Jaðarsettir hópar verði að standa saman
Jafnréttisnefnd Stúdentaráðs sér um að gæta að jafnrétti innan Háskóla Íslands ásamt því að benda á hvað megi fara betur þegar kemur að jafnrétti. Nefndin stendur vörð um að allir stúdentar háskólans séu settir undir sama hatt óháð uppruna, bakgrunni eða öðru. Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir er forseti Jafnréttisnefndar Stúdentaráðs veturinn 2019-2020 og situr hún í nefndinni ásamt fjórum öðrum. Blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi við hana um helstu baráttumál og verkefni nefndarinnar þetta skólaár.
Mikilvægt að standa sífellt vörð um jafnrétti
Andrea segir baráttumál nefndarinnar í ár hafa verið mörg og úr öllum áttum. „Við lögðum áherslu á málefni hinsegin fólks, málefni fatlaðra, geðheilbrigðismál og Menntasjóð námsmanna svo að eitthvað sé nefnt. Einnig bættum við stefnu Stúdentaráðs í jafnréttismálum og þar má helst nefna að við bættum við lið um umhverfisfemínisma. Við töldum það mikilvægt þar sem hamfarahlýnun á sér stað í heiminum og fólk sem er jaðarsett í samfélaginu finnur hvað mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Því er mikilvægt að mynda þessa tengingu á milli umhverfismála og jafnréttismála.“
Í febrúar fóru Jafnréttisdagar fram en markmiðið með þeim er að stofna til umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnilegri innan skólans og utan hans. Andrea segir mætingu starfsfólks og nemenda á viðburði Jafnréttisdaga hafa verið frekar dræma. „Okkur þótti það afar leiðinlegt að sjá. Við sjáum augljós merki um bakslög í jafnréttisbaráttunni víðsvegar um heim sem stendur. Það er vaxandi hatursbylgja að ganga og það verður að passa að hún fái ekki rými til að breiða úr sér. Því er svo mikilvægt að fólk sýni stuðning, til dæmis með því að mæta á svona viðburði og með því að dreifa boðskapnum um jafnrétti áfram.“ Hún segir marga flotta viðburði hafa verið á Jafnréttisdögum í ár og nefnir sérstaklega viðburðinn „Kynfræðslan sem þú fékkst aldrei“ en á honum voru fyrirlestrar frá hinsegin fólki og fötluðu fólki. „Ég fékk mikið af flottum hugmyndum og upplýsingum við það að sitja þennan viðburð sem og aðra viðburði á Jafnréttisdögum.“
Tóku stöðu gegn tanngreiningum
Líkt og margir vita hefur Háskóli Íslands tekið ákvörðun um að endurnýja ekki verksamning við Útlendingastofnun. Snerist hann um kaup stofnunarinnar á þjónustu Tannlæknadeildar háskólans í málum einstaklinga þar sem vafi leikur á aldri þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Andrea segir þetta miklar gleðifréttir. „Þetta er eitthvað sem ég þorði ekki að gera ráð fyrir og fagna mikið. Ég var tilbúin með alls konar efni til að senda út þegar háskólaráð myndi kjósa með tanngreiningum en þurfti sem betur fer ekki að nota það. Það er gaman að sjá að þau hafi áttað sig á því að upplýst samþykki og jafnrétti skipti meira máli en peningar. Þetta er mjög flott ákvörðun.“
Telur hún það hafa verið heppilegt að mótmæli SHÍ og No Borders gegn tanngreiningum skyldu hafa verið á sama tíma og Jafnréttisdagar stóðu yfir. „Jafnréttisdagar gáfu umræðunni um tanngreiningar meðbyr. Til dæmis var veggspjald frá No Borders hluti af listsýningu Jafnréttisdaga. Þetta var mjög róttækt veggspjald með mynd af tönnum allra sem eru í Háskólaráði og á því stóð „Tanngreinum Háskólaráð.“ Ég trúi að þetta veggspjald hafi vakið marga til umhugsunar. Andrea bætir við að Jafnréttisráð Háskólaráðs hafi ekki átt mikinn þátt í baráttunni. „Þetta voru aðallega No Borders, sterkir einstaklingar í jafnréttisbaráttunni og Stúdentaráð HÍ sem þorðu að berjast fyrir þessu á þann hátt að baráttan bar árangur. Það eru aðilarnir sem mega vera verulega stoltir.“
Virðing mikilvæg
Andrea leggur áherslu á að þegar kemur að umhverfi stúdenta og starfsfólks sé virðing mjög stór þáttur. „Það eru margir nemendur við skólann og skólastofan á að vera öruggt rými fyrir alla nemendur. Þetta felur til dæmis í sér að þau persónufornöfn sem nemendur kjósa sér séu virt í hvívetna.“ Jafnréttisnefnd SHÍ fór á fund með nemendaskrá HÍ á dögunum varðandi umsóknarferli við Háskóla Íslands. Bendir Andrea á að í umsóknarferli fyrir erlenda nemendur sé einungis hægt að velja tvö kyn. „Þar með er verið að viðhalda óþarfa kynjatvíhyggju. Við komum með þá hugmynd að hægt væri að skrá þau fornöfn sem nemandi kýs að nota á Uglu þannig að bæði kennarar og nemendur geti tryggt að verið sé ávarpa fólk á réttan hátt.“
Annað málefni sem Andrea telur mikilvægt er jafnrétti allra til þess náms sem þau kjósa. Segir hún það ekki vera í lagi að ætlast til að öll með þroskahömlun sem vilja stunda háskólanám fari í sama námið. „Sem stendur er aðeins ein námsleið í boði, starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Áhugasvið fólks er svo breitt og námsúrval ætti að endurspegla það.“
Spennt fyrir fleiri róttækum aðgerðum
„Það er alltaf hægt að gera betur,“ segir Andrea aðspurð um hvað þyrfti að bæta í nánustu framtíð innan veggja háskólans. „Þegar kemur að kennslu sárvantar fyrirmyndir. Nemendahópurinn er mjög margbreytilegur og námsefnið sem er notað ætti að endurspegla nemendahópinn betur, bæði þegar kemur að námsefninu sjálfu, það er bókunum og höfundunum, og líka það sem kennt er um. Starfsfólkið sjálft á líka að vera margbreytilegt. Ég segi oft að ef þú sérð þig ekki í því námsefni og þeim miðlum sem þú neytir þá hlýtur þú á einhvern hátt að vera ómerkilegt.“
Andrea bendir einnig á að þegar kemur að byggingunum og aðgengi að námi þurfi að gera mun betur. „Það á ekki að vera í boði að nemendur þurfi að hætta í námi eða skipta um námsleið vegna skorts á aðgengi, það er til háborinnar skammar“. Segir hún þetta fela í sér aðgengi að byggingum sem og aðgengi að þjónustu og ráðgjöf, túlkum, aðstoðarfólki og hentugu námsefni fyrir öll. „Háskóli Íslands stendur sig ekki nógu vel í þessum efnum.“
Að lokum segir Andrea jafnréttisbaráttuna vera baráttu sem tekur aldrei enda. „Það munu alltaf koma ný jafnréttismál upp á yfirborðið. Það hefur sýnt sig að ef að þeir hópar sem eru jaðarsettir í samfélaginu standa saman og hjálpa hver öðrum í baráttunni þá mun samfélagið verða móttækilegra fyrir margbreytileikanum“. Segist hún hafa byrjað að vinna í mörgum málum á þessu skólaári og að það hafi þurft mikinn vilja og þolinmæði til að ná ákveðnum hlutum í gegn. „Ég mun halda þessum málefnum uppi og ekki hætta að berjast fyrir jafnréttismálum þótt ég verði ekki undir Jafnréttisnefnd SHÍ lengur. Ég er mjög spennt fyrir fleiri róttækum aðgerðum, aukinni samvinnu og meiri aktívisma í framtíðinni.“