Prófaundirbúningur: Nokkur hagnýt atriði
Það er dimmt úti en ljósaseríur íbúðarhúsanna vísa veginn í átt að háskólasvæðinu. Mandarínuilmur fyllir lesstofuna og einhvers staðar heyrist maltdós opnuð með tilheyrandi smelli. Jólin eru svo sannarlega á næsta leyti og í hugum námsmanna þýðir það aðeins eitt: Prófatímabilið er hafið. Margir eru að sigla inn í sitt fyrsta prófatímabil í háskólanum en hjá öðrum hefur þessi tími öðlast staðlað form og rútínu. Hvort sem þú ert þaulreyndur námsmaður eða byrjandi er þó óþarfi að fyllast kvíða og angist yfir komandi prófum, en það eru til margar leiðir til að gera þennan tíma bæði gefandi og skemmtilegan.
Þetta vita náms- og starfsráðgjafar HÍ, en NSHÍ stóð á dögunum fyrir fyrirlestri um prófundirbúning og próftækni. Þar fór Kristjana Möll Sigurðardóttir yfir helstu atriði sem varða prófatímabilið og gaf nytsamleg ráð fyrir undirbúning komandi prófa. Þar var fjallað um skipulagningu prófatímabilsins, dagana fyrir próf, próftímann sjálfan og loks tillögur að því hvernig best er verja tímanum að prófi loknu. Blaðamaður Stúdentablaðsins var fluga á vegg á fyrirlestrinum og punktaði niður helstu atriði sem vert er að hafa í huga á komandi prófatímabili:
Fyrir próf
o Það er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir prófatímabilið. Skrifaðu niður helstu dagsetningar og tímasetningar. Hvenær eru verkefnaskil og prófdagar? Hvar eru prófstofur og hvenær eru próftímar?
o Rétt umhverfi skiptir miklu máli. Forðastu að nota sófann eða rúmið til að lesa undir próf, einbeitingin verður ekki eins góð og það er hætta á því að þú sofnir. Það getur reynst vel að skipta reglulega um umhverfi, til dæmis að rölta frá lesstofunni yfir á Landsbókasafnið og gefa heilanum smá súrefni um leið.
o Flokkaðu námsefni hvers prófs fyrir sig með góðum fyrirvara. Prentaðu út glósur eða flokkaðu efnið í möppur í tölvunni þinni. Forðastu að eyða tíma í að flokka námsefnið þegar stutt er í próf, það er best að nýta þann tíma í að vinna úr efninu sjálfu.
o Nýttu tímann vel dagana fyrir próf og forðastu að fresta hlutunum - mikil frestun getur valdið vanlíðan og streitu.
o Upprifjun fyrir próf er lykilatriði. Því oftar sem þú lest ákveðið efni, því auðveldara á heilinn með að nálgast það þegar komið er í próf. Lestu sama efnið nokkrum sinnum í stuttan tíma frekar en einu sinni í langan tíma.
o Það getur reynst vel að tileinka sér fjölbreytta námstækni og skoða námsefnið frá mismunandi hliðum. Til dæmis er hægt að lesa bæði kennslubókina og glærur, útbúa hugkort og spjöld og ræða efnið við aðra nemendur. Þá eru glósur besti vinur námsmannsins, en hlutirnir festast best í minninu ef þeir eru skrifaðir niður.
o Hugaðu að heilsunni: Svefn, hreyfing og skynsamlegt mataræði skipta höfuðmáli á prófatímabilinu. Stattu upp og hreyfðu þig með reglulegu millibili og forðastu að sitja í of löngum lotum. Fáðu nægan svefn, en þegar þú sefur er heilinn í fullu starfi við að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem þú hefur lesið fyrr um daginn.
o Settu námið í forgang, djammið getur beðið þar til eftir að prófatímabili lýkur. Þá er hægt að fagna frelsinu og skála fyrir góðri prófatörn – ekki fyrr.
o Hugsaðu fallega til þín. Uppbyggilegt sjálfstal skiptir öllu máli á álagstímum sem þessum og stuðlar að góðum árangri. Þú ert frábær <3
Á prófdegi
o Á prófdegi er best að láta ekkert koma sér úr jafnvægi. Nærðu þig vel, mættu tímanlega til prófs og treystu því að undirbúningur síðustu daga muni skila sér í prófinu. Ekki auka á kvíðann með því að leita að bílastæði á síðustu stundu eða þeysast gegnum námsefnið snemma um morguninn.
o Þegar í prófið er komið er mikilvægt að nýta tímann vel. Mælt er með því að verja tímanum í samræmi við vægi spurninganna og gott er að gera ráð fyrir um 10 mínútum í lok tímans til að lesa yfir prófið og lagfæra villur.
o Lestu leiðbeiningar vel og svaraðu því sem ætlast er til. Forðastu að eyða dýrmætum tíma í að skrifa um eitthvað sem er ekki spurt um.
o Vertu hér og nú: Einbeittu þér að prófinu sjálfu en forðastu að sóa tímanum í að fylgjast með samnemendum eða hugsa um eitthvað sem hefði betur mátt fara fyrr um daginn.
Eftir próf
o Eftir að prófi lýkur er gott að tæma hugann og slaka á. Til dæmis getur verið gott að hlusta á róandi tónlist eða skella sér í sund.
o Hvað er næst á dagskrá? Skipuleggðu næstu skref og hugaðu að nýju efni.
o Forðastu að festast í því að hugsa um hvernig síðasta próf gekk. Nú er mikilvægt að fyllast bjartsýni og hefja undirbúning fyrir næsta próf með jákvæðni að leiðarljósi.