Menntasjóður framtíðarinnar
Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands ræðir framtíð Menntasjóðs námsmanna
Við stöndum á ákveðnum tímamótum í menntamálum, eða öllu heldur í fjármögnun menntunar á háskólastigi. Fjárframlög til opinberra háskóla duga ekki til að hægt sé að halda uppi samkeppnishæfu menntakerfi og stúdentar búa enn í meginatriðum við ófullnægjandi námslánakerfi. Hvaða afleiðingar hefur þetta í för með sér ef litið er til framtíðar?
Menntasjóður námsmanna var settur á fót árið 2020 eftir heildarendurskoðun á námslánakerfinu. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna skal fara fram endurskoðun á lögunum innan þriggja ára eftir að þau koma til framkvæmda og skulu niðurstöður hennar kynntar á haustþingi 2023. Það liggur nú þegar fyrir að hvers konar endurskoðun á kerfinu leiðir í ljós verulega annmarka sem ekki verður bætt úr nema með lagabreytingum.
Staðreyndin er sú að heildarendurskoðunin sem ráðist var í á sínum tíma bar ekki þann ávöxt sem stúdentar höfðu vonast til. Þeim breytingum sem gerðar voru fylgdi ekki aukið fjármagn heldur var því fjármagni sem þegar var til staðar í kerfinu einfaldlega hagrætt. Kröfur stúdenta vegna þeirrar endurskoðunar sem nú á að fara fram grundvallast því fyrst og fremst á því að námslánakerfið verði fjármagnað með fullnægjandi hætti.
Helstu kröfur stúdenta snúa meðal annars að því að vaxtaþak á námslánum verði lækkað. Í dag er vaxtaþakið 4% fyrir verðtryggð lán og 9% fyrir óverðtryggð lán. Þess ber að geta að í fyrstu drögum að frumvarpi til laga um Menntasjóð námsmanna var ekki kveðið á um neins konar vaxtaþak á lán frá sjóðnum og hefðu lántakar því verið berskjaldaðir í efnahagsástandi dagsins í dag. Ef ekki hefði verið fyrir baráttu stúdenta hefðu óverðtryggð lán til dæmis verið með yfir 9% vexti í dag. En stúdentahreyfingin er hvergi nærri hætt í þessari baráttu sinni, því ljóst er að lækka þarf vaxtaþakið til að það grípi lántaka fyrr og veiti þeim betri vernd.
Stúdentar krefjast þess einnig að undanþágur séu rýmkaðar og taki betur mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta. Í því samhengi höfum við meðal annars horft til Noregs, en þess má geta að fyrirmyndin að Menntasjóði námsmanna er norska námslánakerfið. Þar eiga lántakar kost á allt að 60 eininga svigrúmi til seinkunar í námi án þess að þurfa að greiða til baka fyrirframgreidd námslán. Þeim sem seinkar í námi vegna veikinda, barneigna eða fötlunar er veitt ennþá meira svigrúm. Hér á landi missa stúdentar lánsrétt ef þeim tekst ekki að ljúka 22 einingum á önn. Þó eru í gildi einhverjar undanþágur, en stúdentar hafa bent á að þær séu ekki nógu víðtækar og taki oft á tíðum ekki mið af raunverulegum aðstæðum þeirra.
Þá hafa stúdentar árum saman barist fyrir fullnægjandi grunnframfærslu en eins og staðan er í dag duga námslán ekki fyrir framfærslukostnaði hér á landi og það sama á við um viðbótarlán vegna húsnæðis. Lágt frítekjumark hér á landi (í samanburði við önnur norræn lönd til dæmis) er ekki til þess fallið að bæta úr stöðunni, en eftir því sem stúdentar vinna meira með námi, því meira skerðast námslán þeirra. Stúdentar eiga þannig á hættu að lenda í fjárhagslegum vítahring sem hefur augljós áhrif á framvindu náms þeirra sem í honum lenda.
Fulltrúar stúdenta hafa einnig talað fyrir tvískiptu frítekjumarki að danskri fyrirmynd, þannig að sjálfsaflafé að sumri komi ekki til eins mikils frádráttar og sjálfsaflafé að vetri. Þegar allt kemur til alls er þó ljóst að rót vandans er auðvitað grunnframfærslan, því ef hún væri fullnægjandi þyrftu stúdentar hér á landi ekki að vinna eins mikið með námi og raun ber vitni. Svo ekki sé talað um þau sem eiga einfaldlega ekki kost á að vinna með námi. En til þess að hækka grunnframfærsluna þarf auðvitað meira fjármagn í kerfið og ákvörðun um slíkt liggur hjá stjórnvöldum.
Framtíð námslánakerfisins ræðst af því hvaða mat við sem samfélag leggjum á virði menntunar og þá sérstaklega hvers virði menntun er í augum stjórnvalda.
Þetta skilur eftir mikilvæga spurningu til ráðherra ríkisstjórnarinnar: