Heilbrigði er afstætt: Af hvíldarlækningum og hoknum konum á bak við veggfóður
Þema þessa tölublaðs Stúdentablaðsins er heilsa, viðfangsefni sem á sér margar hliðar og viðkemur flestum þáttum daglegs lífs. Hugmyndir um heilsu hafa fylgt mannkyninu frá upphafi, valdið kvíða og ótta en líka veitt okkur þekkingu. Vegna þess hve heilsan er mikilvæg manninum eru hugmyndir okkar um hana líka afstæðar: þær taka mið af þeim tíðaranda og samfélagsskipulagi sem er ríkjandi hverju sinni. Mig langar að snúa hugmyndinni um „heilsu“ aðeins á haus og skoða ákveðið dæmi frá lokum 19. aldar. Það sýnir sig nefnilega að „heilbrigði“ og „óheilbrigði“ eru allt annað en stöðug hugtök.
„Tímabundin taugaveiklun og þunglyndi“
Árið 1892 kom út smásaga eftir bandaríska rithöfundinn Charlotte Perkins Gilman, Gula veggfóðrið (e. The Yellow Wallpaper). Aðalpersóna og vitundarmiðja sögunnar er nafnlaus ung kona sem er nýbúin að eignast sitt fyrsta barn, en þjáist af vanlíðan og getur ekki myndað tengsl við það. Í meginatriðum lýsir sagan á táknrænan hátt sárri reynslu konunnar af fæðingarþunglyndi og þeirri meðferð sem hún var látin sæta af hennar völdum. Eiginmaður konunnar, sem er læknir, bregður á það ráð að þau hjónin dvelji á sveitasetri yfir sumarið til að hún fái hvíld. Það sem í dag væri hiklaust talið fæðingarþunglyndi kallar maðurinn hennar „tímabundna taugaveiklun og þunglyndi - væga hysteríska tilhneigingu.“ Hann skipar henni að drekka heilsubætandi drykki, fara í göngutúra og fá nóg af fersku lofti og hreyfingu. Það sem reynist konunni erfiðast er þó annað skilyrði meðferðarinnar: Hún má ekki undir nokkrum kringumstæðum vinna, skrifa né taka þátt í örvandi samræðum fyrr en hún hefur náð bata.
Konan ver mestum tíma sínum í yfirgefnu barnaherbergi á efri hæð hússins, þar sem líðan hennar versnar stöðugt. Veggir herbergisins eru þaktir tættu, gulu veggfóðri sem veldur henni gríðarlegu hugarangri og heltekur hana smám saman. Með tímanum sannfærist hún um að á bak við veggfóðrið leynist hokin skuggavera, kona sem skríður og læðist meðfram veggjunum á næturnar og vill komast þaðan út. Að lokum ákveður hún að frelsa konuna undan veggfóðrinu með því að tæta það í sundur. Það tekst og þar endar sagan, en þó með ákveðnum viðsnúningi. Í síðustu setningunum renna konurnar tvær saman og verða að einni og sömu konunni sem skríður hokin og sturluð hring eftir hring um herbergið.
Í augum nútímalesandans er það greinilega hjónabandið og staða ungu konunnar innan þess sem gerir hana veika, en ekki „tímabundin taugaveiklun.“ Þegar hér er komið sögu er ómögulegt að líta framhjá því samhengi sem smásagan sprettur úr, því við skrifin sótti Gilman í eigin reynslu af erfiðu fæðingarþunglyndi. Saga hennar er vægast sagt ótrúleg, en í ljósi hennar drýpur háð og reiði af hverri setningu Gula veggfóðursins.
Hvíldarlækning Silas Weir Mitchell
Charlotte Perkins Gilman fæddist árið 1860 í Hartford í Connecticut. 24 ára að aldri gekk hún í hjónaband og ári síðar eignaðist hún sitt eina barn, dótturina Katherine. Móðurhlutverkið virðist hafa reynst Gilman þolraun, en í sjálfsævisögu hennar kemur fram að hún hafi ekki fundið til neinnar hamingju þegar hún hélt á dóttur sinni, bara sársauka. Eftir að hafa glímt við þessar tilfinningar í tvö ár leitaði hún aðstoðar hjá sérfræðilækninum Silas Weir Mitchell. Hann sagði hana þjást af „taugaörmögnun“ og ,,hugþreytu“ og skrifaði upp á svokallaða hvíldarlækningu, umdeilda meðferð sem hann var sjálfur frumkvöðullinn að.
Hvíldarlækningin fólst í því að Gilman væri rúmliggjandi öllum stundum í algjörri einangrun frá fjölskyldu og vinum og sett á einhæft mataræði sem einkenndist að miklu leyti af fituríkum mjólkurvörum. Rúmri öld síðar hryllir nútímalesandann við lýsingunni á skilyrðum hvíldarlækningarinnar, því Gilman mátti ekki fara úr rúminu sínu, ekki lesa, skrifa, tala né mata sig sjálf. Þessa meðferð þurfti hún að þola í heilan mánuð, og var síðan send heim með eftirfarandi leiðbeiningar:
„Lifðu eins miklu heimilislífi og þú getur. Hafðu barnið þitt hjá þér öllum stundum … leggðu þig í klukkutíma eftir hverja máltíð. […] Og snertu aldrei penna, pensil eða blýant svo lengi sem þú lifir.“
Eftir að hafa látið á ráðgjöf Weir Mitchell reyna í nokkurn tíma var Gilman að hruni komin. Eins og hún lýsti því sjálf var hún ,,svo nálægt brún algjörrar andlegrar glötunar“ að hún „sá yfir mörkin.“ Líkt og söguhetjan í smásögunni var hún vön að skríða inn í skápa og geymslur og undir rúm til að fela sig frá þeim þrýstingi sem meðferðin olli. Þegar hún var aðskilin eiginmanni sínum leið henni hins vegar eins og henni væri batnað, og stuttu síðar skildi hún við hann eftir þriggja ára hjónaband. Gilman segir að það sem hafi bjargað henni væri að byrja aftur að vinna. Sjö árum eftir fæðingu Katherine birtist hluti af afrakstrinum þegar smásagan Gula veggfóðrið leit dagsins ljós í tímaritinu The New England Magazine. Þar nefnir hún fyrrum lækni sinn, Weir Mitchell, bókstaflega á nafn en hún sendi honum meira að segja eintak af sögunni. Hann gekkst aldrei við henni. Gilman varð síðar ötull pistlahöfundur og fyrirlesari, femínískur talsmaður og höfundur skáldsagna, ljóða og fjölda greina.
Klikkaða konan á háaloftinu
Gula veggfóðrið, sem nú er ríflega 130 ára gömul saga, er af mörgum talin mikilvæg í femínískri bókmenntasögu Bandaríkjanna fyrir það hvernig hún miðlar ríkjandi viðhorfum 19. aldarinnar til andlegs og líkamlegs heilbrigðis kvenna. Unga konan í sögunni er nafnlaus, og nöfn hinna persóna sögunnar, John, systur hans Jennie og þernunnar Mary, eru algeng og stöðluð, sem gefur til kynna að þarna séu á ferðinni fulltrúar Eiginkvenna, Eiginmanna og Tengdafólks almennt. Endalok sögunnar hafa einnig verið túlkuð á mismunandi vegu, bæði sem sigur og ósigur. Sumir telja konuna ganga af vitinu á meðan öðrum finnst hún taka völdin í sínar eigin hendur. Á þversagnakenndan hátt er hún mun „heilbrigðari“ í brjálæði sínu en fólkið í kringum hana, að minnsta kosti í augum nútímalesandans.
Í Gula veggfóðrinu sýnir Gilman ótrúlegt hugrekki með því að tala hispurslaust um tilfinningar móður sem á erfitt með að tengjast barninu sínu, nokkuð sem var eflaust sjaldan rætt á þessum tíma, þótti til skammar og þykir það mögulega enn. „Geðveika konan á háaloftinu“ hefur orðið að menningarlegri klisju í aldanna rás, en þá oftast í bakgrunni. Við sjáum rétt svo glitta í hryllilegan raunveruleika hinnar klikkuðu Ófelíu, ofsjónir Lafði Macbeth og líf Berthu Rochester sem er lokuð inni á háaloftinu í Jane Eyre. Það sem gefur Gula veggfóðrinu hins vegar sérstöðu er að hér gefur Gilman „geðveiku konunni“ pappír og penna, tækifæri til að tjá sig með eigin rödd.