VIÐ TJÁÐUM OKKUR EN HÉLDUM MANNORÐINU

Ljósmynd/Einar Aðalsteinsson

Ljósmynd/Einar Aðalsteinsson

Jólabókaflóð ríður yfir. Það eru samt ekki allir að gefa út bækur! Halldór Armand Ásgeirsson er í þeim hópi. Hér er hann tekinn tali og tekið tal berst að ýmsu sem tal á helst ekki að berast að. Og skáldskapur er ræddur: fjármál rithöfunda. Tungumálsins framboð og eftirspurn. Svo ýmislegt: fullnaðarsigur samfélagsmiðla á listrænni miðlum, pólitískur rétttrúnaður, karlar í Morfís. Sum sé, hér kveður við sama tón og var sleginn af skáldinu forðum: hvað mun veröldin vilja, hún veltist um svo fast.

Þetta tölublað fjallar um fjármál og hverjir kvíða fjármálum meir en hugvísindamenn. Stórar hugsanir, snauðir menn. Virkilega snauðir menn. Rithöfundar geta ekki haft ritstörf að atvinnu lengur. Um það snýst þetta viðtal, um peninga, fé. Fyrst og fremst um allt aðra hluti samt, því eins og við vitum kemur af fé lopi og hvað gerir maður annað við lopa en að spinna hann og teygja, allt út í hið óþekkjanlega.

Það er jólabókaflóð. Ég veit, hversu deprímerandi og klisjukennt viðfangsefni, bækur. Sá úreldi miðill. En Ísland kvað enn vera bókaþjóð. Ég sló til og tók viðtal við rithöfund. Með óhefðbundnu sniði: hann er ekki að gefa út bók um jólin. Ég kærði mig nefnilega ekki um að gefa öðrum örvæntingarfulla höfundinum vettvang til að túlka á ódýran hátt eigin bók og láta svo eins og bókin byggi, eftir allt, á einhverju skelfilegu, oft mestan part uppdiktuðu, tráma. Allt til að hjálpa honum í óðakappinu við að selja eigin bók.

Markmið mitt var frekar að fá innsýn í upplifun þess sem horfir á jólabókaflóðið að utan. Einhvers sem er ekki í miðjum flauminum heldur fylgist með flóðinu eins og maður fylgist með fellibyl í Asíu á vídjóveitu BBC.

Halldór Armand Ásgeirsson lá vel við höggi. Hann býr ekki einu sinni á Íslandi heldur í Berlín, og gaf síðast út skáldsögu í fyrra, Aftur og aftur. Við FaceTime-uðum og hvað kom í ljós? Að skáldsagan sé dauð? Að samt leynist vonartíra fyrir þá sem vilja skrifa? Að þá þurfi fólk samt að beygja sig undir hugmyndafræðileg og listkúgandi markaðslögmál?

Halldóri er umhugað um óhefta hugsun og frjáls orð, nokkuð sem á óneitanlega undir högg að sækja á þessum viðsjárverðum tímum. Við ræddum þau mál en reyndum um leið að átta okkur á þeirri forréttindaslikju sem kvað sveipa okkur báða. Ég byrjaði því á að spyrja mig: var ég að taka viðtal við Halldór eða við sjálfan mig?

Enda ég á að verða að þér, sjálfum mér?

Ég var stressaður um þetta sem ég sagði þarna í lokin. Að þetta yrði hvítur menntalúser ég að taka viðtal við fyrirmyndina sína og upphefja hann til skýjanna. Fyrirvari settur.

Hver ertu? Eða hvaða stoppistöðvar eru skýrt merktar á leiðinni hingað? Er ég bara að taka viðtal við sjálfan mig hérna? Þú varst allavega ekki í MR.

„Ég byrjaði í MR sko.“

Þar fór það.

„En skipti svo yfir í MH.“

Og svo fór Halldór í lögfræði í HÍ. Ætlaði alltaf að verða augnlæknir. Það fór forgörðum; áhugi á anatómíu takmarkaður eftir allt saman. Það eigum við sameiginlegt. Sem og að vera eða hafa verið blaðamenn á Morgunblaðinu.

En grunngráða í lögfræði, sem sagt. Svo meistaragráða, með eins árs skiptinámi til Spánar.

Af hverju lögfræði?

„Ég endaði í Morfís í MH. Fólkið sem þjálfaði mig þar voru mikið til laganemar. Óhjákvæmilega urðu þau fyrirmyndir manns. Þannig að þegar kom að því að velja háskólanám valdi ég þetta bara. Í hreinskilni sagt vissi ég bara ekkert hvað ég ætti að gera við líf mitt, þannig séð. Ég var til dæmis búinn að ákveða að hætta í þessu námi ef ég næði ekki almennri lögfræði. En ég náði henni. Og endaði með meistaragráðu. En ég fór í þetta upprunalega bara því ég leit upp til fólks í lagadeild og hafði áhuga á réttarheimspeki. Af hverju við setjum lög og á hvaða grundvelli og hvort þau séu nauðsynleg og svo framvegis. Þessu hafði ég áhuga á. En ég sá þetta nám aldrei sem drög að starfsferli.“

Allt eðlilegt við það... óvart meistaragráða í lögfræði. Eitthvað segir mér hugur um að því sé eins farið hjá mörgum þunglyndum möppudýrslögmönnum víða um bæ. En ég sé að fyrirmyndir eru mikilvægar.

Þú ert sjálfur örugglega fyrirmynd margra wannabe-gáfumenna í Reykjavík. Eru menntaðir forréttindaseggir eins og ég og þú óvinurinn sjálfur?

„Þú bara verður að burðast með forréttindasektina og gjörvallt karlkynið og glæpi þess á herðunum alla tíð. Nei, satt best að segja leiðast mér óskaplega svona einvíðar umræður þar sem dregnar eru breiðar og ódýrar strokur yfir heilu hópana til að eitra þá, finnst þær óagaðar og hef lítið fram að færa í þær.“

En er ekki hlægilegt hversu grunsamlega líkar lífsbrautir t.d. okkar eru?

„Nú þekki ég ekki nákvæmlega þinn bakgrunn, en nei, það er ekkert hlægilegt við þetta, finnst mér. Það er bara beisikk. Þetta er íslenska merkingin, íslenski veruleikinn, íslenska bensínstöðin. Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er hvítasta og einsleitasta fótboltalið í heimi og það sama á vitaskuld við um íslenskt samfélag í heild sinni, þótt við séum dugleg við að telja okkur trú um eitthvað annað. Þú og ég erum báðir sama kókómjólkurfernan, pulsan og Hvalfjarðargöngin. Við erum öll meira og minna með sama bakgrunninn, sömu lífsreynslu og sömu viðhorfin, öll með Kókómjólkurson og Pulsudóttir aftan á búningunum okkar og tökum þar af leiðandi viðtöl við okkur sjálf.

Einsleitni getur vissulega verið styrkur, einsleitni getur unnið England 2-1, en að sama skapi er þetta líka ástæða þess að Ísland er ekki mjög spennandi staður til lengdar fyrir þá sem fá kikk út úr fjölbreytni og orku og dýnamísku samfélagi.“

Þú nefndir Morfís. Er það ekki klassískt íslenskur-karlkyns-framapotari-á-fyrsta-áratug-21.aldar-dæmi?

„Æ, hvar á maður að byrja, maður. Ætlarðu með mig út á þessa ísbreiðu? Jesús. Í alvörunni? Getum við ekki frekar talað um heimspeki?“

Þetta er allt í lagi, við megum tjá okkur.

„Er þessi keppni ennþá til? Kæmi mér ekki á óvart ef það væri bara búið að setja lögbann á hana. En jú, jú, karlkyns framapotari á fyrsta áratug 21. aldar? Ég er sekur. Ég keppti í Morfís á síðasta árinu mínu í MH og þjálfaði síðar lið skólans. Margt af því fyndnasta og frumlegasta sem ég hef heyrt heyrði ég á Morfískeppnum. Sérstaklega voru Verzlingarnir alltaf skemmtilegastir. Það voru vissulega fleiri strákar en stelpur í Morfís þá en bestu ræðumennirnir voru af báðum kynjum.

Mér þykir vænt um þessa keppni, því hún gerði mikið fyrir mig, hjálpaði mér að yfirstíga alls konar óöryggi og sjálfsefa og svolítið að ná vopnum mínum í þessu lífi. Þetta var ótrúlega frjálst og skapandi umhverfi, blanda af leikhúsi, groddaralegu uppistandi og vitsmunalífi. En seinna meir varð vinsælt að hata þessa keppni af því of margir áberandi karlmenn höfðu ýft sínar skrautfjaðrir í henni.

Það var talað um Morfísvæðingu stjórnmálanna. Óttalegt rugl. Morfís sem ég man eftir var á hundrað sinnum hærra og frumlegra plani en þingfundir. En margir sem tóku þátt í keppninni óluðu sig á þennan hatursvagn og höfnuðu fortíð sinni. Það olli mér vonbrigðum og mér fannst það lykta af tækifærismennsku. Þú getur ekki bæði átt kökuna, borðað hana og síðan skilað henni og fengið til baka. Svo ég er kannski eini syrgjandinn við gröfina. Er þetta ekki annars fullkomlega irrelevant í dag?“

Irrelevant, spyr Halldór, for a lack of a better word á íslensku (og ég segi for a lack of a better word á ensku for a lack of a better word á íslensku fyrir for a lack of a better word). Og jú, Morfís er fullkomlega irrelevant, segi ég og muldra svo eitthvað um að eitruð karlmennska kunni að vera nauðsynlegt hráefni í keppnum eins og Morfís og hér erum við komnir á hálar slóðir svo að ég drep þetta tal. Eða birti það allavega ekki hér.

Relevant ríkislistamaðurinn

Það var nóg komið af ágengum forréttindaspurningum í bili. Komið að máli málanna: skáldskaparmálum. Það eru ekki forréttindi að vera skáld. Það er öllu heldur bölvun heyrist mér.

Halldór, ég ætla að láta þig vera með bakgrunninn. Segðu mér frá jólabókaflóðinu. Hvernig er að skálda hluti um eigin skáldskap í von um að selja hann?

„Það er erfitt að tala opinberlega um eitthvað sem stendur þér svona nærri, eins og skáldsaga sem þú hefur skrifað. Oft veist þú líka ekkert hvað bókin er. Þetta er bara eitthvert monster sem ætti að tala fyrir sig sjálft og standa á eigin fótum. Þá held ég að ég tali fyrir flesta rithöfunda. Að tala um eigin bók er nautn af sambærilegum toga og að flytja húsgögn. En þetta er auðvitað hluti af þessu, hvort sem manni líkar það betur eða verr.“

Maður verður að geta lifað á þessu, ekki satt?

„Lifað á þessu? Þetta snýst ekki um það. Þetta tengist peningum ekkert. Það er enginn peningur í þessu. Bara alls ekki neinn, nema kannski fyrir þá þrjá, fjóra höfunda sem selja mest. Þú græðir ekkert á að skrifa skáldsögur. Bókstaflega í alvöru ekki neitt.“

Þannig að þú reiðir þig með öllu á listamannalaun?

„Já. Í bland við önnur störf.“

Þú ert ríkislistamaður.

„Já. Þessi laun eru mjög sérkennilegt viðfangsefni. Og auðvitað er það dapurlegt hlutskipti að vera háður þessu, enda eiga höfundar að vera skeptískir á hvers kyns yfirvald og valdbeitingu að mínu mati. Enda dreymir alla höfunda sem ég þekki að losna undan þessu fargi. En svona er veruleiki okkar flestra.“

Það hlýtur að vera frekar frústrerandi, hugsa ég. Ríkisvaldið eins slags duttlungafullur Maecenas. En það eru mín orð. Halldór hefur fengið 3 mánuði á ári síðustu ár. Í janúar verður tilkynnt um úthlutun næsta tímabil. Þar til þá, veit hann ekkert hvort hann fær 0 mánuði, 3 eða 12. Hann sækir samt alltaf um 12.

Þessi iðja, skáldskapurinn, hefur þetta ekki alltaf verið hálfgert góðgerðarstarf?

„Nei, þetta er ástríðustarf, því þú ert að gera þetta fyrir sjálfan þig. Það skrifar enginn skáldskap nema að hann eða hún finni lífsfyllingu í bókum og skrifum sem ekki fæst annars staðar. En nú er svo komið að þekktir og establíseraðir höfundar eru komnir á vinnumarkað. Sá tími er liðinn að þeir geti lifað á verkum sínum.“

Það er reyndar slæm staða. Halldór lætur ekki stoppa sig, dæmigert, svo sem: rithöfundur að tala um fjármál. Þú þarft ekki að ýta nema aðeins við þeim og þeir láta dæluna ganga. Halldór:

“Sko ef ég á að halda áfram að tjá mig um fjármál rithöfunda þá ber hæst að nefna þetta, Snorri. Það er full-kom-leg-a sturlað hvað bækur eru dýrar á Íslandi. Sko, í alvörunni sturlað. Ég skil ekki af hverju þetta er ekki fyrsta frétt í kvöldfréttum öll kvöld. Og ég held að það hafi tryllingsleg áhrif á samfélagið. Og þetta eru áhrif sem enginn virðist vera að pæla í.“

Og fólk sem sagt tímir bara ekki að kaupa bækur og les því ekki?

„Ég held allavega að það séu ekki margir undir fertugu sem eru með 7000 krónur til reiðu til að kaupa sér eina, litla skáldsögu til yndislestrar. Bækur á Íslandi eru munaðarvara fyrir ríkt fólk og það er hryllilegt að hugsa til þess.“

Hér hugsa ég: ég hef keypt skáldsögur á 5-7 þúsund krónur og fundist þær svo lélegar. Það er ekki góð tilfinning. Ég spyr Halldór því hvað í fjáranum veldur þessu þá, þessu himinháa verði?

„Það er mjög flókin og erfið spurning sem er efni í annað viðtal. En þetta er ekki eðlilegt. Þetta er geðbilun. Þetta er svona small-talk vopn fyrir mig hérna í Berlín. Að spyrja fólk: hvað heldurðu að síðasta bókin mín hafi kostað á Íslandi í evrum? Svarið er 60 evrur. Fólk missir hökuna niður á gólf. Á meðan hérna í Berlín geturðu keypt nýlega bók á fimm til tíu evrur. Þetta skiptir meira máli en fólk vill vera láta, að maður geti skroppið út og kippt með sér bók heim. Ein bók til eða frá í lífi manneskju getur breytt mjög miklu. Öllu jafnvel.“

Það eru fín lokaorð, í bili, um geigvænlega stöðu á bókamarkaði.

Eru rithöfundar ekki skoðanaglatt fólk...

Þetta er bókin. Hún er dýr. Forlögin selja hana dýrt. Það á að styrkja þau núna, samkvæmt fögrum fyrirheitum menntamálaráðherra.

„Þetta er því miður bara þjóðremba vegna þess að hugmyndin með þessu er ekki raunverulega að lækka bókaverð almennt, heldur að styrkja það sem „íslenskt“ er,“ segir Halldór.

Gott og vel. Frekari rökstuðnings þarf svo sem ekki við. En á rithöfundur að láta svona út úr sér? Eða öllu heldur, af hverju láta rithöfundar æ minna út úr sér af pólitískum skoðunum?

„Ég held að ég sé ekki nógu gamall til þess að svara þessari spurningu.“

Halldór á við, að við erum fæddir eftir tíð manna eins og Halldórs Laxness eða Svövu Jakobsdóttur, til dæmis.

„Þetta er samt örugglega eitthvað tengt internetinu. Rithöfundar eins og aðrir eru bara mjög hræddir við að tjá raunverulegar skoðanir sínar. Það er landlægt vandamál og nær víðar.“

Vandamál? Að bjánar tjái sig sem minnst? Vandamál?

„Já. Við lifum því miður í ógnarumhverfi sem stórfyrirtæki sköpuðu, þar sem allt er straumlínulagað, þar á meðal húmor, viðhorf og sköpun. Afleiðingarnar eru hræðilegar. Svo já, allir geta tjáð sig en það er samt í raun enginn að því. Maður heyrir sjaldan spennandi, frumleg eða óvænt viðhorf opinberlega, einfaldlega vegna þess að það er hættulegt að segja hluti sem eru ekki fullkomlega sjálfgefnir eða viðteknir. Ég veit ekki með þig, en allir sem ég þekki eru hræddir við að tjá hug sinn. Allir með tölu og ég þar með talinn.“

Halldór er með vikulega pistla í Lestinni á RÚV. Þú ert nú með pistla. Það er tjáning.

„Já. Mér finnst það nú bara mjög mikið forréttindastarf, sem ég reyni að vera meðvitaður um og sinna af ábyrgð. Ég byrjaði snemma að skrifa svona pistla í Moggann. Fyrir tíma Davíðs meira að segja. En ég tek þetta mjög alvarlega, því það er ekki sjálfsagt mál að vera sífellt að spreyja viðhorfum sínum framan í annað fólk, hvað þá í Ríkisútvarpinu.“

Já. Forréttindastarf. Þungt hlass, samt, er það ekki?

„Þetta er náttúrulega á margan hátt ógeðfellt hlutskipti, að vera pistlahöfundur. Þú ert að tjá þig, þú ert að gagnrýna og ota fingrinum út í loftið, þú ert að „stinga á kýlunum“, en það er á sama tíma ekkert í húfi fyrir þig. Þú ert ábyrgðarlaus kjaftaskur. Ég yrði aldrei dreginn til ábyrgðar fyrir einhver möguleg áhrif sem pistillinn minn kynni að hafa. En samt á það að vera punkturinn með pistlinum? Svo hræsnin er innbyggð í starfið.“

Pistillinn þinn hefur áhrif.

„Ókei, segjum að svo sé og að rödd mín skipti máli. Hvað heldurðu að myndi gerast ef ég myndi tala fyrir innrásarstríði í annað ríki í pistli á RÚV? Ef það yrði svo háð styrjöld og að pistillinn minn hefði haft áhrif á þá ákvörðun og veitt henni brautargengi? Ég myndi ekki bera neina ábyrgð. Ekkert myndi koma fyrir mig. Ég hefði ekkert í húfi. Jafnvel þótt þúsundir sakleysingja myndu kannski láta lífið vegna einhvers sem ég talaði fyrir og hafði áhrif á. Mér finnst þetta ekkert gamanmál.“

Ef þú mættir velja einn her til að ráðast inn í eitt land, hvað myndir þú velja?

„Ætli ég væri ekki hundraðshöfðingi í mongólska hernum á þrettándu öld undir Genghis Khan. Frumlegur náungi, hann Genghis. Kaflinn um hann í bók um verst innrætta fólk mannkynssögunnar var mjög góður. Að ráðast inn í höfuðstöðvar Facebook væri réttlátt stríð, held ég, samkvæmt reglum þjóðaréttar.“

Og þar höfum við það. Áhrif eru náttúrulega margslungið fyrirbæri. Halldór hefur haft áhrif á mig, til dæmis. Ég er sjálfur með pistla í útvarp sem ég vona að séu eitthvað ögn meira en ódýr eftirherma af hans pistlum. Svoleiðis er það.

Ljósmynd/Einar Aðalsteinsson

Ljósmynd/Einar Aðalsteinsson

Íslensk tunga söluvænleg afurð. What!

Eins og ég segi: þetta viðtal er viss sjálfshjálp fyrir mig líka. Halldór er bara gaur sem býr í Berlín og hefur hér um bil frjálsar hendur um líf sitt. Það er draumi líkast í mínum augum. Er þetta hægt? Er hægt að lifa á því að vera rithöfundur, spurði ég þegar ég hóf að skrifa þetta viðtal niður, Halldór, er eitthvað að fá upp úr krafsinu?

„Ekki úr skáldsagnaskrifum, nei.“

En hvað ertu þá að gera í leiguíbúð í Berlín, hvernig heldurðu þér uppi?

„Ég er bara textamaður. Ég er alltaf að sjá fyrir mér eigin andlátstilkynningu í Morgunblaðinu: Halldór Armand Ásgeirsson textamaður er látinn í Berlín. Eða Halldór Armand Ásgeirsson textamaður bjó í Tælandi síðustu árin og fékkst við textagerð. Hann var ókvæntur og barnlaus.“

Já, þetta er sorglegur titill. Textamaður. Auglýsingastofudrulla af verstu sort. Hvað gerir hann, textamaðurinn?

Hér hlær Halldór. „Textamaður er gott, sko. Ég sé ekkert sorglegt við þann titil. Finnst hann bara lýsandi og ber hann með stolti. Ég er manneskja sem lifir fyrir hið ritaða mál. Ég nýt þess að skrifa, hvort sem það er skáldskapur eða pistlar eða lögfræðitexti eða leiðbeiningabæklingur um hurðarhún, og hef ekki áhuga á því að gera neitt annað við líf mitt. Og það er verðmæt kunnátta að geta beitt tungumálinu með ólíkum hætti.“

Verðmæt? Ég er skeptískur. Töluvert bar á þessu slagorði þegar ég var á fyrsta ári í íslensku og það var verið að hughreysta okkur íslenskunema með því að segja að það væru alveg einhver störf til fyrir fólk eins og okkur. Þá var þetta sagt, að textavinna væri að verða verðmætari.

Meinarðu þetta, er von?

„Já. Íslenska er, þrátt fyrir allt, ennþá opinbert tungumál á Íslandi. Og meðan svo er, þá er svo sannarlega verðmætt að geta hugsað á íslensku og miðlað þessari hugsun á vönduðu, fallegu og lipru máli. En það er ekki nóg að vera góður í íslensku. Að vera góður í íslensku gerir þig ekki sjálfkrafa að fjölhæfum penna.“

Þér tekst alla vega að komast af.

„Ég er náttúrulega ekki í fastri vinnu og ég held ekki uppi fjölskyldu, bý í ódýrri borg, lifi mjög spart og er heppinn að skulda ekki námslán. Leigumarkaðurinn hér í borg er ekki sama ómannúðlega og stjórnlausa kapítalíska helvítið og í Reykjavík. Ég er líka heppinn að því leyti að ég á íbúð í Reykjavík sem fjölskylda mín hjálpaði mér að kaupa. Skáldsögurnar mínar hefðu ekki getað fjármagnað hana. Þetta líf er enginn munaður, en þetta virkar, vegna þess að maður er bæði lánsamur og nægjusamur. Svo nei, ef þú vilt góð laun og lifa hátt, þá skaltu gera eitthvað annað við líf þitt. En ég sjálfur hef bara áhuga á því að lesa og skrifa, svo ég hef lifað fyrir það síðan ég útskrifaðist úr lagadeild. Og ég hef einfaldlega verið svo heppinn að geta það.“

Þú saknar ekki Fróns? Sorrý að ég sagði Fróns þarna.

„Ekki í augnablikinu, nema vitaskuld fjölskyldu minnar. Berlín er besti staðurinn og hér er mikið pönk í loftinu sem ég laðast að.“

Þetta er allt saman hughreystandi. Þetta er sem sagt hægt. Skáldið sagði: það er hægt. Bara eins og Íslandsbanki sagði: það er hægt. Hægt. Hægt að komast af sem hugvísindamaður í samfélagi manna sem hatar andleg málefni og húmanisma. Sem hatar óhagnýta þekkingu. En má vera, að jafnvel í allri þessari andúð á þekkingu fyrir þekkingarinnar sakir, og á list fyrir listarinnar sakir,

Hér verða skil og rétttrúnaðurinn raknar upp.

að skáldsagan lifi af?

„Ég veit það ekki. Íslendingar eru held ég heimsmethafar í Facebook-notkun og skáldsögur kosta jafnmikið og utanlandsferðir hér á landi. Það gefur ákveðna vísbendingu. Það kemur þess vegna ekki á óvart að bóksala hafi minnkað um 50% á síðustu 10 árum á Íslandi. Það þýðir einfaldlega að árslaun rithöfunda hafa að meðaltali minnkað um 50%.“

Af hverju ertu þá að þessu, að skrifa skáldsögur, ef enginn nennir að lesa þær?

„Það er bara það sem færir mér ánægju og lífsfyllingu. Ég á bara svo erfitt með að meta þetta. Les fólk ekki skáldsögur lengur?“

Það er meiri áhugi á sjónvarpsefni.

„Örugglega. Og sífellt meiri. Og menningarumræður hafa færst mjög frá listum. Þegar þú hittir vini þína á barnum talið þið frekar um hvað var sagt á Twitter en hvað stendur í nýrri skáldsögu, er það ekki? Mér skilst að einu sinni hafi fólk talað um skáldsögur í matarboðum, en það var fyrir mína tíð. En skáldsagan mun lifa, þótt hún sé ekki lengur mátturinn og dýrðin í menningarumræðum.“

Jú, svona þegar þú spyrð. Fyrirvari: þetta umræðuefni er þess eðlis að maður verður gamall karl á að tala um það. Hvað er að breytast hérna? Er ekki athyglisbrestur ungu kynslóðarinnar grunn skýring?

„Ég er hræddur um að ég sé rangur maður að spyrja. Ég er bara eins og einhver forn-Grikki og veit ekkert hvað „unga kynslóðin“ gerir við tíma sinn þótt ég sé á Instagram. Samfélagið breytist bara. Nútíminn er óneitanlega heimur hins sjónræna og þetta er góður og áhugaverður tími til að vera sviðslistamaður. En ég sjálfur horfi aldrei á neitt. Það hefur bara aldrei verið mitt dæmi, því miður. Ég les hins vegar mikið. Ég er bara þannig forritaður og alinn upp. En án þess að vilja upphefja bóklestur óþarflega, þá grunar mig að þetta geti verið alvarlegt mál, ef fólk er hætt að lesa, einfaldlega vegna þess að lestur hefur einfaldlega gegnt mjög mikilvægu hlutverki fyrir mannkynið í afskaplega langan tíma.“

Ég er eins, ég næ ekki að halda athygli við sjónvarpsefni. En já. Einmitt. Rithöfundur að barma sér yfir minnkandi lestri. Halldór virðist samt hafa eitthvað meira að segja. Hann hikar. Talar svo:

„Sko. Þetta hljómar kannski eins og alger elítismi og ef svo er þá er þetta heimska og ég gengst við því.“

Þetta byrjar vel.

„Ég tengi saman minnkandi lestur á skáldsögum og bókum við þessa pólaríseringu sem  er í gangi í heiminum, þessi einvíða og svarthvíta veruleikasýn sem er farin að tröllríða öllu.“

Jahá. Þú átt við að það sé tenging á milli, ja, köllum það pólitískan rétttrúnað, á milli hans og minnkandi lestrar á skáldsögum.

„Sko: tökum bara dæmi. Þú ert með skáldsögu. Í henni er ógeðslegur karakter. Þú getur samt haft samúð með honum og jafnvel elskað hann. Þetta getur skáldsagan af því að hún bókstaflega þröngvar þér inn í hausinn á þessari manneskju. Þannig verður lífsreynsla annarrar manneskju hluti af þínum einkaheimi. Bókin hefur enn þá þennan ás umfram aðra miðla.“

Ókei. Ég skil hvert Halldór er að fara. Og ég er sammála honum. Texti er milljón sinnum meira abstrakt en bíó. Texti hefur bókstaflega jafnmargar hugsanlegar túlkanir og lesendur hans eru margir. Einhliða hugsun, svarthvít, kallar svo á einhliða listmiðlun, sjónræna.

En pólitískur rétttrúnaður. Hvað áttu við með því?

„Það varst þú sem notaðir þau orð.“

Hringurinn lokast. Jólabókaflóð aftur. Eru þetta allt saman eintómar boðskapsbókmenntir?

Já, ég er að reyna að fá fólk til að lesa þetta. Reynum bara að orða einhverja hluti hérna sem hafa vægi og það án þess að missa mannorðið.

„Ókei. Við getum kallað svarthvíta hugsunarháttinn sem einkennir menninguna okkar núna pólitískan rétttrúnað, en þetta er meira en svo. Það er bara enginn náungakærleikur í loftinu. Þetta eru dimmir tímar. Ég held að það speglist meðal annars í þessum minnkandi lestraráhuga að þjóðfélagsumræðan rúmar í auknum mæli aðeins einvíða túlkun á veruleikanum. Eitt rétt, annað rangt. Eitt gott, annað illt. Og svo framvegis. Skáldsaga snýst á endanum um mannskilning, að sýna þér veruleika annarra í algjörri nálægð, og skapar þannig samúð og kærleika. Þessu trúi ég. Það er ómetanlegt og verður ekki leikið eftir.“

En hvað er svona svarthvítt við heimsmynd fólks?

„Það er kannski ekki endilega heimssýn fólks. En öll umræða er orðin þannig, klikkbeitur og 280 stafabil. Það er ekki pláss fyrir neina núansa, heldur alltaf bara eitt svar og eina skoðun, oft bara eina setningu. Og þetta leiðir til þess að fólk hefur einn séns. Við lifum í ógnarumhverfi sem á það til að kalla fram það versta í okkur. Þú þarft bara eitt feilspor, eina vitlausa eða gamaldags skoðun, og þú ert afskrifaður. Það eru allir skíthræddir við að misstíga sig og möguleikinn er raunverulega fyrir hendi að þú segir eitthvað off, eitthvað sem samræmist ekki hugmyndum tíðarandans um rétt og rangt, og þá er kveikt undir þér áramótabrenna á Twitter og þú ert mættur í alla fjölmiðla. Líf þitt er búið, þú verður að óhreinum sokk og skóggangur tekur við.“

Þetta er ekki kjörlendi fyrir listsköpun, eða hvað? Hafa skáld kannski undanþágu frá þessum lögmálum?

„Þetta getur ekki annað en haft áhrif á listir og listamenn. Það þyrfti til dæmis mjög hugaðan höfund til að skrifa bók eins og American Psycho í dag. Og þurfti á sínum tíma, líka. Ég á bara við að þú verður núna að vera tilbúinn að vera tengdur beint og persónulega við umfjöllunarefnið þitt og hugmyndirnar sem þú vilt rannsaka sem listamaður. Það er mjög varhugavert, því list hefur einmitt verið alltaf verið hið eina sanna „safe space“ til að rannsaka alls konar króka og kima mannlegrar hugsunar og hegðunar.“

Nú byrjar Halldór að ræða mjög áhugaverða tilhneigingu:

„Við sjáum þess ótvírætt merki í dag að list, hvort sem það eru Hollywoodmyndir eða skáldsögur eða opnanir í listagalleríum í Berlín, er í auknum mæli kynnt og markaðssett á þeim forsendum að hún spretti úr sympatískum og jafnvel þjóðfélagslega mikilvægum jarðvegi. Það er hneigð í þessa átt, að baktryggja list sína hugmyndafræðilega skulum við segja. Þetta hefur úti í heimi verið kallað sigur hugmyndafræðinnar yfir fagurfræðinni. Fólk getur deilt um það hvort svo sé, en mér finnst þetta óneitanlega umhugsunarvert.“

Hér er ég sammála Halldóri. Í jólabókaflóðinu í ár og árin á undan hafa höfundar verið að mæta í blaðaviðtöl til þess að tengja bókina sína við misnotkun sem þeir urðu fyrir eða til þess að lofa því að bókin fjalli á nýstárlegan hátt um t.d. kynbundið ofbeldi almennt. Á sama tíma er fjallað um barnabókmenntir sem „þarft innlegg í umræðuna um umhverfisvána“ eða ámóta pólitísk mál. Þetta er svo allt saman kallað skáldskapur frá rótum en maður spyr sig auðvitað hvað er, einmitt eins og Halldór segir, hugmyndafræðilegt, og hvað lýtur lögmálum fagurfræði.  Svo eru hugmyndirnar að baki bókinni svo „réttar“ að gagnrýnendur láta ekki detta sér í hug að gagnrýna þær sem skáldverk. Höfundarnir eru að selja. Og fólk kaupir (að vísu varla). Ég við Halldór:

Það er mikið um þetta. Þessi viðtöl eru allsráðandi. Eitthvert tráma, alltaf.

„Tráma og erfiðleikar geta að sjálfsögðu verið mjög öflugur og áhrifamikill efniviður í listsköpun. En það er óneitanlega erfiðara að tala heiðarlega og af einlægni um list í dag en áður vegna þess að sjálfsritskoðunartilburðirnir eru svo ríkir, svo mörg málefni og viðhorf eru hafin yfir gagnrýni. Og það er mjög vont mál ef smám saman skapast það umhverfi fyrir listir að þær verði að vera „góðar“ eða „réttar“, hafa göfugan eða pólitískan boðskap og innihalda fyrirmyndir og svo framvegis. Þá hefur óttinn sigrað. Þú getur skrifað frábæra bók um ljóta og ranga hluti og að sama skapi skrifað vonda bók um göfuga og eftirsóknarverða hluti. List á ekkert skylt við hugmyndafræði, þótt hún geti vitaskuld verið pólitísk, og ég er talsmaður þess að hún sé eftir fremsta megni einungis metin á sínum forsendum og sé eins frjáls og mögulegt er.“

Að þessu sögðu: eru íslenskar skáldsögur undir komnar svona klisjum? Er þetta það sem koma skal?

„Nei, nei, auðvitað ekki. Góðir listamenn eru að upplagi og samkvæmt skilgreiningu frjálsir í hugsun og láta aldrei stjórna sér. En við getum orðað það sem svo að ég er ekki sannfærður um að listasagan muni dæma árdaga læktakkans sem áhugaverðan eða blómlegan tíma. Hann virðist því miður ekki vinveittur frjálsri sköpun. Við lifum á tíma þar sem er ástæða til þess að vera á varðbergi og líta tíðarandann gagnrýnum augum. En Íslendingar eiga marga framúrskarandi höfunda og skáldsagan lifir. Hún er kannski flutt úr einbýlishúsi í elliblokkina sína, en það verður alltaf til fólk sem vill fokka sér upp með almennilegri skáldsögu. Fólk eins og ég og þú.“

Lokaorð að loknum lokaorðum.

Fólk, eins og ég og Halldór. Það eru fín lokaorð. Og svo fleiri lokaorð, því auðvitað get ég ekki leyft viðmælanda að hafa síðasta orðið! Skáldsagan lifir. Ég vil innilega trúa því. Ofsafengin narratívuneysla okkar finnur sér kannski farveg á ný í skáldsögunni og hafnar sjónvarpsþáttunum. Eða hvað? Það er auðvitað líka hið besta mál að fólk horfi á þætti. En eins og Halldór segir, held ég að það muni aldrei gefa okkur sömu dýpt og marghliða, fjölþættur, abstrakt texti.

Að skrifa skáldskap er viðbjóðslega erfitt. Það er ekki bara einföld afleiðing af guðlegum innblæstri heldur árangur af striti rithöfunda. Þeirra köllun er að sinna innblæstrinum og það gera þeir með því að skikka sig til þess að æla skáldskapnum útúr sér inn í Macbook tölvur í Berlín. En til þess að svo megi vera, verður að borga þeim einhver laun. Og það er ekki verið að biðja um mikið.

Ég lofa að halda áfram að lesa skáldsögur þó að ég hiki iðulega við að kaupa þær nýjar enda gefur minn persónulegi fjárhagur ekki mikið svigrúm til slíkra spandéringa. Mig grunar að ég geri fáar tilraunir til þess að skrifa skáldskap, því eins og segi óttast ég að það sé að tala fyrir tómum sal þessi misserin. Sem betur fer verð ég því, sem eins konar kosmísk niðurstaða, ólíkur Halldóri, allavega að því marki að ég neita að skrifa skáldskap. Og það hlýtur þá að þýða að á endanum endi ég á að verða að sjálfum mér.