Gríski jólasveinninn

Þýðing: Sindri Snær Jónsson

Stórar og þrútnar rauðar kinnar, þungur rauður búningur sem þolir snjóinn, stórir klossar og fullur poki af gjöfum. Þetta sjá flestir í huganum þegar þeir heyra minnst á „Jólasveininn,” en sannleikurinn er sá að þessi ímynd varð til úr norður-Evrópskri, kristinni goðafræði og bandarískum kapítalisma. Því miður er rauði búningur þessa heittelskaða dýrlings uppfinning Coca Cola, en upprunalega var  búningur jólasveinsins grænn. Einnig er jólasveinninn sem sjá má dreifa gjöfum til barna hluti af „vestrænni” kristinni goðafræði. 

Í grískri goðafræði var heilagur Basil eins og jólasveinninn, en hann var svo horaður að hann minnir á beinagrind. Í grísku rétttrúnaðarkirkjunni er sagt frá langa, brúna skegginu hans og stóíska andlitinu og fylgir þessi lýsing rétttrúnaðarhefðinni. Ólíkt öðrum hefðum þar sem dýrlingar líkjast ofurhetjum, miðar rétttrúnaðarhefðin að því að sýna dýrlinga sína sem mjög agaðar og daprar persónur sem virðast vera of uppteknar af píslarvættinu. Áhugavert er að um þá dýrlinga sem teljast vera merkilegar persónur í mannkynssögunni er sagt að þeir hafi stundað einhvers konar sjálfspíslarvætti þar sem þeir sjálfir umbreyttu líkömum sínum með sársauka, brunaskaða og aflimun. Sagt er að líkamar dýrlinga komist í samband við Guð í gegnum sársauka og hugleiðslubundinn sjálfsskaða. 

Heilagur Basil fæddist árið 330 e.kr. í Caesarea í Kappadókíu, sem nú heitir Kayseri í Tyrklandi. Hann var sonur pontísks ræðumanns, en í dag myndi hann kallast lögmaður. Auk hans voru átta eða níu börn á heimilinu. Hann ólst upp í kristinni fjölskyldu vegna föður hans og ömmu, sem var dóttir píslarvotts. Þegar hann var mjög ungur var hann sendur til Býsan í nám og endaði í Aþenu.Þar var honum kennd heimspeki, mælskulist og stjörnufræði, auk annarra mikilvægra greina. Þar kynntist hann einnig Julan, sem varð síðar keisari. 

Eftir námið reyndi hann að fylgja í fótspor föður síns og fara aftur til heimalands síns, en brátt fór hann í leiðangur til þess að bæta andlega eiginleika sína. Hann ferðaðist til Egyptalands, Sýrlands og annarra landa, en endaði í Pontíu þar sem hann átti eftir að verða munkur og byrjaði agað líf kristins píslarvotts. Hann hefði verið þar lengur ef hann hefði ekki fengið boð um að snúa aftur til heimalandsins síns til þess að taka við af gömlum biskupi sem hafði dáið. Á meðan hann var biskup stundaði hann mikla góðgerðarstarfsemi og reisti hann skóla þar sem börn gátu lært stafina og önnur listform. Hann var þekktur fyrir að vera staðfastur í veldi sínu og neitaði að gefa frá sér kirkjueignir sínar og góðgerðarstarfsemina, jafnvel þó hann væri útskúfaður af keisurum. Þar að auki má nefna að hann skrifaði margar bækur og aðra texta um kristna trú. 

Hann dó 48 ára í desember og var grafinn 1. janúar, árið 379 e.kr. Þess vegna fagna Grikkir lífi hans á áramótunum. Eftir að hann dó, hlaut hann viðurnefnið “hinn mikli”.

Í byrjun hvers árs er skorin „Basilbaka” (Vasilopita/Βασιλόπιτα). Samkvæmt hefðinni, felum við aur í bökunni og skerum sneið fyrir Krist, sneið fyrir húsið, sneið fyrir þá fátæku og sneið fyrir alla meðlimi fjölskyldunnar í aldursröð. Sá sem fær aurinn er talinn hafa heppnina sér við hlið út næsta ár. 

Helstu heimildir:

https://www.helppost.gr/xristougenna/protoxronia/agios-megas-vasileios-kaisareia/

https://www.sansimera.gr/biographies/758