Skólabókaflóðið líka á rafrænu formi
Bóksala stúdenta leitast í sífellu við að auka þjónustu við stúdenta en nú í upphafi árs bættust rafbækur í flóru vöruúrvals Bóksölunnar. Skólabókavertíðin er í fullum gangi en nú stendur einnig til boða nýr kostur; fleiri þúsund titlar skólabóka á rafrænu formi.
„Við erum búin að vinna í þessu síðan í sumar og þetta fór í loftið um áramótin,” segir Reinharð Reinharðsson, verslunarstjóri Bóksölu stúdenta í samtali við Stúdentablaðið. Nú þegar fást hátt í 5000 titlar á rafrænu formi hjá Bóksölunni og segir Reinharð viðtökurnar hafa verið góðar.
„Heildsalinn okkar í Bretlandi sem við verslum við, bíður upp á rúmlega milljón titla en við ákváðum að byrja með nokkur þúsund,” segir Reinharð, en til að byrja með var ákveðið að taka aðeins inn titla sem einnig fást í prentaðri útgáfu í Bóksölunni. „Fljótlega, þegar að vertíðin er gengin yfir, þá bætum við við og tökum inn nýjar og bjóðum meira úrval.” Þá verður einnig á næstu vikum hægt að leigja rafbækur í gegnum heimasíðu bóksölunnar.
Nettenging óþörf
Reinharð segir ýmsa kosti fylgja notkun rafbóka, þær eru yfirleitt ódýrari en prentaða útgáfan, ekki þarf að bera þungar kennslubækur staða á milli og rafbækurnar getur þú sótt í öll þín tæki, hvort sem það er í snjallsíma, fartölvu, borðtölvu, spjaldtölvu o.s.frv. „Flestar þeirra eru ódýrari en prentaðar bækur. Einstaka sinnum er pappírsbókin þó ódýrari af því að okkur hefur þá tekist að fá hagstæðari samninga við útgefendur þeirra,“ útskýrir Reinharð.
Bækurnar er hægt að sækja allt að sex sinnum en eftir að bókinni hefur verið sótt er hún þín og ekki þarf að vera tengdur Netinu til að lesa líkt og hjá öðrum sem bjóða námsbækur á rafbókaformi hérlendis. Það er mismunandi eftir bókum hve oft hægt er að hlaða bókinni niður, en yfirleitt er það á bilinu þrisvar til sex sinnum.
„Þannig að nú þegar þú ferð inn á leslistann þinn, eða bókalistann, sem við erum búin að setja upp á síðunni www.boksala.is, þá getur þú smellt á bókina og séð um leið hvort að það er til rafræn útgáfa eða ekki,“ útskýrir Reinharð en auðvelt er að sjá á heimasíðu Bóksölunnar hvaða bækur fást á rafrænu formi. „Þá getur þú bara sett hana í körfu, keypt og svo sótt rafbókina á einfaldan og fljótlegan hátt.“
Allar bækur í sama tækinu
Reinharð segir vissulega misjafnt hvort fólk kjósi að nota rafbækur eða ekki, en rafbókunum fylgi þó ótvíræður kostur. „Maður sér að í sumum deildum þurfa nemendur að vera með þrjár, fjórar bækur sem að hver um sig geta verið eitt eða tvö kíló sem þarf að bera fram og til baka,“ segir Reinharð, það sé kostur að geta haft allar bækurnar í einu og sama tækinu. Þá er einnig auðveldara að taka upp beinar tilvitnanir úr rafbókunum og afrita textann í stað þess að þurfa að slá hann inn upp úr bókinni.
Hins vegar velja auðvitað margir enn prentaðar útgáfur því þeim þykir þægilegra að lesa á því formi. „Aðalatriðið er að Bóksalan bjóði stúdentum þann kost sem þeim hentar best í þeirra verslun enda er Bóksalan í eigu stúdenta og hefur það eina markmið að veita stúdentum sem besta þjónustu og útvega öll gögn sem þeir þurfa til náms,” bætir Reinharð við.
Þjónar hinum akademíska heimi á Íslandi
Hann segir viðtökurnar hafa verið ákaflega góðar en strax fyrsta daginn fór salan vel af stað og viðrast nemendur ánægðir með þennan nýja valkost.
Bóksalan þjónustar ekki aðeins nemendur við Háskóla Íslands heldur alla háskóla á landinu en í gegnum árin hefur Bóksalan útvegað um 95-97% þeirra námsbóka sem kenndar eru við háskóla hér á landi og nú streyma út pantanir um allt land.
„Við höfum alltaf sagt að við þjónum öllum hinum akademíska heimi á Íslandi og stöndum við það” segir Reinharð, ánægður með að geta nú boðið upp á þennan nýja valkost.