Almenningi boðið í „fullkomið brúðkaup"

Sýningin A Guide to the Perfect Human var frumsýnd í Tjarnarbíó síðastliðin föstudag en sýningin er sérstök fyrir þær sakir að í henni eiga sér stað raunveruleg brúðkaup. Aðeins verða haldnar þrjár sýningar en í hverri þeirra er nýtt par gefið saman og gestum boðið að taka þátt í brúðkaupsveislunni.

Innblástur verksins sjálfhjálparbækur

Höfundar sýningarinnar eru þær Gígja Jónsdóttir og Guðrún Selma Sigurjónsdóttir en aðspurð segir Gígja í samtali við Stúdentablaðið að verkið sé sjálfsætt framhald sýningarinnar The Drop Dead Diet, en þar voru megrunarkúrar viðfangsefnið.

gigja.jpg
„Það lá svo bara beint við að gera verk út frá sjálfshjálparbókum, skoða þessa mismunandi leiðarvísi hvernig við mannfólkið getum bætt innviði okkar og okkur sem manneskjur. Eftir rannsóknarvinnu og mikið glugg í hinar ýmsu sjálfshjálparbækur áttuðum við okkur á því að þetta snérist allt um leitina að fullkomnun, kröfuna um stanslausar úrbætur á okkur sjálfum, því við erum aldrei nógu góð, við verðum að vera óaðfinnanleg. Eftir að hafa unnið út frá hugtakinu „fullkomnun” og unnið nokkrar senur þá vantaði okkur enn einhvers konar ramma fyrir verkið. Eitthvað sem myndi binda sýninguna saman þar sem hugtakið er svo stórt að það er næstum ómögulegt að ná utan um það. Þá duttum við niður á hugmyndina um brúðkaupið sem væri einmitt fullkomin umgjörð utan um verk um hina fullkomnu manneskju.”

Er brúðkaup skref í átt að fullkomnun?

Brúðkaup er fyrir mörgum stærsti og mikilvægasti dagurinn í lífi þeirra og snýst að mörgu leiti um að skapa hina fullkomnu stund og að giftast manneskjunni sem fullkomnar þig. Þetta er ástæðan fyrir því að við ákváðum að hafa brúðkaup sem ramma verksins. Og það skipti miklu máli að hafa alvöru hjónavígslur og alvöru pör þar sem við vildum fanga þetta ósvikna augnablik.”

"Áhorfendur i eigin brúðkaupsveislu"

Tvö pör munu fullkomna hvort annað í Tjarnarbíó um helgina en síðasta haust auglýstu höfundar verksins eftir fólki sem vildi ganga í það heilaga á óhefðbundin og ódýran hátt. Brúðkaupshjónin borga hvorki fyrir veislu né vígslu en þeir gestir sem brúðhjónin bjóða í veisluna greiða inn á sýninguna líkt og aðrir gestir, meira að segja mamma og pabbi. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og sótti fjöldi fólks um en aðeins þrjú pör munu halda brúðkaup sitt í Tjarnarbíói, tvö þeirra núna um helgina.

„Brúðhjónin eiga það sameiginlegt að þeim hefur lengi langað til að gifta sig en ekki langað til að gera það á þennan hefðbundna hátt þannig að þau gripu þetta tækifæri. Þetta er alveg yndislegt fólk allt saman, einlægt og skemmtilegt og umfram allt mjög til í að takast á við óvissuna sem felst í því að taka þátt. En eftir hjónavígsluna eru þau í raun bara áhorfendur í eigin brúðkaupsveislu,” útskýrir Gígja.

Þar sem sýningagestir eru bæði í leikhúsi og í raunverulegri brúðkaupsveislu má búast við einu frumlegasta brúðkaupi aldarinnar en heyrst hefur að dansarar þjóni til borðs og að harðsoðið egg kunni að vera í aðalrétt.
 

"Við erum náttúrulega að spila með raunveruleikann" 


Svarar Gígja aðspurð hvort eitthvað gæti farið úrskeiðis „Þegar alvöru atburður eins og brúðkaup og svo leiksýning mætast geta orðið einhvers konar árekstrar. En það er mest spennandi við þetta allt saman, hið óvænta. Fólk situr bæði við veisluborð sem og í áhorfendasal þannig að þetta er smá dans á milli þess að vera áhorfandi eða veislugestur og sem hvort tveggja getur fólk haft áhrif á sýninguna.”


Gígja segir brúðkaupgesti helgarinnar geta búist við „óvenjulegri en skemmtilegri kvöldstund fullri af gleði, ást og hamingju.“

Sýningartímar eru; 
20. janúar, kl. 19:00 og
21. janúar, kl. 19:00

Miðaverð er 3500 kr. 

Kristlín Dís skrifar fyrir Stúdentablaðið

A Guide to the Perfect Human

A Guide to the Perfect Human