Hagsmunamálið sem enginn talar um

Ari Guðni Hauksson, fulltrúi Stúdentaráðs í skipulagsnefnd Háskólaráðs, skrifar um mikilvægi þess að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni. Ljósmynd/Valgerður Hirst Baldurs

Ari Guðni Hauksson, fulltrúi Stúdentaráðs í skipulagsnefnd Háskólaráðs, skrifar um mikilvægi þess að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni. Ljósmynd/Valgerður Hirst Baldurs

Reykjavík er holótt borg. Hún hefur margt til brunns að bera, falleg við sundin, menningarborg Íslands, góð atvinnutækifæri og svo mætti lengi telja. En hún er engu að síður holótt. Þá er ekki átt við holurnar í götunum sem má sömuleiðis finna víða annars staðar heldur er átt við að sunnan við meginkjarna borgarinnar, þar sem hjarta Reykjavíkur slær, er auðn. Þar sem þessi auðn liggur er eitt besta byggingarsvæði borgarinnar, flatlendi sem nær yfir fleiri hektara niður að sjó. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 væri hægt að byggja allt upp í 600.000 fm af atvinnuhúsnæði og auk þess allt að 7000 íbúðir á þessu svæði. Í stað þessarar auðnar væri hægt að skapa annað og nýtt hverfi miðsvæðis í höfuðborginni. Líflegan stað sem vegna legu sinnar milli háskólasjúkrahússins, vísindagarða og tveggja háskóla yrði að miðstöð vísinda, þróunar, rannsókna og nýsköpunar. Staður unga fólksins, framtíðarinnar. Í staðinn höfum við í raun ekkert annað en auðn.

 

Eftir þennan lestur hefur fólk líklega gert sér grein fyrir að rætt er um Vatnsmýrina og flugvöllinn sem liggur þar. Nokkrar staðreyndir um flugvöllinn. Margir hafa rætt um flugvöllinn sem mikilvægan þátt í sjúkraflugi sem hann án efa er á einhvern hátt, en það að flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni en ekki í útjaðri höfuðborgarsvæðisins skilur ekki á milli lífs og dauða fólks. Þetta sést á því þegar skoðaðar eru tölur um tímann sem tekur frá því að útkall berst í svokölluðum F1 og F2 útköllum (forgangsútköll þar sem tafarlaust verður að halda af stað) til sjúkraflutningamannanna þangað til sjúklingur mætir á Landspítala. Að meðaltali voru þeir 152 mínútur á leiðinni með sjúkling og miðgildi tímans sem þetta tekur eru 140 mínútur. Ef byggður væri annar flugvöllur t.d. í Hvassahrauni myndi ferðatíminn lengjast aðeins um 7,5 – 11,5 mínútur. Þar með má sjá að ef mál eru meira aðkallandi og ef hver mínúta skiptir máli eru þyrlur heppilegri ferðamáti þar sem ekki þarf að lenda á flugvelli heldur er hægt að lenda á þyrlupalli hjá Borgarspítalanum og beint upp á bráðamóttöku. Hvað þörfina fyrir varaflugvöll á Suðvesturhorni landsins varðar sést á tölum frá Icelandair um notkun Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar að vélar flugfélagsins notuðu hann sem varaflugvöll að meðaltali 1 sinni á ári á árunum 1995-2015  og var Egilsstaðaflugvöllur til dæmis notaður meira sem varaflugvöllur,  þrátt fyrir að vera lengra í burtu. Það munar nefnilega yfirleitt ekki miklu á veðráttunni á milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

 

Það að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni er eitt stærsta hagsmunamál stúdenta. Í dag ríkir húsnæðisskortur, 729 einstaklingar eru á biðlista eftir stúdentaíbúðum hjá FS og það er sérstaklega mikið hagsmunamál fyrir ungt fólk af landsbyggðinni að geta fengið íbúðir nálægt háskólanum án þess að fara á ótryggan og rándýran leigumarkað. Háskóli Íslands er líka að verða vinsælli meðal erlendra nemenda, húsnæðisvandi þeirra er ekki síður alvarlegur og heyrst hefur af erlendum stúdentum sem hafa búið á göngum háskólabygginga, á tjaldsvæðinu í Laugardal í köldu haustveðrinu eða hreinlega hætta við að koma til landsins vegna húsnæðisvanda. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þann 18. október 2011 vilyrði fyrir því að Háskóli Íslands gæti fengið svæði til umráða sem er austan við núverandi háskólasvæði, svokallaðan Fluggarðareit. Á þessum reit gæti risið hvorki meira né minna en 80.000 fm af byggð, blönduð byggð stúdentaíbúða, þjónusta við þá og annarskonar starfsemi fyrir háskólann. Ef setja á byggingarmagnið í samhengi þá er Smáralindin 62.000 fm. Þetta vilyrði til háskólans fellur hins vegar úr gildi 15 árum eftir undirritun. Í ár eru 7 ár liðin frá undirritun og því eru einungis 8 ár til stefnu. Nú þurfa háskólayfirvöld og stúdentar að sameinast um málið og koma flugvellinum í burtu, hann á enga framtíð fyrir sér í Vatnsmýrinni. Miklir hagsmunir eru í húfi.

Höfundur er fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands í skipulagsnefnd Háskólaráðs.

Heimildir:

Skýrsla Rögnunefndarinnar: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_frettir/flugvallarkostir_prentutgafa_a4_v2.pdf

Svar innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um lendingar flugvéla á Keflavíkurflugvelli og varaflugvöllum:

https://www.althingi.is/altext/144/s/1459.html?fbclid=IwAR0cPmaORymvV5dZ3htn22zQpbk1qCbpy9MW2Q2csUXWEWwuoAY7KwqY_PE

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030:

https://reykjavik.is/sites/default/files/adalskipulag/02b_vatnsmyri.pdf