Stjórnmál framtíðarinnar
Þýðing: Elizaveta Kravtsova
STJÓRNMÁL FRAMTÍÐARINNAR (og einnig nútíðarinnar) tilheyra ungu fólki. Pólitískt landslag morgundagsins er að ganga í gegnum ótrúlega umbreytingu og útlínur þess mótast af gjörðum og vonum ungmenna í dag. Sem lýðfræðilegur hópur hefur ungt fólk tækifæri til að hafa umtalsverð áhrif á kosningar, móta stefnu og endurskilgreina forgangsröðun ríkisstjórna og samfélaga. Það sem einu sinni var litið á sem áhugamál hefur nú þróast í brýna nauðsyn til að byggja upp opnari, samúðarfyllri, móttækilegri og framsýnni heim.
Eitt af því sem er mest áberandi í þátttöku ungs fólks í stjórnmálum er hæfni þeirra til að koma ferskum sjónarhornum og nýstárlegum hugmyndum inn í stjórnmálaumræðuna. Raddir þeirra eru ekki aðeins mikilvægar; þær eru ómissandi til að tala fyrir nýjum lausnum á aldagömlum vandamálum og takast á við sífellt vaxandi áskoranir sem samfélög okkar standa frammi fyrir. Hvort sem það er tilvistarkreppa loftslagsbreytinga, möguleg neikvæð áhrif tækniframfara, viðvarandi ákall um félagslegt réttlæti eða óskir um betra vinnuumhverfi og sveigjanleika í vinnu, þá er ungt fólk óneitanlega í fararbroddi í baráttunni fyrir betri framtíð.
Undanfarin ár hefur verið athyglisverð fjölgun hreyfinga undir forystu ungmenna, sem gegna hlutverki öflugra talsmanna breytinga. Áhrif ungs fólks í stjórnmálum ættu hins vegar að ná út fyrir aðgerðastefnu og mótmælahreyfingar. Ungir einstaklingar taka í auknum mæli þátt í kosningum og gera sér grein fyrir því að atkvæði þeirra hafa vægi og geta haft veruleg áhrif á niðurstöður kosninga. Þeir eru að verða virkir hagsmunaaðilar í lýðræðisferlinu og átta sig á því að þær stefnur og ákvarðanir sem teknar eru í dag munu verulega móta heiminn sem þeir erfa á morgun.
Þar að auki er pólitískur metnaður ungs fólks ofar því að greiða einungis atkvæði. Margir eru að leggja af stað í þá djörfu vegferð að bjóða sig sjálfa fram til forystu. Þegar ungir stjórnmálamenn koma inn á vettvang stjórnmálanna koma þeir með ferskt sjónarhorn, óbilandi trú á gagnsæi og ákafa til að tengjast kjósendum sínum. Þetta innstreymi ungs blóðs til löggjafarþinga og borgarstjórna um allan heim er að hressa upp á pólitískt landslag og lífga upp á stjórnkerfi. Við höfum gott dæmi í Portúgal um varaþingmennina Bernardo Blanco og Patrícia Gil Vaz frá frjálslynda flokknum, sem gegna áberandi hlutverkum í þingflokki þeirra, 27 og 26 ára. Annað dæmi er Sigrid Friis Frederiksen (28 ára) sem mun leiða kosningalista ALDE-flokksins fyrir Evrópukosningarnar 2024.
Til að virkja alla möguleika ungs fólks til að móta stjórnmál morgundagsins er nauðsynlegt að forgangsraða í þágu stjórnmálafræðslu. Ungir einstaklingar ættu ekki aðeins að átta sig á uppbyggingu stjórnmálakerfisins heldur einnig að skilja lykilhlutverk þeirra innan þess. Annað mikilvægt atriði, sem þarf að útskýra frá unga aldri, er að allt er pólitík. Að vilja fleiri tónleika í borginni er pólitískt. Að vilja betri aðstæður til að spila fótbolta á sunnudögum með vinum er pólitískt. Að kvarta undan aðstæðum í skólanum, þar sem þeir stunda nám, er pólitískt. Það þarf að koma þeim í skilning um að mannfólkið er pólitísk vera í eðli sínu og að það að skilja stjórnmál snýst ekki eingöngu um að geta rætt hagfræði, lög og flókin efni. Menntastofnanir, allt frá grunnskólum til háskóla, verða að gegna grundvallarhlutverki í því að veita borgaralega fræðslu og efla borgaralega þátttöku ungmenna. Efla þarf þátttöku ungs fólks í nemendahópum, félögum, yngri fyrirtækjum, sjálfboðaliðastarfi og öðru slíku.
Auk menntunar verða stjórnmálastofnanir og flokkar að sýna raunverulegan vilja til að hlusta á raddir ungs fólks og taka mið af áhyggjum þeirra. Þau ættu að leitast eftir framlagi ungmenna og taka sjónarmið þeirra alvarlega þegar stefnur eru mótaðar og ákvarðanir teknar. Mikilvægt er að viðurkenna að þátttaka ungs fólks er ekki eingöngu táknrænt merki, heldur grundvallaratriði og nauðsynlegur þáttur í heilbrigðu lýðræði.
Niðurstaðan er sú að pólitískt landslag morgundagsins er óneitanlega mótað af þátttöku, vonum og aðgerðastefnu ungmenna í dag. Einstakur hæfileiki þeirra til koma ferskum sjónarmiðum að borðinu, setja nýstárlegar hugmyndir og óbilandi ákveðni á oddinn í pólitískri umræðu knýr fram umbætur í mikilvægum málum. Það er skylda samfélagsins, menntastofnana og stjórnmálaleiðtoga að styðja að fullu og hlúa að pólitískri þátttöku ungra einstaklinga. Með því getum við skapað opnara, móttækilegra og framsýnna stjórnmálakerfi sem endurspeglar í raun og veru væntingar og gildi allra kynslóða. Unglingarnir eru með lykilinn að bjartari og sanngjarnari framtíð; það er sameiginleg ábyrgð okkar að gera þeim kleift að opna hana.