna að fóta sig í lífinu eða líf og störf starfsmanna á verkfræðistofum. Af hverju eru læknaþættir eftirsóttari en jarðfræðiþættir? Af hverju ætti að skipta máli hvort einstaklingur sé læknir eða kennari?
Þó svo að læknar bjargi mannslífum þá gera hjúkrunarfræðingar það líka.
Bæði störfin eru mikilvæg þó svo að launin sýni það ekki. Það þykir líka enn vera ákveðinn sjarmi yfir því að fara í læknisfræði eða lögfræði. Öll störf eru mikilvæg og það að það sé 2019 og fólk sé enn að setja sum störf á hærri stall er út í hött. Þó svo að læknar bjargi mannslífum þá gera hjúkrunarfræðingar það líka.
Smiðir sjá til dæmis um að byggja húsin sem við búum í, íslenskufræðingar passa meðal annars upp á að tungumálið glatist ekki og kennarar mennta æsku landsins. Störfin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Hugsanlega mun fjórða iðnbyltingin breyta þessum áherslum og hetjur framtíðarinnar verði aðrar og þá verða e.t.v. framleiddar strákamyndir þar sem draumaprinsessurnar eru tölvunarfræðingar og þrívíddarhönnuðir.