Sjálfbær þróun, eða Lísa í Undralandi?

Tískan er öflugt fyrirbæri í samfélögum manna. Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur tískan alltaf snúist um að skipta út hugsun fyrir tilfinningar, um að líkja eftir frekar en að greina. Þegar fjallað er um tísku dettur okkur fyrst og fremst í hug fatnaður og önnur efnisleg fyrirbæri, en tískuna er í raun að finna á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst á sviði hugmynda og hugtaka.

Eitt af þeim hugtökum sem er mjög í tísku nú til dags er hugmyndin um „sjálfbæra þróun“ (e. sustainable development). Hugtakið var fyrst skilgreint í skýrslunni Okkar sameiginlega framtíð (Our Common Future) árið 1987:


Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.


Hugmyndin um að hámarka velgengni mannkynsins alls, í nútíð og í framtíð, er vissulega vel meint, en er notkun hugtaksins „sjálfbær þróun“ gagnleg þegar kemur að því að ná þessu göfuga markmiði? Hjálpar hún okkur við að hanna nákvæmar og raunhæfar framtíðaráætlanir? Þegar betur er að gáð er það því miður ekki tilfellið. Skilgreining hugtaksins hefur enga sérstaka þýðingu þegar kemur að því að taka skynsamar ákvarðanir fyrir framtíðina.


Hvenær er „þörfum“ okkar fullnægt?


Skoðum umhverfismálin til að byrja með. Hjálpar hugtakið okkur að takmarka röskun umhverfisins? Nei, það er fullkomlega ómögulegt að lesa úr skilgreiningunni hvað telst vera „hófleg“ röskun og hvað ekki, þar sem enginn er fær um að skilgreina „þarfir samtíðarinnar“ með ótvíræðum hætti (hvað þá með vísindalegum hætti), og þar með um að skilgreina það magn náttúruauðlinda sem hæfir þessum þörfum.

Er þörfum okkar „fullnægt“ þegar meðallífslíkur hafa náð 40 árum, eða er 120 ára aldur nauðsynlegur til að verða saddur lífsdaga? Er þörfum okkar „fullnægt“ þegar hver og einn hefur aðgang að 10 fermetrum af upphituðu húsnæði, eða aðeins þegar hver jarðarbúi ræður yfir 150 fermetrum af upphituðu húsnæði ásamt sumarbústað með einkasundlaug og nuddpotti? Er þörfum okkar „fullnægt“ þegar hver og einn hefur aðgang að 7.000 kílówattstundum af orku (meðaltalið á Indlandi samkvæmt Our World in Data) eða eru 165.000 kílówattstundir af orku (meðaltalið á Íslandi) nauðsynlegar til að tryggja hæfileg „lífsgæði“?


„Þurfum“ við að fljúga til útlanda einu sinni, 50 sinnum eða 500 sinnum á ævinni? „Þurfum“ við að neyta 20 kg eða 100 kg af kjöti á ári? „Þurfum“ við eina eða tíu afmælisgjafir? „Þurfum“ við einn, tvo, eða engan bíl á hverju heimili?

Við verðum að viðurkenna að fyrir utan nokkrar lífsnauðsynlegar grunnþarfir sem væri í besta falli hægt að skilgreina nokkuð nákvæmlega (vatn, næring, svefn og vernd frá kulda), er hugtakið „þarfir“ óskaplega teygjanlegt og vísar ekki í neitt nákvæmlega skilgreint neyslustig sem gæti talist vera nauðsynlegt til að lifa góðu lífi. Skilgreiningin á „sjálfbærri þróun“ hjálpar okkur því engan veginn að setja okkur markmið eða mörk, en það að halda utan um samfélag og umhverfi þess snýst einmitt oft um að ákveða markmið og setja takmarkanir.

Þar að auki geta „þarfir“ einstaklingsins annars vegar og samfélagsins hins vegar verið í fullkominni andstöðu við hvor aðra, en skilgreiningin á „sjálfbærri þróun“ veitir heldur engin svör við því hvernig best sé að forgangsraða í slíkum tilfellum. Í nafni einstaklingsfrelsis „þurfum“ við að tryggja rétt allra borgara til að keyra á milli staða á einkabíl (til dæmis með samgönguinnviðum), en í nafni sameiginlegra hagsmuna „þurfum“ við að draga úr losun frá samgöngum, sem reynist erfitt að gera með núverandi samgöngukerfi. Hver er lausnin við þessari klípu samkvæmt skilgreiningunni á „sjálfbærri þróun“?


Í kringum sólina í geimskutlu


Það er nógu erfitt að skilgreina „þarfir“ samtímans og finna jafnvægi á milli þarfa einstaklingsins og samfélagsins. Enn erfiðara reynist síðan að skilgreina „þarfir“ framtíðarinnar. Í fyrsta lagi, hvernig skilgreinum við „framtíðina“? Er nóg að „þróunin“ sé „sjálfbær“ í 10 ár, 50 ár, tvær aldir eða þrjú árþúsund?

Jafn erfitt reynist að skilgreina hverjar „þarfir“ afkomenda okkar gætu verið. Forfeður okkar sem lifðu í kringum 1800 – langflestir þeirra bændur og búalið – bjuggu þröngt í illa upphituðum baðstofum, fengu hvíld í besta falli einu sinni í viku, vissu ekkert um fyrirbærið „sumarfrí“, lifðu helmingi styttra lífi en við gerum í dag, voru oft svöng og fundu oft fyrir kulda.  Ef við gætum ferðast aftur í tímann og framkvæmt skoðanakönnun meðal þessara forfeðra okkar þar sem spurt væri hvenær þeirra „þörfum“ væri fullnægt, getum við ekki leyft okkur að efast um að svörin yrðu þau sömu og hjá hinum almenna Íslendingi í dag?


Ekki nóg með það að skilgreiningin á „þörfum samtíðarinnar“ sé afar óljós, en að skilgreina „þarfir framtíðarinnar“ virðist fyrst og fremst heyra undir spásagnalist eða hæfileikann til að lesa í framtíðina úr innyflum fórnardýra (eitthvað sem forn-Rómverjar höfðu reyndar getað kennt okkur). Verði umhverfisskaði nútímans nógu mikill getur vel verið að afkomendur okkar árið 2150 telji sig heppnir að lifa til fertugs án þess að þjást úr hungri, en verði aftur á móti eitthvað orkukraftaverk að veruleika getur verið að enginn þeirra verði sáttur við lífið nema hafa flogið í kringum sólina í geimskutlu í tilefni af tuttugu ára afmælinu sínu…


Sex ómögulegir hlutir fyrir morgunmat


Ein alvarlegasta staðreyndin í þessu samhengi er, að töluverður fjöldi vel menntaðra manna virðist trúa því að tilvera hugtaksins „sjálfbær þróun“ muni gera okkur kleift að brjóta lögmál eðlisfræðinnar og gera óendanleikann að veruleika á jörðinni. Sjálf skilgreiningin ýtir undir þessa tálsýn: hún telur okkur trú um að hægt sé að fullnægja þörfum allra, alls staðar og á öllum tímum, án þess að nefna nein takmörk við þessa „fullnægingu þarfa“. Það er eins konar loforð um að óendanleikinn sé rétt handan við hornið.

Þessa þrá að hætti Lísu í Undralandi finnum við meðal annars í markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, en í þeim felst loforð um að við munum geta leyst öll vandamál í einu.


Þetta er svo sem mannlegt. Þegar okkur mönnum verður ljóst að við getum ekki fengið allt, fer gjarnan af stað öfugsnúinn hugsunarháttur: hugmyndin um að neikvæða þróun á sviði umhverfismála sé hægt að jafna út með jákvæðri þróun á sviði efnahagsmála, og að þar með verði niðurstaðan „hlutlaus“. Í grófum dráttum, eftir að grunnskólakennarar hafa bannað okkur árum saman að leggja saman jarðhnetur annars vegar og blómkál hins vegar, kemur að því að „sjálfbær þróun“ kennir okkur að leggja saman aukningar í losun gróðurhúsalofttegunda en draga frá minni barnaþrælkun í Bangladesh, margfalda með byggingu nýs spítala í Búrkína-Fasó og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs, og deila síðan með hækkun meðalaldurs í Afríku og stöðvun skógareyðingar í Suðaustur-Asíu. Er þetta það sem „sjálfbær þróun“ snýst um? Afneitun á grundvallarreglum rökhugsunar?

„Maður getur ekki trúað á hið ómögulega,“ sagði Lísa. 

„Það er greinilegt að þig skortir þjálfun,“ sagði drottningin.

„Þegar ég var yngri æfði ég mig hálftíma á dag. Stundum hef ég trúað á allt að sex ómögulega hluti fyrir morgunmat.“

Úr Í Gegnum Spegilinn eftir Lewis Carroll.

Að eiga kökuna og borða hana


Ef okkur mistekst að leysa áskoranir sem ógna sjálfri tilveru stórs hluta jarðarbúa (meðal annars okkar), hvaða þýðingu hefur hugmyndin um „lausnir“ á öllum öðrum vandamálum sem mannkynið glímir við? Er einhver lágmarks skynsemi fólgin í því að ímynda sér að við getum bætt aðgengi að menntun hjá jarðarbúum sem á sama tíma munu glíma við hungursneyð vegna uppskerubrests eða upplifa stríð vegna harðnandi samkeppni um takmarkaðar auðlindir?

Heimsmarkmiðin 17 um sjálfbæra þróun samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Hvert markmið á listanum er andstæða eins eða fleiri markmiða á sama lista. Að útrýma fátækt (markmið 1) krefst þess að tekjur aukist (sem er líka forsenda fyrir markmiðum 8 og 9) sem leiðir til þess að framleiðsla eykst, og þar með notkun jarðefnaeldsneytis, þannig að markmiðið stríðir gegn markmiði 12, 13, 14 og 15. Markmið 3 um betri heilsu og vellíðan leiðir af sér enn frekari fólksfjölgun á plánetu sem telur nú þegar 8 milljarða manns, en sú fólksfjölgun leiðir af sér aukinn þrýsting á umhverfið, þar sem nýta þyrfti stærri landsvæði undir félagslega innviði. Markmið 2 um „ekkert hungur“ kallar á aukna matvælaframleiðslu sem aftur ógnar líffjölbreytni (markmið 14 og 15) og leiðir af sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda (markmið 13). Og svo framvegis…

Hugtakið hefur líka leitt af sér annað öfugmæli: hugmyndina um að við getum leyst meiriháttar vandamál með minniháttar lausnum. Flest af því sem er kynnt í dag sem lausnir „sjálfbærar þróunar“ er af allt annarri stærðargráðu en vandamálið sjálft. Miðað við núverandi neyslustig í heiminum er fullkomlega óraunhæft að skipta út alla olíunotkun fyrir lífeldsneyti eða rafeldsneyti, að skipta út kola- og gasdrifnum raforkuverum fyrir vindmyllur, fiskveiði á sjó fyrir fiskeldi, kolum fyrir eldivið eða plasti fyrir iðnaðarhamp.


Sömuleiðis er gjarnan vísað í „sjálfbæra þróun“ til að útskýra fyrir okkur að við getum stækkað flugvöllinn í Keflavík um leið og við munum sjálfviljug draga úr flugferðum, að við getum breikkað vegi, fjölgað brúm og jarðgöngum um leið og við munum sjálfviljug draga úr bílanotkun, að fyrirtæki sem losa stjarnfræðilegt magn af koltvísýringi geti um leið verið Íslandsmeistarar í umhverfisvernd (eins og þegar Norðurál var valið umhverfisfyrirtæki ársins), að þróunarlönd hafi rétt til að þróast en um leið skyldu til að draga úr losun CO₂ (sem er í dag því miður ósamrýmanlegt), og svo framvegis. Lísur allra Undralanda sameinist!

Sjálfbærni hér, sjálfbærni þar, sjálfbærni gengur alls staðar…


Þegar kemur að umhverfismálum getur reynst erfitt að fá nákvæma tölfræði, en þessi tölfræði lýsir að minnsta kosti óhlutdrægum veruleika: við getum mælt byggingarými, vatnsnotkun eða orkunotkun, fjölda spendýrategunda í heiminum eða magn úrkomu í tilteknum mánuði, og einn hektari táknar sama flatarmál fyrir alla. Það er mögulegt að koma sér saman um sameiginlegt tungumál, sameiginleg mörk og sameiginleg markmið: ekki meira en svona mörg tonn af CO₂ á mann á ári, ekki meira en svona mörg tonn af þorski á veiðitímabilinu. Hvað varðar sambandið milli mannkyns og hins efnislega heims, er vel hægt að skilgreina hvað er sjálfbært, eða réttara sagt hvað er ekki sjálfbært: öll hegðun sem reiðir sig á auðlind eða hreinsunargetu sem verður ekki lengur til staðar eftir nokkra áratugi er augljóslega ósjálfbær!


Hins vegar hefur hugtakið „sjálfbærni“ orðið tískunni að bráð og er því notað sem alhliða krydd í hvaða súpu sem er. Á vefsíðu HÍ segir til dæmis:


Sjálfbærni er víðfeðmt hugtak. Það snertir ekki einvörðungu umhverfismál heldur einnig félagslegt réttlæti, heilsu og velferð, menningarmál og efnahagslíf.


En þegar kemur að félagslegum málum, hvernig förum við að því að mæla hvað er „sjálfbært“ og hvað ekki? Það er fullkomlega mögulegt að láta misskiptingu endast að eilífu, enda hefur misskipting verið hluti af mannkynssögunni frá örófi alda. Lengi má leita að dæmum um samfélög þar sem hefur ríkt fullkominn jöfnuður. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að slík samfélög væru „sjálfbær“, og í raun sjálfbærari en samfélög nútímans.

Ef sjálfbærni fer að snúast um réttlæti erum við ekki betur sett: í einu samfélagi getur „réttlæti“ þýtt að engin börn undir 8 ára aldri megi vinna, í öðru samfélagi að börn megi ekki vinna erfiðisvinnu. Í einu samfélagi getur það þýtt að laun forstjóra megi ekki vera meira en tífalt laun verkamanna og í öðru samfélagi ekki meira en hundraðfalt, og svo framvegis. Hver eru viðmiðin?


Þegar kemur að efnahagsmálum er skilgreiningin á „sjálfbærni“ enn óljósari: hvað er „sjálfbær“ hagvöxtur eða „sjálfbær“ velta? Hvað þá um „sjálfbæra velferð“? Á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins segir til dæmis um sjálfbæra þróun:


Þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar eru: vernd umhverfisins, félagsleg velferð og efnahagsvöxtur.


Fjöldi vísindafólks hefur hins vegar bent á þá óþægilegu staðreynd að hagvöxtur síðustu 200 ára hafi verið helsti orsakavaldur aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. „Sjálfbær hagvöxtur“ er því fyrirbæri sem mætti líkja við „þurra rigningu“ eða „bjart myrkur“. Útvötnun á hugtakinu virðist engum takmörkunum háð…


Mjúk lending eða hrap til jarðar?


Skýringin á því hvers vegna hugtakið „sjálfbær þróun“ hefur orðið jafn vinsælt og raun ber vitni liggur kannski í því að hugtakið hefur reynst mjög gagnlegt fyrir almannatengla í leit að góðri réttlætingu (samfélagslega eða efnahagslega réttlætingu) fyrir hegðun eða starfsemi sem út frá mælanlegum umhverfislegum viðmiðum er augljóslega „ósjálfbær“. Tilvera „sjálfbærnisskýrslu“ hjá ákveðnu fyrirtæki er þannig engin trygging fyrir því að starfsemi viðkomandi fyrirtækis sé „sjálfbær,“ jafnvel þótt höfundar skýrslunnar séu allir af vilja gerðir.


En þrátt fyrir að gagnsemi hugtaksins „sjálfbær þróun“ sé afar rýr eins og hér hefur komið fram er ekki þar með sagt að ekki þurfi að hafa áhyggjur af takmörkum umhverfisins - þvert á móti. Í heimi þar sem auðlindir eru takmarkaðar geta trén ekki vaxið endalaust. Stundum er valinu stillt upp sem annað hvort að „neita sér um allt að eilífu“ eða að „éta á sig gat að eilífu“. En þegar kemur að takmörkuðum auðlindum er valið því miður aðeins á milli þess að hafa sjálf frumkvæðið að því að draga smám saman úr ofnýtingu auðlinda og reyna að halda stjórn á taktinum þannig að lendingin verði sæmilega mjúk, eða þess að halda öllu óbreyttu, „business as usual“, og bíða eftir því að náttúruöflin hrifsi völdin úr okkar höndum. Í seinni sviðsmyndinni kennir sagan okkur að niðurstaðan verður síst til þess fallin að auka ánægju meðal samfélaga manna, eða uppfylla „þarfir“ okkar.


Rétta spurningin er þannig ekki hvort samdráttur í ofnýtingu náttúruauðlinda muni raungerast, heldur hvenær og hvernig: núna og að okkar frumkvæði, eða seinna og að frumkvæði náttúrunnar. Það er ekki að sjá að hugmyndin um „sjálfbæra þróun“ veiti nokkra aðstoð við að horfast í augu við þennan veruleika.


Þessi grein er byggð fyrri skrifum eftir Jean-Marc Jancovici, fulltrúa í Loftslagsráði Frakklands og forseta hugveitunnar The Shift Project.