Strætó býður afslátt fyrir nema: Og svona sækirðu hann
Margir stúdentar kannast eflaust við það að drattast í strætó eldsnemma morguns í kulda og myrkri, eða taka síðasta strætó heim af Stúdentakjallaranum. Flest hafa því líklegast tekið eftir stórri breytingu greiðslukerfi Strætó en þann 16. nóvember síðastliðinn innleiddi fyrirtækið nýja rafræna greiðsluleið sem veitir aðgang að Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Klappið, eins og nýja kerfið nefnist, tekur við af gamla Strætó-appinu, sem háskólanemar þekkja eflaust flestir, sem stafræn greiðsluleið. Klappið er gert að erlendri fyrirmynd þar sem viðskiptavinir fylla á strætókort eða app í gegnum eigin vefaðgang.
Samhliða nýja greiðslukerfinu þá hafa árskort fyrir nema lækkað úr 54.500 kr. niður í 40.000 kr.
Í gamla kerfinu var aðeins möguleiki fyrir nema til þess að kaupa 6 mánaða kort eða árskort á afslætti. Í dag býðst nemendum hins vegar að kaupa mánaðarkort í Strætó á 4.000 kr.
Til þess að fá afsláttinn fylgirðu eftirfarandi skrefum.
Farðu inn á Ugluna, veldu „Stillingar“ og gefðu Strætó leyfi til þess að fá upplýsingar um virka skólagöngu.
Eftir að hafa gefið Strætó leyfi, þarftu að skrá þig inn á "Mínar síður" inni á klappid.is og staðfesta þig með rafrænum skilríkjum.
Eftir það opnast möguleiki til þess að kaupa mánaðarkort eða árskort á 50% afslætti.
Þú getur valið um að hafa strætókortið inni á Klapp korti eða Klapp appinu.
Afslátturinn er eflaust kærkominn fyrir fátæka námsmenn sem ekki vilja eða geta reitt sig á einkabílinn eða tvo jafnfljóta. Það getur orðið dýrt spaug að kaupa marga staka miða og nýja mánaðarkortið gerir notandanum jafnframt kleift að skuldbinda sig til styttri tíma en áður var í boði. Góð hvatning fyrir þau sem vilja prófa vistvænni samgöngur til skemmri tíma í senn, komast á milli staða á meðan bíllinn er í viðgerð og svo framvegis.