Eurovision 2023: Sameinuð með tónlist

Þýðing: Erna Kristín Birkisdóttir

Þá er sá tími ársins runninn upp á ný – þið fáið öll að lesa fullkomlega tilviljunarkenndu skoðanir mínar á lögunum sem urðu fyrir valinu sem framlög í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision), sem bráðum fer að skella á.

Í ár er þemað „Sameinuð með tónlist“, og það hefur svo sannarlega verið samvinna til staðar á milli Bretlands og Úkraínu í ár. Þrátt fyrir ótvíræðan sigur Úkraínu á síðasta ári er þjóðin ófær um að halda keppnina (af augljósum ástæðum), og því var eitt af hinum „fimm stóru“ löndum (Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn og Bretland) fengið til þess að halda keppnina fyrir þeirra hönd. Þar sem Bretland lenti í öðru sæti í fyrra virtist augljósasti kosturinn vera að halda keppnina þar í ár, en það er áhugavert að Bretland hafi fallist á það í ljósi Brexit-ruglsins. Engu að síður verður keppnin haldin í Liverpool í ár, þar sem kostnaðurinn fyrir einnar nætur dvöl hefur rokið upp og er verðið fyrir hverja nótt nú yfir 150 þúsund krónur - ekki að það skipti máli, þar sem ómögulegt hefur verið að næla sér í miða á keppnina hvort sem er. Rússland tekur ekki þátt í keppninni að þessu sinni, sem kemur varla á óvart.

Þátttakendurnir í ár valda ekki vonbrigðum, og bjóða upp á víðfeðman skala af lögum, allt frá hinum hefðbundnu dapurlegu ballöðum til vægast sagt furðulegra framlaga (já, ég er að horfa á þig, Króatía). 

Að því sögðu langar mig að kynna fyrir ykkur framlögin í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2023:

Mynd: Eurovision World

  • Albanía Duje með Albina & Familja Kelmendi: Þetta lag, sem valið var í gegnum þjóðvalskeppnina Festivali i Këngës, virðist fjalla um mikilvægi fjölskyldu og ástar. Þetta tilfinningaþrungna og kraftmikla framlag inniheldur svo margar langar nótur að lifandi flutningur þess gæti orðið krefjandi verkefni. Á heildina litið er þetta ekki slæmt lag, en er þó klárlega ekki með þeim mest grípandi í ár.

  • Armenía Future Lover með Brunette: Armenía hefur ekki enn unnið keppnina og því miður held ég að þetta sé ekki árið þeirra heldur, en það er aldrei að vita. Brunette hefur lýst laginu sem „ljóðrænum striga“ og „bréfi án viðtakanda“ – kannski er ég ekki nægilega menningarleg og listræn til að kunna að meta þetta framlag. Því miður, Armenía.

  • Ástralía Promise með Voyager: Þetta lag er vægast sagt einstakt þegar kemur að tónlistarstefnu. Byrjunin myndi sóma sér vel í söngleik á borð við The Greatest Showman, en lagið fikrar sig síðan yfir í rokk (jafnvel metal) og þaðan beint yfir í speisað retró-gítarsóló. Hljómsveitin heitir Voyager og er sannarlega eitt svakalegt ferðalag. Það er óhætt að segja að ég elska það.

  • Austurríki Who the Hell is Edgar með Teya & Salena: Þetta framlag er Skrítið með stóru S-i. Lagið er skrifað frá sjónarhorni manneskju sem er andsetin af Edgar Allan Poe, sem er stórfurðulegt en samt furðulega grípandi. Ég verð satt að segja vonsvikin ef þetta lag kemst ekki í úrslitakeppnina.

  • Aserbaídsjan Tell me More með TuralTuranX: Ljúft lag sem myndi sóma sér vel í rómantískri gamanmynd. Það er mjög heilnæmt, og þó að uppbyggingin sé ef til vill ekki nógu snjöll til að ná langt, held ég að ég muni hlusta á það á leið minni í vinnuna á blíðviðrisdögum í sumar.

  • Belgía Because of You með Gustaph: Þetta lag venst betur með hverri hlustun; það er hressandi með ljúfum boðskap um að elska sig sjálf, vera sterk og fagna litlu hlutunum. Klassísk „Eurovision“ stemning. Ég vonast til að heyra það á Kíkí í sumar eða í karókí einhvern tímann.

  • Króatía Mama ŠČ! með Let 3: Þetta er ólýsanlegt. Í alvöru. Hlustið á það. Ég er orðlaus. Ég óska þeim góðs gengis.

  • Kýpur Break a Broken Heart með Andrew Lambrou: Þetta er þessi venjulega Eurovision ballaða sem öll kannast við. Ég held að þetta lag komist mögulega langt ef horft er til lifandi flutnings og sviðsetningar. Mikil samvinna fór í þetta lag, en lagið er framleitt af lagahöfundum og framleiðendum sem hafa reynslu af bæði Eurovision og vinnu með stórum nöfnum eins og Taylor Swift.

  • Tékkland My Sister‘s Crown með Vesna: Ég tengdi eiginlega ekki við þetta lag þegar ég heyrði það fyrst, en ég er búin að venjast því svo mikið að ég get hreinskilnislega sagt að ég er farin að elska það. Þetta er mjög femínískt framlag, samið sem andsvar við kynbundnu misrétti með sviðsmynd sem lofar mjög góðu.

  • Danmörk Breaking my Heart með Reiley: Þetta lag lætur mér líða eins og ég sé gömul. Ég hugsaði með mér: „Er þetta það sem krakkar hlusta á í dag?“ Þetta er klárlega eitthvað sem hefði getað verið vinsælt þegar ég var í menntaskóla. Söngvarinn er færeyskur og lítur út fyrir að vera ljúfur strákur, svo ég vona að honum gangi vel - en lagið er ekki í uppáhaldi hjá mér.

  • Eistland Bridges með Alika: Þetta lag er þunglyndislegt þrátt fyrir að textinn sé jákvæður og uppbyggjandi, en hann er mjög tilfinningaríkur og minnir mig á framlag Sviss árið 2021 (Tout l‘Univers). Kröftugt atriði, en samt ekki alveg lag sem fellur undir það sem ég elska við að horfa á Eurovision.

  • Finnland Cha Cha Cha með Kaarija: Í fúlustu alvöru þá elska ég þetta lag. Þetta er mjög finnskt framlag og ég myndi ekki búast við neinu minna af þeim. Það er auðvelt að syngja með viðlaginu og ég dáist að djörfu skiptingunni frá raf-rokki/hvaða-helvítis-tegund-sem-er í byrjun yfir í europopp/diskó-endinn. Þetta lag er fullkomið dæmi um það sem mér finnst stórkostlegt við Eurovision. Douze points.

  • Frakkland Evidemment með La Zarra: Sem eitt af fimm stóru löndunum er þetta lag með öruggt sæti í úrslitunum. Mér finnst það fínt, og ef uppsetningin er eitthvað í líkingu við tónlistarmyndbandið held ég að það verði skemmtilegt að horfa á það, en ég er ekki viss um að það verði eftirminnilegt miðað við önnur framlög. Ég á það samt til að gleyma því að stór hluti Eurovision-áhorfenda er í kringum miðjan aldur og með íhaldssamari tónlistarsmekk heldur en ég, svo það er mögulegt að þessu lagi gangi betur en ég held.

  • Georgía Echo með Iru: Iru vann Junior Eurovision árið 2011 sem hluti af hópi, svo hún er enginn nýgræðingur í keppninni. Mér finnst þetta lag mjög gott, en ég held að velgengni þess fari eftir sviðsetningunni. Ég vona að flutningurinn í beinni útsendingu standi fyrir sínu og verði jafn spennandi og tónlistarmyndbandið gefur til kynna.

  • Þýskaland Blood and Glitter með Lord of the Lost: Þetta lag var valið sama dag og íslenska framlagið, svo mig grunar að flestir lesendur þessa tölublaðs hafi valið að horfa á Söngvakeppnina í staðinn. Þýskaland á tryggt sæti í úrslitunum en jafnvel þó að svo væri ekki held ég að þetta hefði komist áfram. Ef ég hefði ekki vitað að þetta væri Þýskaland hefði ég giskað á að þetta væri Finnland.

  • Grikkland What They Say með Victor Vernicos: Þetta lag væri fullkomið í tilfinningaþrungnu „make-over“ atriði í kvikmynd. Þetta er ekki slæmt lag, en ef það kemst áfram verð ég dálítið vonsvikin yfir því að það taki pláss frá verðugra framlagi. Kannski venst það.

  • Ísland Power með Diljá: Eins og mörg okkar eflaust vita vann Diljá Söngvakeppnina – upplífgandi boðskapur lagsins, sviðsetningin og kröftugur flutningurinn er virkilega heillandi. Þetta lag minnir mig á klassísk Eurovisionlög fortíðarinnar - þar sem atriðið snýst um innihaldið, ekki sjónrænar brellur.

  • Írland We Are One með Wild Youth: Tónlistarmyndbandið er miklu skemmtilegra en lifandi flutningur lagsins, en vonandi kryddar bandið upp á flutninginn fyrir keppnina. Boðskapurinn passar sannarlega inn í heildarþema Eurovision - mér finnst þetta verðugt framlag og ég vona að þeim gangi vel.

  • Ísrael Unicorn með Noa Kirel: Unicorn er einfaldlega ekki fyrir mig. Það er poppað og skemmtilegt og boðskapurinn góður, en mér finnst lagið ekki nógu samheldið. Á einum tímapunkti er orðið „phenomenal“  látið ríma við orðið „feminal“, sem truflar mig í hvert skipti sem ég heyri það. Mín skoðun virðist þó ekki vera algeng þar sem þetta lag er í miklu uppáhaldi margra eins og er.

  • Ítalía Due Vite með Marco Mengoni: Måneskin var greinilega óvenjulegt framlag frá Ítalíu og hér fáum við enn eina Eurovision ballöðuna. Lagið er fallegt, kraftmikið og tilfinningaríkt - en þetta er samt ballaða. Dálítið þreytt. Það á tryggt pláss í úrslitunum þar sem Ítalía er eitt af fimm stóru löndunum.

  • Lettland Aija með Sudden Lights: Flutningurinn í söngvakeppninni í Lettlandi var góður og tónlistarmyndbandið hreyfir sannarlega við manni, en í heildina finnst mér lagið ekkert sérstaklega eftirminnilegt. Ekki misskilja mig, mér finnst það ekkert slæmt - en mér finnst það eiginlega ekki vera neitt annað heldur.

  • Litháen Stay með Monika Linkyte: Monika hefur áður verið fulltrúi Litháen árið 2015 þegar hún lenti í 18. sæti, og satt að segja þá líkar mér betur við það lag. Þetta er önnur tilfinningaþrungin ballaða sem á ekki roð í sum af framlögunum í ár að mínu mati. Ég verð samt að segja að ég hef verið að raula þetta lag allan daginn og það pirrar mig hvað það er grípandi.

  • Malta Dance (Our Own Party) með The Busker: Besti parturinn af þessu lagi er saxófónninn, sem kemst því miður ekki í hálfkvisti við „epíska saxófóngaurinn“ (framlag Moldóvu árið 2010). Flutningur þessa lags í söngvakeppni Möltu var mjög skemmtilegur, en mér finnst þetta samt vera lyftutónlist. Alveg skemmtilegt, en ekki nógu eftirminnilegt.

  • Moldóva Soarele si Luna með Pasha Parfeni: Ég elska hvernig þetta lag var sviðsett í landsúrslitakeppninni – það er algjör vorboði. Textinn er meira eins og heiðin bæn frekar en söngtexti og ég dýrka það. Sjarmerandi hljóðfæraleikararnir eru greinilega innblásnir af þjóðlagakenndu framlagi Úkraínu árið 2021, og trommuleikararnir á sviðinu eru sneisafullir af orku.

  • Holland Burning Daylight með Mia Nicolai & Dion Cooper: Þessi ballaða er dúett, sem er allavega eitthvað, býst ég við. Þetta er klárlega fallegt lag, en mér finnst það ekki fanga það sem gerir Eurovision skemmtilegt. Þetta er framlag sem virðist taka sig aðeins of alvarlega.

  • Noregur Queen of Kings með Alessandra: Þetta er klárlega sigurlag að mínu mati. Lagið er femínískt, kraftmikið og fer klárlega á ræktarlagalistann minn. Ég vona að Alessandra klikki ekki á flutningnum í beinni útsendingu - hún var pínu fölsk í landsúrslitakeppninni (sem er skiljanlegt í ljósi allra danssporanna á sviði).

  • Pólland Solo með Blanka: Þegar þetta er ritað eru ýmsar staðhæfingar á lofti um að pólsku kosningaúrslitin hafi verið fölsuð… ég er ekki viss um hver staðan verður þegar þetta tölublað verður birt, en ef Solo kemst áfram í úrslitin held ég að það gæti náð langt. Lagið er skemmtilegt, poppað og grípandi og boðskapurinn um sjálfstæði og sjálfstraust frábær.

  • Portúgal Ai Coracao með Mimicat: Bíðum nú hæg! Er Portúgal í alvörunni ekki með ballöðu í ár? Þetta hressilega framlag er líflegt hvað varðar búninga og ég nýt þess meira heldur en það sem Portúgal sendir venjulega inn, en það eru svo mörg góð lög í ár að ég er bara ekki viss um að þetta skeri sig nógu mikið úr.

  • Rúmenía D.G.T. (Off and On) með Theodor Andrei: Theodor Andrei er ekki nema 18 ára gamall og lagið er sungið bæði á ensku og rúmensku. Svo virðist sem titillinn D.G.T. sé orðaleikur, en merkingin gæti glatast á öðrum tungumálum en rúmensku. Lagið er ekki í uppáhaldi hjá mér, en það er vissulega grípandi og ég sé hvers vegna áhorfendum gæti líkað það.

  • San Marínó Like an Animal með Piqued Jacks: Ég skynja mjög mikinn indie-popp fíling í þessu framlagi. Lagið er sterkt, en viðlagið er ekki þess eðlis að mig langi til að syngja með. Ég myndi heldur ekki dansa við þetta lag, frekar setja það í gang í bíltúr þegar ég er orðin þreytt á því að syngja með öðrum lögum.

  • Serbía Samo Mi Se Spava með Luke Black: Sviðsetning þessa lags var óaðfinnanleg í landsúrslitakeppninni – þetta lag tikkar í öll box sem Eurovisionlag og ég vona svo sannarlega að öll önnur elski það jafnmikið og ég. Frábær flutningurinn og sviðsetningin blæs lífi í rólegan taktinn.

  • Slóvenía Carpe Diem með Joker Out: SVO STÓRT JÁ. Í landsúrslitunum voru allir hljómsveitarmeðlimirnir í fötum sem mig langar til að stela, og þeir skemmtu sér greinilega konunglega á sviði. Ég get ekki beðið eftir að sjá þá í undanúrslitunum.

  • Spánn EAEA með Blanca Paloma: Þetta framlag minnti mig á franska framlagið í fyrra. Það er öðruvísi og ég er búin að venjast því verulega frá því að ég heyrði það fyrst. Spánn, líkt og Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Úkraína og Bretland, er með tryggt sæti í úrslitakeppninni.

  • Svíþjóð Tattoo með Loreen: Þetta lag er allt í lagi, en eftir sigur Loreen árið 2012 virðist hún vera að ríghalda í það sem virkaði síðast og mér finnst það einhæft. 

  • Sviss Watergun með Remo Forrer: Ég á í erfiðleikum með að túlka þetta lag sem annað en þrælpólitískt (en eins og við vitum öll er Eurovision „ópólitískt“...). Lagið er rólegt og sorglegt og klárlega eitthvað sem man getur sungið með í sturtu (ég vil biðja meðleigjendur mína innilega afsökunar fyrirfram).

  • Úkraína Heart of Steel með Tvorchi: Sem sigurvegarar síðasta árs er Úkraína með tryggt sæti í úrslitunum. Venjulega hefðu þau haldið keppnina, en vegna núverandi aðstæðna er það ekki mögulegt. Ég er spennt að sjá hvernig lagið verður sviðsett þar sem tónlistarmyndbandið felur í sér möguleika á einhverju virkilega áhrifamiklu.

  • Bretland I Wrote A Song með Mae Muller: Kannski líkar mér bara þetta lag vegna þess að ég er frá Bretlandi. Mér finnst lagið sterkt, og þó að ég hafi ekki hlustað á það aftur og aftur eins og með önnur framlög myndi ég ekki skipta ef það kæmi upp í handahófskenndum lagalista.