Leikhúsferð til Lundúna - í miðbæ Reykjavíkur
Í haust tók Bíó Paradís upp á því nýmæli að sýna leiksýningar, teknar upp á fjölum Þjóðleikhúss Breta, á hvíta tjaldinu. National Theatre Live sýningar eru teknar upp með mikilli nákvæmni með það fyrir augum að gefa áhorfendum víðs vegar um heim hvort heldur sem er í bíósölum eða heima í stofu sýnishorn af upplifun leikhúsferðar í Lundúnum. Blaðamaður Stúdentablaðsins nýtti tækifærið og fór á sýningu leikritsins Good eftir CP Taylors. Aðalhlutverkin voru í höndum David Tennant sem hinn þýski háskólaprófessor John Halder. Elliot Levey og Sharon Small fara svo með fjölda hlutverka. Leikstjórn var í höndum Dominic Cooke.
Leikritið hefst í Þýskalandi árið 1933 þar sem John Halder er bara ósköp venjulegur góður maður. Hann leitar gjarnan ráða hjá besta vini sínum sem er gyðingur. John kljáist við ýmis vandamál sem eru mörgum kunn. Móðir hans er blind og ósátt við að hafa verið komið fyrir á sjúkrahúsi, konan hans er veik á geði og hann er að reyna að ná frama í starfi sem háskólaprófessor. Svo bankar ástin að dyrum og hann tekst á við það sem því fylgir að verða ástfanginn af annarri konu. Án þess að fara of náið út í söguþráðinn þá er þetta mjög áhrifaríkt leikrit og gefur merka innsýn í óskiljanlegan harmleik.
Leikritið sýnir hvernig þessi ósköp venjulegi maður gengst nasismanum á vald og sannfærir sjálfan sig skref fyrir skref um að það sem þeir séu að gera séu eðlilegir og góðir hlutir. Nafn leikritsins er Good eða góður og vísar til þess hvernig góður maður getur, í slíku umhverfi sem Þýskaland nasismans var, umbreyst í skrímsli. David Tennant átti stórleik í þessu stykki og ekki síður meðleikarar hans, það er stórkostlegt að sjá Sharon Small skipta á milli hlutverka innan örfárra sekúndna og hvernig myndatakan og lýsingin hjálpar til við að greina á milli persóna. Ég mæli eindregið með því að sjá þetta leikrit gefist þess kostur. Það á svo sannarlega upp á pallborðið enn í dag.
Stutt heimildarmynd um ævi og störf leikritahöfundarins Cecil Philip Taylor var sýnd í sýningarhléinu. Good var síðasta leikrit Taylors sem lést skömmu eftir frumsýningu þess árið 1981. Það kom fram í heimildarmyndinni að vinir Taylors syrgðu hann mjög og þótti leitt að hann hefði ekki fengið að sjá sköpunarverk sitt takast á loft sem það vissulega gerði.
Eins og sakir standa virðast ekki vera fleiri leiksýningar á dagskrá Bíó Paradísar en ég vil eindregið hvetja þau til að hafa fleiri svona sýningar, það væri vissulega frábær viðauki við þá flóru menningarviðburða sem miðborgin hefur upp á að bjóða.