Í völundarhúsi íslenskunnar: Að skilja stöðu íslenskunnar á tímum tækni- og alþjóðavæðingar

Pistill: Sigríður Láretta Jónsdóttir, slj6@hi.is

Ég sit á Stofunni og hlusta á niðinn af samtölunum í kring um mig. Íslenskar unglingsstelpur spila Harry Potter borðspil og velta fyrir sér enska orðinu yfir „vitsugur“. Fyrir framan mig sitja mæðgin í djúpum samræðum á tungumáli sem hljómar indverskt. Þegar ég rek mig í borðið þeirra á leiðinni á salernið segi ég excuse me, strákurinn brosir til mín og segir „ekkert mál“ á skýrri íslensku. Ég velti fyrir mér hvort hann sé þrítyngdur þar sem hann talar við afgreiðslumanninn á amerískri ensku. Þegar ég geng aftur að borðinu mínu heyri ég glefsur úr hröðu, spænsku samtali tveggja túrista og greini nokkur orð: clima, gasolina og difícil. Ég sest við borðið og afgreiðslukona tekur bollann minn. Hún spjallar stuttlega við vinkonu sína sem situr fyrir aftan mig. Tungumálið gæti verið portúgalska, pólska eða rússneska. Ég hef aldrei verið með gott eyra fyrir portúgölsku og finnst hún alltaf hljóma austur evrópsk.

 Við erum þrátt fyrir allt heppin að eiga gróskumikið, lifandi móðurmál. Kannski ber okkur skylda til að styrkja það?

Ég set í mig eyrnatappa og einbeiti mér að lesefninu, heimildir fyrir pistil þar sem á að fjalla um  íslenskuna í ólgusjó tæknibyltingar og alþjóðavæðingar. Í hvert skipti sem ég held að ég sé að nálgast skilning á efninu bætist nýr flötur á málið. Ég veit að Íslendingar hafa ekkert annað val en að rækta íslenskuna. Fræðimenn hafa bent á að þó að enskan sé komin til að vera væri skelfilegt ef við reyndum að taka hana alfarið upp í stað íslenskunnar.[1] Samkvæmt Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, myndum við hætta á að ala upp kynslóðir barna sem hefðu hvorki móðurmálsfærni í ensku né íslensku.[2]  Ég veit að við þurfum móðurmálsfærni í einu máli fyrir eðlilegan heilaþroska svo ég sé allt í einu fyrir mér hóp af börnum sem hugsa og tala eins og Salvatore í þýsk-frönsk-ítölsku myndinni The Name of the Rose. Hann tjáði sig á blöndu af þremur tungumálum sem oftast laut engum reglum. Eða kannski yrðu þessar kynslóðir eins og heyrnarlausu börnin í Nicaragua á áttunda áratugnum. Þar var ekkert opinbert táknmál og börnin ólust upp án móðurmáls. Þegar loks var stofnaður skóli fyrir heyrnarlausa hófu þau að tjá sig hvort við annað með handahreyfingum og til varð nýtt tungumál: Grunnurinn að hinu opinbera táknmáli Nicaragua. Ég anda léttar. Okkur er kannski óhætt að taka enskuna alfarið upp? Við gerum bara eins og krakkarnir í Nicaragua og brúum móðurmálslausu árin með því að búa til nýtt mál. Ég lít sjálfsánægð í kring um mig en enginn virðist meðvitaður um að ég hafi gert stórkostlega uppgötvun. Ég verðlauna mig með kökusneið en sem ég klára síðasta bitann rennur af mér sigurvíman. Væri kannski aulalegt ef við gerðumst sjálfviljug mállaus? Er til einfaldari lausn en að skipta um tungumál? Við erum þrátt fyrir allt heppin að eiga gróskumikið, lifandi móðurmál. Kannski ber okkur skylda til að styrkja það? Ég les fleiri heimildir og lít skömmustulega í kring um mig, fegin að hafa ekki deilt þessari hugsnilli með kaffihúsagestum.  

Þó staða íslenskunar sé óviss vinna fræðimenn hörðum höndum að því að rækta málið og kanna hvaða áhrif tæknibyltingin hefur á málumhverfi okkar.[3] Nýlega var birt verkáætlun undir nafninu Máltækni fyrir íslensku 2018–2022. Markmið áætlunarinnar er að tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og tungumálinu verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar. Í áætluninni er stungið upp á notkun sjálfvirkar talgreiningu í lestrarkennslu: Börn eða erlendir nemendur myndu lesa texta upp fyrir tölvu sem metur hversu vel þeim tekst til.[4] Í skýrslunni er líka lögð mikil áhersla á samstarf við stórfyrirtæki á borð við Google, Amazon, Apple og Microsoft sem og annað alþjóðlegt samstarf.

Spurningin um stöðu íslenskunnar er flókin. Hún tengist þróun hugbúnaðartækni, málefnum innflytjanda, menntamálum, fornbókmenntum og snjalltækjanotkun unglinga.

Ég ranka við mér í djúpum hugleiðingum um áhrif talgreiningar á samskiptafærni barna þegar ég átta mig á því hversu mikið málrækt hefur breyst. Fyrir rétt rúmum tvö hundrað árum var stærsta ógnin gegn íslenskunni danskan og því var spáð að árið 2013 myndi enginn Íslendingur lengur skilja íslensku. Þessar spár um dauða málsins okkar endurspeglast í umræðu nútímans. Þá sem nú var vísað í sögulegt samhengi íslenskunnar og mikilvægi þess; þá staðreynd að við getum lesið forntextana okkar. Það er beinlínis skrifað í málstefnu stjórnvalda að viðhalda beri þessum tengslum milli lifandi máls og fornbókmenntanna.[5] Á tímum Rasks og Fjölnismanna voru pólitískar ákvarðanir teknar til þess að snúa þróuninni við líkt og við sjáum nú með stefnu ríkisstjórnar á sviði máltækni. Sagan endurtekur sig en þó með breyttu sniði og nýjum áskorunum.

Á nýafstöðnu Hugvísindaþingi gerðu Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði og áðurnefndur Eiríkur Rögnvaldsson grein fyrir hluta af niðurstöðum úr öndvegisverkefni sínu. Verkefninu, sem ber heitið Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, er meðal annars ætlað að greina stöðu íslenskunnar á tímum mikilla enskra áhrifa í gegnum stafræna miðla og snjalltæki.[6] Niðurstöðurnar sýna hversu mikilvægar áætlanir eins og Máltækni fyrir íslensku 2018–2022 eru. Til dæmis hefur komið í ljós að hlutfall barna sem byrja að nota netið fyrir tveggja ára aldur hefur á sex árum farið úr tveimur prósentum upp í 58 prósent. Þá tala tuttugu og níu prósent sex til sjö ára barna og fjörutíu og sjö prósent átta til níu ára barna stundum ensku við íslenskumælandi vini sína.[7]

Á meðan ég geng frá töskunni minni og rölti um Grjótaþorpið hugsa ég um það sem ég hef lært. Spurningin um stöðu íslenskunnar er flókin. Hún tengist þróun hugbúnaðartækni, málefnum innflytjanda, menntamálum, fornbókmenntum og snjalltækjanotkun unglinga. Ég hugsa um orð Eiríks Rögnvaldssonar sem segir að við getum ekki ályktað hvaða áhrif tæknivæðingin hefur á íslenskuna. Við höfum engan samanburð. Við lifum á spennandi og óútreiknanlegum tímum. Okkur kann að finnast tæknivæðingin ólgusjór sem dynur yfir okkur og hamlar okkur sýn. Og við getum ekki reiknað út áhrif alþjóðavæðingar, við höfum aldrei upplifað hana jafn sterkt og nú. Sjálf hef ég orðið áttavillt við að skilja stöðu íslenskunnar í þessari óvissu. En ástríða þeirra sem vinna við ræktun málsins er nokkurs konar leiðarvísir. Sérfræðingar á sviði tölvunarfræði og íslensku keppast við að skilja, greina og koma auga á tækifæri íslenskunnar. Við höfum ekkert annað val en að taka þátt, rækta málið og fagna óvissunni í ólgusjó tæknivæðingar.

Heimildir

[1] Viðtal við Sigríði Sigurjónsdóttur (2019). Og: Viðtal við Eirík Rögnvaldsson (2018). „Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum“.

[2] Viðtal við Eirík Rögnvaldsson (2018). „Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum“.

[3] Viðtal við Sigríði Sigurjónsdóttur (2019); Viðtal við Eirík Rögnvaldsson (2018). „Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum“.

[4] Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (Júní 2017). Bls. 153

[5] Stjórnarráð Íslands. (16. Nóvember 2012). Og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (Júní 2017).

[6] Anna Ragnheiður Jörundardóttir um málstofu á Hugvísindaþingi. 15.02.2019.

[7] Viðtal við Sigríði Sigurjónsdóttur (2019). Og: Viðtal við Eirík Rögnvaldsson (2018). „Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum“.

Heimildarskrá

Anna Ragnheiður Jörundardóttir um málstofu á Hugvísindaþingi. (15.02. 2019). „Starfrænt

málsambýli íslensku og ensku: Staða og fyrirliggjandi niðurstöður öndverðisverkefnis.“

Hugvísindaþing. Sótt 18.03. 2019 af http://hugvisindathing.hi.is/malstofur/stafraent-

malsambyli-islensku-og-ensku-stada-og-fyrirliggjandi-nidurstodur-ondvegisverkefnis/.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (Júní 2017). Máltækni fyrir íslensku 2018-2022,

verkáætlun. Reykjavík: Anna Björk Nikulásdóttir, Jón Guðnason  og Steinþór Steingrímsson. Sótt 10.03.19 af

https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=56f6368e-54f0-11e7-941a-005056bc530c

Viðtal við Eirík Rögnvaldsson (2018). „Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum“. RÚV

(13.07.2018). Sótt 19.03.19 af http://www.ruv.is/frett/islenskan-ekki-ad-deyja-ut-a-naestu-arum

Viðtal við Sigríði Sigurjónsdóttur (2019). „58% byrja að nota netið

fyrir 2ja ára aldur“. RÚV (09.03. 2019). Sótt 10.03.19 af http://www.ruv.is/frett/58-byrja-ad-nota-netid-fyrir-2ja-ara-aldur

SjónarmiðRitstjórn