Loftslagsmarkmið HÍ í uppnámi vegna flugferða starfsmanna
Samkvæmt síðustu umhverfisskýrslu HÍ valda flugferðir starfsmanna allt að 80% af heildarkolefnisspori Háskóla Íslands. Kolefnisspor Háskólans dróst mikið saman á meðan á Covid-faraldrinum stóð enda lá flugið að miklu leyti niðri þá, en losun hefur síðan verið að aukast aftur og er nú að ná svipuðum hæðum og fyrir faraldurinn. Til að ná þeim markmiðum um samdrátt sem stjórnvöld hafa sett þyrfti Háskólinn að draga úr losun um sem nemur 40% að lágmarki fyrir 2030 en tregða til að setja takmarkanir á flugferðir starfsmanna veldur því að afar ólíklegt er að markmiðin náist.
Blaðamaður Stúdentablaðsins náði tali af Sólrúnu Sigurðardóttir og Jóni Sigurði Péturssyni verkefnisstjórar á framkvæmda- og tæknisviði, sem sjá meðal annars um grænt bókhald Háskólans og birta umhverfisskýrslu einu sinni á ári.
Bókhaldið sífellt að verða ítarlegra og nákvæmara
„HÍ skilaði fyrst inn grænu bókhaldi árið 2012,“ segir Sólrún, „en það var ekki fyrr en 2018 sem bókhaldið fór að verða töluvert ítarlegra. Þá fórum við til dæmis að kortleggja flugferðir starfsmanna, safna upplýsingum um eldsneytisnotkun bílaflotans og ýmislegt annað og þess vegna notum við gjarnan árið 2018 sem viðmiðunarár í þessu bókhaldi. Við erum alltaf að bæta fleiri þáttum inn í bókhaldið þannig sumir þættir eru ekki fullkomlega samanburðarhæfir á milli ára en þetta gefur samt nokkuð góða heildarmynd af því hvernig þróunin hefur verið síðustu ár.“
„Hvaða þættir eruð þið helst að vakta?“
„Eitt af því sem við erum að skoða í þessu bókhaldi eru pappírsinnkaup og prentþjónustu,“ segir Jón Sigurður, „en þá er alltaf verið að skoða hvort pappírinn sé vottaður og þess háttar en það er ekki reiknuð nein losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðslu pappírsins. Við erum líka að vakta rafmagnsnotkun og heitt vatn en það er heldur ekki reiknuð nein losun frá heita vatninu. Síðan er millilandaflugið stærsti losunarliðurinn þegar kemur að kolefnisbókhaldinu, en í því bókhaldi eru fjórir liðir sem við erum að vakta: akstur, úrgangur, rafmagn og flug.“
„Inn í þetta vantar hins vegar samgöngur starfsmanna og nemenda til og frá Háskólanum,“ bætir Sólrún við, „og það er eitt að því sem okkur langar að hafa með. Það var lögð fyrir ítarleg samgöngukönnun fyrir áramót sem félagsvísindastofnun hélt utan um og náði til starfsfólks og nemenda og við erum að byrja að vinna úr þeim niðurstöðum. En við erum bílaþjóð og mig grunar að þetta verði því miður mjög háar tölur.“
„Er Háskólinn búinn að setja sig einhver sérstök markmið í umhverfismálum, svo sem töluleg markmið um samdrátt í losun?“
„Stjórnarráðið setti markmið um 40% samdrátt fyrir 2030 miðað við 2018. Þetta markmið er síðan búið að uppfæra í 55% en við erum ekki búin að uppfæra okkar markmið og það er samtal sem þarf að eiga sér stað,“ segir Jón Sigurður.
„Já, og til að ná þessum markmiðum um 40% samdrátt þá þyrftum við að draga úr losun frá flugi um alla vega 45%,“ segir Sólrún.
Minni úrgangur en ekki endilega betri flokkun
Samkvæmt bókhaldinu dróst magn úrgangs saman um 30% frá 2018. Hlutfall úrgangs sem er flokkað hefur hins vegar staðið nokkuð í stað. „Endurvinnsluhlutfallið hefur jafnvel aðeins verið að versna miðað við 2020,“ segir Sólrún. „Það var um það bil 63% og er komið niður í 53% núna en losunin hefur samt sem áður dregist saman vegna þess að heildarmagnið er einfaldlega minna, og það hljótum við að fagna þótt við vildum auðvitað sjá hærra endurvinnsluhlutfall. FS og Háma hafa meðal annars verið að draga úr notkun á einnota búnaði og bjóða upp á margnota í staðinn og það hefur áhrif.“
Fleiri rafmagnsbílar en ekki endilega færri jarðefnaeldsneytisbílar
Græna bókhaldið sýnir að rafmagnsbílum hefur fjölgað úr 6 í 11 á tímabilinu 2018-2022. Hins vegar hefur losun frá bílum á vegum HÍ ekki endilega minnkað þar sem öðrum bílum hefur ekki fækkað. Þar að auki nær bókhaldið aðeins yfir hluta af bílaflotanum og losunin er því vanmetin eins og Sólrún bendir á: „það eru stofnanir innan HÍ sem reka sína eigin bíla og eru ekki inn í þessum tölum þar sem okkur vantar gögn um þeirra orkunotkun, en það er þó gott að taka fram að við í HÍ erum með byggingadeild þar sem eru notaðir stærri bílar og nýlega var fjárfest í rafmagnsflutningabíl, þannig að eitthvað er þó að gerast…“
Samkvæmt bókhaldinu hefur losun frá bílum á vegum HÍ aukist um 22% frá 2018. Sólrún segir hins vegar að tölurnar séu ekki alveg samanburðarhæfar þar sem töluvert hafi vantað af gögnum árið 2018 og því hafi losunin það ár verið vanmetin. „Þetta voru mjög óljósar upplýsingar sem við fengum fyrst frá samstarfsaðilum, og jafnvel stundum engar upplýsingar,“ segir Jón Sigurður. „Þegar maður bað um upplýsingar fékk maður bara svarið: „við getum ekki veitt þessar upplýsingar.“ Rútufyrirtækin eru hins vegar almennt orðin frekar góð í þessu núna og bílaleigufyrirtækin hafa verið að bæta sig í þessu líka, en svo fengum við sjokk í fyrra þegar Hreyfill neitaði að gefa upp upplýsingar nema að það væri greitt fyrir þær. Það er vissulega einhver kostnaður sem fylgir því að skrá þessar upplýsingar en um leið og kerfið er upp komið ætti þetta að vera frekar einfalt.“
Um helmingur starfsmanna fer í vinnuna eitt í bíl
„Já, við erum svakaleg bílaþjóð, það verður að segjast,“ segir Sólrún. „Það kom okkur reyndar á óvart þegar við fengum frumniðurstöður úr samgöngukönnuninni að þessar tölur eru jafnvel verri hjá nemendum. Á veturna eru 60% nemenda sem segjast koma eitt í bíl.“
„Hvað getum við gert? Þú spyrð stórar spurningar… (Sólrún dæsir). Við höfum verið að reyna að bæta innviði fyrir þá sem vilja nýta sér vistvænar samgöngur. Núna í haust var komið fyrir læst hjólaskýli við Læknagarð til dæmis, og það er nýlega loksins búið að veita byggingarleyfi fyrir læstu skýli á bak við Aðalbyggingu og við Tæknigarð. Sum af þessum nýjum rafmagnshjólum eru dýr og það er skiljanlegt að fólk vilji hafa almennilega aðstöðu til að geyma hjólin.“
Hugmyndir um bílastæðagjald og samgöngupassa til umræðu á Háskólaþingi.
Hugmyndir um að taka gjald af bílastæðum í kringum Háskólann hafa lengi verið til umræðu en málið hefur enn ekki verið tekið fyrir hjá Háskólaráði. Það var þó rætt á Háskólaþingi í janúar en þá virtist hafa myndast töluverð samstaða um að hrinda gjaldtökunni í framkvæmd. Þá eru hugmyndir um að nýta þá peninga sem myndu sparast við gjaldtökuna til þess að bjóða nemendum upp á samgöngupassa, það er að segja árskort í strætó á niðursettu verði. Endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin enn sem komið er. „Þetta hefur alltaf verið viðkvæmt mál, sumir vilja geta nýtt sér frítt bílastæði en svo eru aðrir sem koma aldrei á bíl og spyrja „hvenær á að gera eitthvað fyrir mig? Af hverju er HÍ nú þegar að standa undan rekstrarkostnaði á bílastæðum sem hleypur á tugum milljóna á ári á meðan ekkert er gert fyrir mig sem kem á hjóli, gangandi eða með strætó?“ Það þarf auðvitað að gæta að jafnræði.“
Sífellt færri starfsmenn að nýta sér samgöngusamninga
Í bókhaldinu kemur einnig fram að fjöldi samgöngusamninga milli Háskólans og starfsmanna hefur hrunið á aðeins nokkrum árum, eða úr 219 árið 2020 niður í 63 árið 2022. Aðspurð segir Sólrún að samningarnir séu mögulega of lélegir til þess að starfsmenn sjái hag sinn í að skrifa undir samning. „Þessir samningar virka þannig að allir starfsmenn sem eru í 50% starfshlutfalli eða meira geta skrifað undir samning gegn því að skuldbinda sig til að koma í vinnuna með vistvænum samgöngumáta að minnsta kosti 40% af tímanum. Á móti þessu getur það annað hvort fengið niðurgreiðslu á árskorti í strætó upp á 15.000 (kortið kostar 104.000) eða frían aðgang að íþróttahúsi HÍ, en árspassinn þar er hvort sem er frekar ódýr. Nú er verið að skoða hvort það sé hægt að nýta þá fjármuni sem hafa hingað til farið í rekstur bílastæða til að bjóða upp á betri samgöngusamninga, en það óvíst að þessar hugmyndir verði að veruleika á næstunni. Ég labba til dæmis í vinnuna en hef ekki séð ástæðu til að nýta mér samgöngusamning þar sem ég nota ekki íþróttahúsið.“
Losun frá flugi: fíllinn í stofunni
Í græna bókhaldinu kemur bersýnilega í ljós að flugsamgöngur eru fíllinn í stofunni þegar kemur að kolefnisspori Háskólans. Árið 2018 olli flugið um 75% af allri losun í rekstri Háskólans, talan lækkaði síðan á meðan á faraldrinum stóð en hlutfallið var komið aftur upp í 65% árið 2022 og gæti reynst enn hærra árið 2023 (tölurnar fyrir 2023 eru væntanlegar á næstu mánuðum). Þetta er þrátt fyrir að í bókhaldinu sé notuð reiknivél frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) sem gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum hlýnunaráhrifum frá fluginu en losun CO₂, en vísindamenn mæla yfirleitt með því að tvöfalda losunartölur frá fluginu til að gefa réttari mynd af áhrifum þess að brenna jarðefnaeldsneyti í háloftunum. Sé sú aðferð notuð kemur í ljós að losun frá fluginu árið 2022 jafngildi 80% af allri losun á meðan úrgangur, sem fær gjarnan mestu athyglina, valdi aðeins innan við 7% af losuninni.
Aðspurð segjast Sólrún og Jón Sigurður ekki hafa völd til þess að setja neinar takmarkanir á flugferðir starfsmanna:
„Við erum að vakta þessa þætti, en höfum í raun engin völd til þess að setja boð og bönn á flugferðir starfsfólks,“ segir Sólrún. „Það sem við höfum verið að gera er að benda á þessar tölur og reyna að vekja fólk til umhugsunar og við finnum að það er aukinn áhugi hjá stjórnendum HÍ á að ræða þessi mál. Við erum líka með ákvarðanatré um flug sem er tæki til að hjálpa fólki að átta sig á því hvort flugferðin sé virkilega nauðsynleg. Síðan er örugglega hægt að draga úr ferðum með því að samnýta ferðir betur.“
Markmiðin nást ekki nema flugið sé með
Ef 40% samdráttur á að nást er ljóst að losun frá flugi mun þurfa að minnka töluvert. Blaðamaður spurði Sólrúnu og Jón Sigurð hvað stæði til að gera á því sviði, hvort það væri ekki nauðsynlegt að Háskólinn grípi til aðgerða frekar en að treysta eingöngu á velvilja einstaklinga. Sumir hafa stungið upp á einskonar kvótakerfi, en samkvæmt því yrði starfsmönnum úthlutað einhvern hámarksfjölda flugferða á ári.
„Við höfum stundum rætt það okkar á milli en ég held að við munum ekki sjá neitt gerast í þessu fyrr en stjórnvöld fara að leggja línurnar. Maður hefur til dæmis heyrt umræðu um að það eigi að draga úr ferðastyrkjum og slíku og það hlýtur að hafa áhrif á fjölda flugferða.“
„En er þetta ekki samt eitthvað sem Háskólinn getur gert án þess að bíða eftir stjórnvöldum? Væri skilningur á þessu hjá starfsfólki almennt?“
„Ég er viss um að einhverjir myndu taka því fagnandi, en við höfum ekki mikla tilfinningu fyrir því. Við myndum allavega styðja það. Vandinn er líka sá að við erum alltaf að tala um að efla alþjóðlegt samstarf enda er það hluti af stefnu HÍ en á sama tíma erum við að reyna að draga úr losun okkar. Manni finnst þetta stundum vera markmið sem stangast á. Auðvitað er eðli starfa ólíkt og sum störf kalla á fleiri utanlandsferðir en önnur, en ég er samt nokkuð viss um að það væri hægt að draga úr þessum flugferðum.“
„Eruð þið samt bjartsýn á að markmiðin um 40% samdrátt í losun muni nást?“
„Maður var nokkuð bjartsýnn á meðan á faraldrinum stóð og maður hugsaði „nú er fólk loksins að draga úr þessu,“ en auðvitað hefur maður mestar áhyggjur af fluginu enda er það stærsti áhrifavaldurinn í þessu,“ segir Sólrún. „En síðan gæti verið að við tökum samgöngur til og frá Háskólanum inn í bókhaldið og þá kannski kemur í ljós að þar er líka mikið verk að vinna. En jú jú, verður maður ekki að vera bjartsýnn…“
„Við látum þig allavega vita þegar nýjustu tölurnar koma út,“ bætir Jón Sigurður við og glottir…