Vistfræðileg velferð og hagkerfi framtíðarinnar

Þýðandi: Guðný Brekkan

Heilbrigði vistfræði og manna segir sannleikann um stöðu hagkerfis okkar, umhverfi og framfarir.

Ímyndaðu þér heim þar sem grunnþörfum mannkynsins er mætt. Framleiðsla er sjálfbær og neysla er meðvituð. Matur er ræktaður á staðnum, hefur lítil áhrif á umhverfið, hollur og aðgengilegur. Í samfélögum eru ákvarðanir teknar í samráði við hagsmunaaðila. Vinnustaðir eru öruggt umhverfi sem stuðla að lífsgæðum starfsmanna og fjölskyldna þeirra, umfram tekjur og gætt að hagsmunum starfsmanna. Félagslegt réttlæti og jöfnuður knýja framfarir. Hagsmunir umhverfis og hagkerfis eru samtvinnaðir, þar sem langlífi auðlinda og velferð manna er forgangsraðað innan landamæra plánetunnar. Land er samrekið af þeim sem búa á því. Náttúruauðlindir eru metnar fyrir lífgefandi þjónustu sína og ákvarðanir um þróun eru ekki einungis í höndum stórfyrirtækja. Hagvöxtur tekur yfirvegaða nálgun sem virðir vistfræðileg mörk plánetunnar okkar á sama tíma og hún uppfyllir þarfir allra.   

Þessi sýn dregur upp mynd af sumum markmiðum ´réttlátra umskipta´, umgjörð til að færa hagkerfið okkar á réttlátann hátt yfir í hringkerfi á heildrænann hátt. Að endurheimta jafnvægi í umhverfinu er lykilatriði í umskiptunum. Til þess að komast þangað verðum við að takast á við áberandi vandamál núverandi efnahagskerfis okkar, nefnilega þá mýtu að við séum að standa okkur vel umhverfislega, félagslega og efnahagslega, svo framarlega sem verg landsframleiðsla (VLF) fer vaxandi. (Á ensku Gross Domestic Production (GDP)).




Vandamálið við VLF

Hvað ef næst þegar þú ferð til læknis vegna kvefs litu þeir einungis í eyrun á þér? Hvað ef læknirinn komi inn, kíkti í hvort eyra og sagði: „Mér sýnist þú heilbrigður.“ Þú værir efins, með réttu.

Þú gætir spurt, „Viltu ekki hlusta á lungun mín? Eða heyra um einkennin?“ Vegna þess að allar aðrar læknisheimsóknir sem þú hefur farið í hafa verið fyrirsjáanleg röð prófa og mælikvarða; hæð, þyngd, aldur, einkenni, „opnaðu munninn og segðu aaaa.

Heilsugæsla er í grunninn vísindalegt leynilögreglustarf sem dregur upp heildstæða mynd af heilsu einstaklings til að útiloka sjúkdóma og fá almenna greiningu. Hins vegar fullyrðir þessi læknir að þeir hafi allar þær upplýsingar sem þeir þurfa miðað við að horfa í eyrun á þér og að þú sért ekki veikur. Það virðist kjánalegt og það er vegna þess að eyrun eru aðeins einn heilsuvísir í hafsjó annara samtvinnaðra líkamskerfa. Ekki er hægt að nota bara eitt viðmið til að mynda vísindalega niðurstöðu, vegna þess að það er að gefa sér of margar forsendur.

Ef að vísindamaður myndi aldrei nota einungis eitt of einfaldað próf til að mynda niðurstöður, hvers vegna hafa hagfræðingar þá notað landsframleiðslu sem eina ákvörðunarvald um efnahagslega heilsu? Í tiltölulega stuttri sögu hins vestræna heims, þróuðust vistfræði og hagfræði sem aðskildar fræðigreinar sem notuðu í grundvöllinn ólíkar meginreglur til að skoða hvernig lífkerfi skipuleggja sig, vaxa og hafa samskipti. Nýklassísk efnahagsleg hugmyndafræði öðlaðist athygli seint á 19. öld og snemma á 20. öld með áherslu á skilvirka úthlutun auðlinda með markaðsaðgerðum. Hugmyndafræðin  leggur áherslu á vöxt sem merki um samfélagslegar framfarir og velferð: kúrekahagkerfi sem dásama takmarkalausa, kærulausa og oft ofbeldisfulla neyslu.

Á meðan umhverfisvísindamenn voru að rannsaka gagnvirka kerfisvirkni í náttúrunni voru hagfræðingar að búa til líkan sem sýndi hvernig samskipti heimila (neytendur) og fyrirtækja eru. Þetta þróuðu fræðimenn þessara greina án samráðs sín á milli og án þess að kanna líkindi kerfanna.

Hugmyndafræðin notaði landsframleiðslu sem vísbendingu um efnahagslega velferð; ef land væri með vaxandi landsframleiðslu þýddi það að tækni, þróun og velferð mannsins jókst samhliða því. Jafnframt var sú trú að jafnvel þó að megnið af auðnum færi til lítils hlutfalls þjóðarinnar myndi það í eðli sínu renna niður til hinna íbúanna og leiða til betri tækni, viðskipta og heilsu. Sögulega sést þó andstæða þessara forsenda, hækkandi sjávarmál lyftir ekki öllum bátum; frekar hefur bilið á milli ríkra og fátækra stóraukist í mörgum löndum, og ríkustu 10% mannkyns bera ábyrgð á 48% af losun gróðurhúsalofttegunda. Það er heldur ekkert leyndarmál að veldisvöxtur landsframleiðslu tengist veldisvexti annara, minna eftirsóknarverðra hluta: losun gróðurhúsalofttegunda, yfirborðshita og súrnun sjávar, svo eitthvað sé nefnt. Hverjum þjónar þessi einfalda mynd af velferð okkar? Hvern skaðar það eða skilur eftir sig? Og hvað segir þessi mælikvarði um ógreidda vinnu okkar: heimilisstörf, umönnun og annað ólaunað vinnuafl?

David Cook er nýdoktor og aðjúnkt við umhverfis- og auðlindafræðideild Háskóla Íslands, en rannsóknir hans beinast að samtengingum hagkerfis og velferðar manna. Hann sagði: „Helsta vandamálið er að [landsframleiðsla] telur allt sem er jákvætt og ekkert sem frádrátt. Þannig að þetta er mjög góður mælikvarði á hversu mikil atvinnustarfsemi er í gangi, og það er gott, en það er líka mjög slæmur mælikvarði vegna þess að hann telur margt jákvætt sem við myndum segja skaði velferð okkar. Til dæmis, ef um mengun er að ræða, telst efnahagsstarfsemin kostnaður við mengun og kostnaður við hreinsun báðir jákvæðir í vergri landsframleiðslu. Þannig að verg landsframleiðsla og vöxtur hennar getur haldið áfram að vera tengdur starfsemi sem við getum talið vera mjög slæm fyrir okkur.“

„Annað mál er, þetta er mælikvarði á hversu mikil virkni fer fram í gegnum markaðsviðskipti. Flest af því samanstendur af neyslu…. við sem borgarar neytum margra hluta sem eru ekki endilega góðir fyrir okkur. Við getum sagt að við sóum að sumu leyti. Til dæmis, maturinn sem við kaupum: svo mikið af honum er hent þessa dagana. Og svo margt sem við kaupum hefur líka það sem við köllum ytri áhrif, neikvæðar afleiðingar fyrir samfélagið hvað varðar velferð. Mengun [er] mest áberandi dæmið: losun gróðurhúsalofttegunda, svifryk, allt það sem á sér stað vegna framleiðslu og neyslu á vörum og þjónustu…. Ekkert af þessu er venjulega reiknað með vergri landsframleiðslu.“

Ein tilraun til að byrja að breyta hugmyndafræðinni er í gegnum verðmatslíkanið „vistkerfisþjónusta“ sem gefur náttúruauðlindum verðgildi til að taka þær inn í hagkerfið. Vistkerfisþjónustan tekur mið af lífgefandi vistkerfum sem þjóna áframhaldandi tilveru okkar með því að gefa náttúrufyrirbærum gildi, eins og hringrás næringarefna (stuðningur), loftslag (stjórnun) og timbur (útvegun). Það er krefjandi að sætta sig við að peningar „tali“ svo sannfærandi að peningalegt verðmat á náttúrukerfum sem viðhalda tilveru okkar sé eina leiðin sem vistkerfið getur passað inn í núverandi efnahagsskipulag okkar. Algeng gagnrýni er sú að þessar áætlanir vanmeti mjög hversu gríðarlega mikið það er sem náttúran gefur okkur til að halda áfram að lifa. Við getum byrjað að breyta heimsmynd okkar með því að ýta nýklassíska efnahagslíkaninu inn í hið stærra vistkerfi og telja með hin verðmætu öfl sem byggja upp hið sanna hagkerfi sem stuðlar að lífsafkomu lífvera á þessari plánetu.

Samkvæmt „Sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna“ (2022) miðar ríkisstjórnin að því að stuðla að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á sama tíma og tekið er á loftslagsbreytingum með 55% samdrætti í beinni losun, fyrir árið 2030. Í þessu 59 blaðsíðna skjali eru efnileg markmið um endurheimt umhverfis og ítarlegt samfélagslegt samráð um sjálfbæra þróun. Á sama tíma er eina af fyrstu línum skjalsins: „Vöxtur og velferð eru leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.“ Að sumu leyti eru stjórnmálamenn enn ekki að viðurkenna að hagvöxtur sé ekki endilega jafngildur umhverfis- og félagslegri velferð. Ríkisstjórnir í auðugum löndum gera fólkinu sínu ógagn með því að breyta ekki frásögninni úr því að auka galla í kerfinu í blindni yfir í það að einbeita sér að því að laga þá. Til dæmis, efnahagsskýrsla bandarískra stjórnvalda 2023 innihélt orðið „vöxtur“ 197 sinnum, aðallega með vísan til mikilvægis þess að auka hagvöxt í gegnum landsframleiðslu. Með því að reyna að halda nýklassísku hugmyndafræðinni á lofti á sama tíma og stuðlað er að vistfræðilegri vellíðan getur skapast óljós og misvísandi forgangsröðun stjórnarfars sem reynir að halda hagsmunum beggja heimsmynda á lofti. Þannig að, hvað getum við gert? Hvernig aftengjum við vöxt frá velferð og tryggjum vistvæna velferð á jörðinni innan marka plánetunnar okkar?






Handan VLF: Aðrir mælikvarðar fyrir umhverfislega, efnahagslega og félagslega vellíðan

Annar hagfræðilegur mælikvarði á landsframleiðslu er mannþróunarvísitala (Human Development Index (HDI)), sem tekur tillit til landsframleiðslu á höfðatölu (lífskjör) ásamt þáttum í heilsu (lífslíkum) og menntunarstigi á höfðatölu, þar sem hvert þessara viðmiða er vegið jafnt. Þetta er einfaldur valkostur, en það er skref í áttina að því að huga að öðrum þáttum með skýrari mynd af heildrænni framþróun þjóðarinnar. 

Annar nýr mælikvarði er „Genuine Progress Indicator” (GPI)). David Cook rannsakar aðra mælikvarða til að mæla efnahagslega velferð; eitt af ritum hans ásamt meðhöfundi, Brynhildi Davíðsdóttur, „Áætlun um raunverulegan framfaravísi fyrir Ísland, 2000-2019,“ skoðar beitingu þessa hagfræðilega mælikvarðakerfis sem gæti verið fágaðra en að telja alla atvinnustarfsemi sem nettó jákvæða fyrir landsframleiðslu.

„Þegar við erum að hugsa um verga landsframleiðslu, þá segi ég alltaf að við ættum ekki bara að henda henni,“ sagði David. „Það er til fólk sem heldur að við ættum að gera það, vegna þess að það er lélegur mælikvarði á vellíðan. En það er í raun mikilvægt sem einn mælikvarði á virkni… Það sem við þurfum eru viðbótarráðstafanir sem fanga nokkur atriði sem tengjast félagslegu víddinni; lífsgæði, efnisleg lífskjör og einnig sjálfbærni. GPI er ein nálgun sem fangar nokkra þætti. Þar sem sú aðgerð er frábrugðin landsframleiðslu er að hún reynir að taka peningalegan frádrátt vegna umhverfis- og samfélagskostnaðar… á umhverfishliðinni, kostnað við losun gróðurhúsalofttegunda, loftmengun og jarðvegseyðingu. Einnig að viðurkenna kosti… að reyna að telja með gildi fyrir hluti eins og uppeldi og sjálfboðavinnu“”

„Þannig að á vissan hátt er þetta blæbrigðaríkari nálgun á þjóðhagslegar framfarir, en samt er öllu breytt í peningaeiningar og sumt af þessu er ennþá frekar erfitt að breyta í peningaeiningar. Stundum, sérstaklega í tilfelli Íslands, getur líka mikið vantað upp á gögn… Þú endar með því að nota tölur sem eru kannski ófullkomnar og heimildir sem eru ófullkomnar. En það er ein leið til að mæla framfarir. Þú segir að verg landsframleiðsla sé lélegur þjóðhagslegur mælikvarði á velferð; við skulum bæta það og bæta við það með einhverju öðru sem gæti verið aðeins betra, en samt peningaleg mælieining á framfarir,“ bætti David við.








Blómstrað innan marka kleinuhringjahagkerfisins

Að meta innbyrðis tengsl brýnna félagslegra, efnahagslegra og umhverfismála okkar er mikilvægt skref í átt að réttlátri umskipti yfir í betra kerfi. David deildi nokkrum nýjum lausnum á vaxtarvandanum. Um umræðuefnið, efnahagslegar hugmyndabreytingar, sagði hann: „Ég laðast í auknum mæli að þeirri sýn sem sett er fram í því sem kallast kleinuhringjahagfræði, og kleinuhringjahagkerfið er rammi sem hefur í raun komið fram á síðustu 10 árum eða svo og var hugmynd breska hagfræðingsins Kate Raworth.“ 

„Kleinuhringjahagkerfið skoðar hvernig við getum samtímis uppfyllt lágmarks samfélagsþarfir og ekki sett umfram þrýsting á mörk plánetunnar… Ríkari þjóðir eins og Ísland og Norðurlandabúar uppfylla nokkurn vegin allar félagslegar grunnþarfir; húsnæði, húsaskjól, pólitíska rödd, jafnrétti kynjanna. En hafa gert það þvert á mörk plánetunnar, eins og þau sem tengjast loftslagsbreytingum og landnotkun og þess konar hlutum. Svo spurningin er, getum við í raun og veru skipt yfir í hagkerfi þar sem við getum uppfyllt félagslegar þarfir okkar en ekki sett óþarfa þrýsting á umhverfið? Og það er áhugavert sjónarhorn, en spurningin er líka, hvað með þjóðir sem eru að þróast, stækkandi hagkerfi, ný hagkerfi, vaxandi hagkerfi í Afríku: vanþróuð hagkerfi. Hvað ætla þau að gera? Ætla þau að feta sömu leið og við höfum farið sem þróuð þjóð, setja þennan umfram þrýsting á umhverfið sem er líklegur til að leiða til tímamóta sem mun grafa undan velferð næstu áratugi og aldir? Ætla þau að gera það með jarðefnaeldsneyti og fara þá leið? Þetta er hluti af margbreytileikanum, sú staðreynd að við berum ábyrgð á sumum vandamálum plánetunnar okkar sem ríkari þjóðir og sú staðreynd að við verðum að leiða umskiptin að veruleikanum þar sem við setjum ekki svo mikinn þrýsting, en við uppfyllum enn félagslegar þarfir,“ sagði hann.

Það verður mikilvægara að skilja hlutverk suðurhluta heimsins í réttlátum umskiptum þegar við íhugum ábyrgð þeirra og sanngjarnar þróunarleiðir. Þetta er flókin áskorun, þar sem mörg þessara landa eru að taka á sig afleiðingar af ávana á jarðefnaeldsneyti og lífeðlisfræðilega kreppu sem að mestu stafar af neyslu frá norðurhluta heimsins.

Jafnvægi og réttlát umskipti

Það að umbreyta hagkerfið yfir í annað verðmætakerfi kann okkur að finnast óyfirstíganlegt. Eitt sem er mikilvægt að hafa í huga er að efnahagslegu umskiptin sem lýst eru hér eru ekki nýuppfundin hagkerfi, heldur hafa mörg af þeim gildum sem koma fram í kleinuhringjahagkerfislíkaninu verið til í samfélögum frumbyggja í þúsundir ára. Nýsköpun til að takast á við umhverfisvandamál sem eru að koma upp er mikilvæg, en við búum enn í lokuðu kerfi þar sem sömu efnin hafa hringsólað um alla mannkynssöguna. Við getum huggað okkur við þá staðreynd að mörg samfélög frumbyggja um allan heim starfa undir vistfræðilegu efnahagskerfi og hafa sérfræðiþekkingu til að leiðbeina því hvernig tilvalin gagnkvæm uppbygging okkar gæti litið út.

Tökum dæmi af hefðbundnu samísku hagkerfi í Norður-Skandinavíu, sem snýst um sjálfsákvörðunarstofnanir þeirra um stjórnarhætti. Sögulega hefur samísk samfélagsstjórn metið hreindýrarækt, veiði og fiskveiði hirðingja sem mótast samhliða félagslegri og menningarlegri velferð. Stærri fjöldi, um 70,000 til 80,000 Sama í Svíþjóð og Noregi, hefur þróað sjálfstætt, sjálfbært efnahagskerfi í árþúsundir. Á sama tíma hafa orkuskiptin í Svíþjóð að mestu litið framhjá samískum hagsmunum og komið á kostnað landa þeirra. Líkt og blindur vöxtur, getur blind efnahagsleg umskipti eða umskipti hvað sem það kostar, leitt til áframhaldandi ójöfnuðar sem knýr skeytingalausa kúrekahagkerfið áfram og viðheldur árekstrum milli félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta. Framtíðarsýnin um efnahagslega velferð krefst réttlátra umskipta og þau umskipti verða að setja fullveldi frumbyggja og samstarf samfélagsins í forgang til að mæta félagslegum þörfum okkar innan marka umhverfisins.

Glory Kate Chitwood