Höfuðklúturinn sem svífur í köldum vindi

Þýðing: Hallberg Brynjar Guðmundsson 

Kæra Ísland, 

Ég hef aldrei áður fengið tækifæri til að ræða opinskátt um reynslu mína sem múslimsk kona sem býr á Íslandi. Sérstaklega sem múslímsk kona sem velur að hylja höfuðið með höfuðklúti. Ég ætla að nýta þessa stund til að eiga heiðarlegt samtal við sjálfa mig, og þig, um hvernig lífið mitt hefur verið síðan ég flutti hingað frá Bretlandi fyrir átta árum. 

Ein minning stendur uppúr. Það var þegar ég var að versla í Bónus stuttu eftir að ég var flutt til Íslands. Ég var tvítug, nýgift og trúði varla minni eigin heppni. Ég bjó við sjóinn, með eldfjallalandslag og fjöll allt í kringum mig. Loftið var ferskt og vatnið hreint, en nóg komið af útidúr og snúum okkur aftur að punktinum. Þá var ég í Bónus í mínum eigin heimi að setja vörur í körfuna mína þegar öldruð kona bankaði mig í öxlina og sagði við mig: „Þú lítur fallega út og ég er fegin að þú ert ekki ein af þessum konum sem hylur andlitið sitt”. Ég var ekki viss hvernig ég ætti að bregðast við þessu vegna þess að þetta var meint sem hrós, en það sat ekki vel í mér. Ég þakkaði fyrir hrósið og fór aftur að versla, en fljótlega tók ég eftir því að fólk var að stara á mig. Síðan þá hef ég alltaf tekið eftir stöðugu störunum. Ég hef fengið fjölmargar athugasemdir í þessum dúr frá jafnöldrum, samstarfsmönnum og ókunnugum. Fyrir mér þá eru þessar athugasemdir ekki hrós heldur líður mér eins og Íslendingar séu að viðurkenna tilvist mína með sínu samþykki. Stundum velti ég fyrir mér hvort að Íslendingar sjái mig ekki sem fallega og heila manneskju. Gæti það verið út af því að ég geng með klút á höfðinu? Ég, fyrir náð Guðs, hef aldrei fundist ég vera lægri sett öðrum sem múslimsk kona. 

Þessi ummæli eru minna skaðleg fyrir geðheilsu mína heldur en þau ummæli sem eru viljandi særandi og fordómafull. Ummæli sem birtast sem reiðar athugasemdir svo sem „þetta er Ísland“ eða „þú mátt ekki klæða þig svona hérna“ eru viljandi særandi. Ég get ekki ímyndað mér af hverju slæða sem er á höfðinu á mér ætti að trufla einhvern svo mikið að þau verði reið. Dagurinn sem kemur eftir svona ummælum er alltaf erfiður, þó að ég sé ánægð og sátt með val mitt um að ganga með slæðu, þá er leiðinlegt að vera niðurlægð opinberlega. Ég er praktísk og rökræði oft við sjálfan mig. Ég segi við mig sjálfa að þetta sé sjaldgæft og líklegast muni þetta ekki gerast aftur í bráð. Ég leyfi manneskjunni að njóta vafans, það gæti verið að hún viti ekki mikið um múslima eða íslam, og því byggist fordómar hennar á fáfræði. Ég hef líka samúð með þeim hugsununarhætti að höfuðklútur sé eitthvað framandi fyrir Íslendinga. Ég er útlendingur og skil að það geti verið erfitt að horfast í augu við eitthvað sem þú hefur engan skilning á. 

Mér finnst fræðslunni um erlenda menningu og trúarbrögð á Íslandi vera mjög ábótavant. Ég hef lent í því að ríkisstarfsmenn hafi vísað í höfuðklútinn sem „beanie“ húfu eða „þarna hlutinn á höfðinu þínu“ og í framhaldi að því hringsnúið fingrinum um höfuðið á sér til að tjá sjónrænt það sem þau eru að tala um. Ég kalla þetta höfuðklút, en orðið breytist eftir tungumálum. Almennt séð er Hijab, það sem fólk heldur að höfuðklúturinn sé, táknrænt hugtak fyrir hógværð hjá bæði konum og körlum. Karlmenn verða einnig að leggja stund á Hijab. Þegar ég hef lent í rökræðum við manneskjum um lífsval mitt og mér hefur verið sagt að gildi eins og hógværð og trú mín, íslam, eigi ekki heima á Íslandi þar sem þau samræmast ekki gildum hiðs veraldega, siðmenntaða og femíníska Íslands. Ég hef lent í því að fólk noti þung og gildishlaðin orð til að lýsa menningunni minni. Orðum eins og kúgandi, full of kvenfyrirlitningu, hatursfull, gamaldags og ofbeldisfull. Samt tengi ég ekkert við þessi orð. Ég veit að það er vinsæl skoðun að múslimskar konur, eins og ég, sem tjá hógværð sína með klæðaburði séu kúgaðar af trú sinni. Ég vil hins vegar meina að það er samfélagið í kringum sé kúgandi. Hvað er meira femínísk hugsun heldur en kona sem lifir lífinu á sínum forsendum? Samt lendi ég í því að það sé grafið undan vali mínu, það er efast um það og snúið upp á það til þess að sýna fram á að val mitt sé afleiðing kúgunar. 

Þetta er samt ekki alslæmt. Meirihluti fólks sýnir virðingu eða eru áhugalaus þegar kemur að trú minni. Það sýnir líka mikla vinsemd og umburðarlyndi. Ég er kannski ekki Íslendingur samkvæmt hefðbundnum skilningi en Ísland er heimili mitt og ég er þakklát fyrir að búa hér.

SjónarmiðMahdya Malik