„Ég er líka reiður:" Hvernig Donald Trump varð einn valdamesti maður heims
Þann 11. nóvember 2012, einungis sex dögum eftir annan sigur Barack Obama, skráði Donald Trump vörumerkið „Make America Great Again” hjá bandarísku einkaleyfastofunni. Fáir áttuðu sig á því þá að þetta ætti eftir að marka upphafið að nýjum kafla í bandarískri stjórnmálasögu. Rétt um fjórum árum síðar hefur Donald Trump, fyrrum raunveruleikastjarna og steikarsölumaður, verið kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna.
Hvað, hvers vegna og hvernig?
Eftir ótrúlega kosningabaráttu reyna margir að skýra hvernig Trump tókst að komast alla leið með óheflaðri framkomu sinni, reynsluleysi í stjórnmálum og fjölda hneykslismála. Við þeirri spurningu fást engin einhlít svör og verður hún því fræðimönnum eflaust hugleikin næstu árin. Hér verða skoðaðir nokkrir hugsanlegir áhrifaþættir.
Áður en lengra er haldið er mikilvægt að skoða kosningakerfið í Bandaríkjunum. Þar ríkir svokallað meirihlutakosningakerfi og er ríkjum skipt upp í fjölda einmenningskjördæma. Einungis einn þingmaður er kjörinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings úr hverju kjördæmi og fá þeir sem kusu ekki sigurvegarann engan fulltrúa. Kjósendur eru því líklegri til að kjósa taktískt og velja skásta kostinn sem á raunverulegan möguleika á sigri. Þetta verður til þess að það myndast tveir stórir flokkar og minni flokkar eiga lítinn sem engan möguleika á sigri. Þetta er ólíkt því hlutfallskosningakerfi sem við höfum hér á landi þar sem allir flokkar sem ná lágmarkshlutfalli atkvæða fá fulltrúa á þing.
Klofningur og sundrung
Þessir tveir ólíku flokkar, Demókratar og Repúblikanar, draga að sér fólk með ólík gildi og sjónarmið. Á undanförnum árum hefur nokkuð borið á auknum klofningi hjá flokksandstæðingum sem birtist í vaxandi vantrausti, skilningsleysi og jafnvel heift. Einnig virðist fólk í auknum mæli fylgjast frekar með fjölmiðlum sem samræmast þeirra sjónarmiðum. Þetta hefur aukist með tilkomu internetsins og samfélagsmiðla. Segja má að tilkoma netsins hafi gjörbylt aðgengi fólks að upplýsingum og ekki síður aðgengi upplýsinga að fólki.
Í dag geta misvísandi upplýsingar náð til jafn margra og staðfestar fréttir. Hver og einn getur svo valið að taka aðeins mark á því sem passar best við þeirra heimsmynd og kosið að hunsa annað. Hér er um að ræða fyrirbæri sem innan sálfræðinnar kallast staðfestingarskekkja eða confirmation bias og hrjáir flestallt fólk. Enn fremur ýtir það undir þennan vanda þegar samfélagsmiðlar og leitarvélar notast við reiknirit sem sýna fólki frekar efni sem það vill sjá. Auk þess sýna rannsóknir að fólk velur gjarnan að umgangast fólk sem deilir svipuðum skoðunum og lokar jafnvel á það sem aðrir hafa að segja ef það er ósammála.
Svo mikill er klofningurinn að samkvæmt rannsókn frá árinu 2014 hefur bandaríska þjóðin ekki verið eins klofin frá því að Þrælastríðið stóð yfir. Sögulegar óvinsældir forsetaframbjóðendanna tveggja virðist einnig hafa haft áhrif á úrslit kosninganna. Ein könnun ABC-fréttastofunnar sýndi til að mynda að 54% þeirra svarenda sem sögðust styðja Trump gerðu það fyrst og fremst vegna andstöðu sinnar við Hillary.
Reiði og hræðsla
Misskipting í Bandaríkjunum hefur aukist á undanförnum árum og áratugum. Með aukinni alþjóðavæðingu hefur fjöldi verksmiðjustarfa og verkamannastarfa í landinu minnkað gríðarlega. Þar hafa miðvesturríkin orðið verst úti. Þetta hefur orðið til þess að tekjur margra íbúa á því svæði og víða í dreifbýli hafa lækkað á undanförnum árum. Þetta kemur fram í opinberum tölum og hjá Pew Research Center. Einnig hafa kannanir sýnt að stór hluti Bandaríkjamanna hefur áhyggjur af framtíð landsins og telur jafnframt að börn þeirra eigi eftir að lifa við verri lífsgæði en þau sjálf. Á sama tíma hefur innflytjendum í landinu fjölgað mikið jafnt sem barneignum fækkar. Bandaríska hagstofan spáir því að hvítir íbúar landsins verði komnir í minnihluta árið 2044.
Allir þessi þættir geta orðið til þess að hvítt millistéttarfólk verður bæði hrætt um að tapa lífsgæðum og valdastöðu sinni í samfélaginu. Auk þess finnst sumum að „elítan“ sem vill viðhalda kerfinu; stjórnmálastéttin, ríka fólkið og menntafólk, líti niður til þeirra, hunsi þau og geri ekkert fyrir þau. Beinist þessi uppsafnaða reiði og jafnvel hatur að stjórnmálamönnum og minnihlutahópum. Vantraust á stjórnmálamönnum, þingi og fjölmiðlum hefur á sama tíma sjaldan eða aldrei mælst meira í könnunum.
Hér skýrist mögulega mikill stuðningur við Donald Trump; hann var utanaðkomandi, andstæðan við hefðbundinn stjórnmálamann og síðast en ekki síst sagðist hann ekki einungis skilja reiði fólksins heldur sagðist sjálfur vera reiður. Fyrir mörgum skipti annað sem hann sagði eða gerði engu máli. Sumir kusu hann ekki endilega til að fá Trump sem forseta. Það kaus heldur að refsa elítunni og rífa niður kerfið sem það taldi vinna gegn sér.
Þegar uppi var staðið valdi stór hluti kjósenda að láta reyna á óvissuna fremur en að lifa við óbreytt ástand. Eins og gengur og gerist urðu margir Bandaríkjamenn sárir og reiðir yfir úrslitum kosninganna. Ekki bætti það ástandið þegar í ljós kom að Trump hefði sigrað án þess að hafa meirihluta atkvæða á bakvið sig. Hefur það vakið upp mikla umræðu um galla kjörmannakerfisins sem notað er til að velja forseta Bandaríkjanna. Sumir kjósa þó að líta á það jákvæðum augum að meirihluti þjóðarinnar hafi í raun hafnað nýkjörnum forseta.
Greinin birtist fyrst í 2. tbl. Stúdentablaðsins, des. 2016.
Blaðamaður: Eiður Þór Árnason