Að vinna eða ekki vinna: Frá sjónarmiði háskólanema
Þýðing: Elizaveta Kravtsova
Í MIÐRI ALÞJÓÐAKREPPU hefur rétturinn til ókeypis gæðamenntunar orðið áskorun fyrir þá sem búa á suðurhveli jarðar. Skiptinámið opnar gátt til að rjúfa menningarlegar hindranir og gerir nemendum kleift að sinna fræðilegum áhugamálum sínum; það vantar hins vegar tækifæri fyrir nemendur í þróunarlöndum í leit að formlegri menntun. Fyrir þá er gæðamenntun ekki ódýr. Maður verður annað hvort að eyða gífurlegum fjármunum í skólagjöld í einkaskólum eða að setjast að í landi þar sem menntun er endurgjaldslaus. Fái maður aðgang að virtum háskóla innan Evrópu þarf maður í ofanálag að leggja fram sönnun fyrir nægilegu fé til framfærslu í heilt ár.
Á hverju ári flytja þúsundir nemenda frá Afríku, Asíu, Miðausturlöndum og Suður-Ameríku til Íslands í leit að háskólamenntun vegna skorts á vönduðum innviðum heima fyrir. Þetta er aðeins ein af mörgum ástæðum á bak við þá erfiðu ákvörðun að umbylta eigin lífi algjörlega og byrja allt aftur grunni. Erlendum nemendum við Háskóla Íslands fjölgaði mikið árið 2023 en alls voru þeir 2.019. Þetta er mesta aukningin á milli ára undanfarna 2 áratugi. Fyrir utan þá sem eru sérvitringslega ríkir og þá sem eru tilbúnir að eyða öllum sínum ævisparnaði á einu ári eiga fæstir nemendur efni á því að lifa af á Íslandi eða annars staðar nema með því að stunda vinnu með náminu.
Til að geta farið í þessa vegferð verður maður að skilja mikið eftir sig! Fjölskyldu, vini, sambönd, allir hafa sína sögu. Í mínu tilviki þurfti ég að segja upp starfi mínu, nurla saman nægilegu fé til að fjármagna pappírsvinnu, taka lán, sækjast eftir vottorðum og ýmsum pappírum fyrir hvert einasta skjal sem tengist tilveru minni, og svo framvegis... Ég er Ahmad Rana – einn af mörgum námsmönnum sem gekk í gegnum allt þetta ferli á síðasta ári og er núna skiptinemi í tvöföldu námi við Háskóla Íslands. Ég tók fyrsta árið mitt í meistaranámi í Noregi og ákvað síðan að flytja til Íslands vegna áhuga á þeim greinum sem eru í boði hér.
Rétt eins og margir aðrir byrjaði ég í hlutastörfum í Noregi á ýmsum veitingastöðum, þar til ég taldi mig loksins skilja kerfið nægilega til að geta flutt til Íslands. Það vakti undrun mína að þótt háskólinn taki fjölbreytileikanum opnum örmum eru leyfisveitingakerfið og atvinnumálastefnan eingöngu til þess fallin að auka á eymd þeirra nemenda sem eiga uppruna sinn í löndum utan EES/EFTA-svæðisins.
Til að byrja með þurfa þeir að skila starfssamningi ásamt umsókn um atvinnuleyfi og öllum viðeigandi gögnum til Útlendingastofnunar. Þaðan er umsóknin send til Vinnumálastofnunar, umsækjandinn fær úthlutað stéttarfélag og eftir að umsóknin hefur verið samþykkt gefur útlendingastofnun út nýtt dvalarleyfi sem staðfestir rétt nemanda til atvinnu. Það er líklega óþarfi að nefna að þessi skref koma til viðbótar við fyrstu heimsóknir til Útlendingastofnunar til að láta taka mynd af sér og sækja tímabundið dvalarleyfi. Í fyrra tók ferlið til að sækja um hlutastarf að hámarki 15 daga á heildina litið. Aukið álag vegna fjölgunar umsókna á þessu ári hefur hins vegar leitt til þess að umsóknarferlið hefur lengst töluvert, en þjónustufulltrúar telja að það geti liðið mánuðir þar til umsókn um atvinnuleyfi er afgreitt og umsækjandinn getur hafið vinnu. Vilji umsækjandinn sækja um annað starf þá verður hann að fara í gegnum sömu þrautagönguna aftur frá byrjun.
Ímyndaðu þér núna ef þú sért í viðtali og vinnuveitandi þinn spyr:
“Hvenær geturðu byrjað að vinna?”
Hverju myndir þú svara?
“Ég er hræddur um að ég geti ekki svarað því. Eins mikið og mig langar að byrja núna í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu minnar á næstu mánuðum, þá verð ég að afhenda samninginn sem þú lætur mig fá til útlendingastofnunar og bíða eftir svar þeirra. Miðað við það sem ég hef heyrt gæti það tekið allt frá 15 dögum upp í nokkra mánuði.”
Þetta er besta svarið sem ég get hugsað mér og flestir veitingahúsaeigendur eða aðrir vinnuveitendur í leit að starfsfólki í hlutastörfum hugsa ekki svo langt fram í tímann. Þegar þú ert búinn með allt ferlið eru allar líkur á því að einhver annar hafi verið ráðinn í stöðuna og að samningurinn sé ekki lengur í gildi. Þetta þýðir að þú getur ekki endurnýjað dvalarleyfi (sem gerir þér kleift að vinna ákveðna tíma á viku) og þú ert kominn aftur á byrjunarreit.
Ég veit um nokkra erlenda ríkisborgara sem hafa lent í því að samningar þeirra duttu úr gildi vegna þess að það tók of langan tíma að afgreiða umsóknina og einhver annar var ráðinn, og þeir eru enn að bíða eftir kortunum sínum. Síðan eru þeir sem fá einfaldlega ekki vinnu vegna þess að þeir geta ekki hafið störf strax. Eftir að hafa dvalið í Evrópu áður hef ég þá reynslu sem þarf til að geta gegnt þær stöður sem auglýstar eru daglega, en samt stend ég í mjög veikri stöðu í samkeppninni um störfin út af þessum umsóknarferli.
Ef þú heldur að ég sé eingöngu að röfla vegna þess að ég tala ekki íslensku og fékk þess vegna ekki vinnu, þá er það ekki tilfellið: meira en helmingur þessara staða krefst ekki kunnáttu í íslensku (hvorki í töluðu né rituðu máli). Ég er þess fullviss að ég mun fá vinnu að lokum. Hins vegar er sárt að heyra vinnuveitanda hafna umsókn manns eingöngu á þeim forsendum að maður geti ekki hafið störf strax. Ég er ekki sá eini, það eru margir aðrir sem standa í sömu sporum daglega. Þetta er hugsað fyrir alla þá nemendur sem áttu sér stóra drauma en geta nú ekki fundið réttu orðin eða réttan vettvang til að tjá sig.
Jæja, með hverjum stendur þú? Finnst þér þetta sanngjarnt? Gætum við kannski lært af öðrum þjóðum og innleitt reglur sem hvetja nemendur til að vera sjálfbjarga, óháð uppruna?