Á fyrsta degi prófloka færði Stúdentakjallarinn mér...
...Tvo kranabjóra og einn hamborgara.
Valgerður Anna Einarsdóttir dagskrár- og viðburðastjóri Stúdentakjallarans skrifar:
Ég er algjör hefðapervert. Ég bý til hefðir úr öllu. Ég ætla svosem ekki að fara nánar út í þær allar en ein hefð, sem ég er viss um að við erum öll sammála um, er hefðin að verðlauna sig eftir próflok.
Eftir að ég byrjaði í háskólanum byrjuðum ég og félagar mínir með hefð. Sú hefð var þannig að alltaf á föstudögum þegar við vorum búin með kaflapróf fórum við í Stúdentakjallarann í einn (nokkra) bjóra. Sama hversu vel eða illa gekk í prófinu þá átti maður einhvern veginn alltaf skilið að fá sér einn. Alltaf. Alltaf. Alltaf.
Þessi hefð er smámál miðað við jólapróflokahefðina. Vá, þá er sko stuð! Þá splæsir maður í tvo hamborgara og ennþá fleiri drykki. Kannist þið ekki við tilfinninguna þegar þið eruð í síðasta prófinu og langflestir eru alveg á síðustu metrunum? Ég er allavega alltaf með hárið eins og hreiður á hausnum og í adilettunum, jafnvel þó það sé snjór og slabb úti. Svo horfir maður á vinina sem eru með manni í stofu og hugsar: „Jesús, af hverju eru þau að skrifa svona mikið? Eru þau ekki að verða búin? Ég er orðin svöng.”
Svo nær maður augnsambandi og á því augnabliki hendir maður blýantinum ofan í pennaveskið, dustar strokleðursgumsið af borðinu, skilar prófinu og fer fram og bíður.
- Jæja, hvernig gekk?
- Æj, bara svona ágætlega, djöfull var þessi ritgerðaspurning samt mikið kjaftæði.
- Já, ég er sammála. Eigum við að fara á Kjallarann?
- Já, án gríns hvað ég er til. Ég þarf einn skítkaldann.
Kæru vinir. Gangi ykkur innilega vel á lokasprettinum. Ég skála við ykkur í Stúdentakjallaranum.
Ykkar, Vala
Próflokadagar Stúdentakjallarans verða 14. 15. og 16. desember:
Frá kl. 12 :00-19:00: Öll tilboð í gangi – Happy hour; bjór og skot, kokteill og bjórkönnur.
Próflokapartý fyrir blessuð börnin, sunnudaginn 18.desember kl. 15:00