Háskólaforeldrar

Það er að mörgu að huga þegar kemur að jafnréttismálum í Háskóla Íslands. Meðal helstu hagsmunamála stúdenta eru málefni barnafólks, en margir stúdentar eignast börn á meðan námi stendur. Það er mikilvægt að hlúa vel að þessum hópi stúdenta og fjölskyldum þeirra, meðal annars þegar kemur að lánasjóðsmálum, leikskólaplássum og fjölskylduíbúðum á Stúdentagörðum FS. Stúdentablaðið hafði samband við nokkra háskólaforeldra og fékk þá til að skrifa um reynslu sína af því að eiga barn í háskólanámi. Hvað er vel gert í fjölskyldumálum í Háskóla Íslands og hvað mætti betur fara?

Fanney2.jpeg

Fanney Benjamínsdóttir

Eftir nokkra mánuði af fæðingarorlofi tók ég þá vafasömu ákvörðun að skrá mig í mastersnám. Ég hafði greinilega ekki fengið nóg af fjársvelti í boði fæðingarorlofssjóðs og fannst röðin komin að LÍN.  Þetta er auðvitað stundum snúið. Mér finnst gefa augaleið að það sé ég sem tek frídag til að sinna barni á veikinda- eða starfsdögum vegna lítillar viðveruskyldu í skólanum. Þegar maður ræður dagskránni að mestu leyti sjálfur er erfitt að setja sína vinnu í fyrsta sæti. Þegar enginn bíður þess að maður setjist við skrifborð einhvers staðar úti í bæ er auðvelt að ýta lærdómnum til hliðar fyrir önnur verkefni. Ekki er þó hægt að hringja sig inn veikan í námi og allt sem maður missir úr þarf að bæta upp seinna. Það er hægara sagt en gert, eftir svefnlausar eyrnabólgunætur og langa daga með veikt barn, að ætla að setjast niður klukkan 17 þegar makinn kemur heim og skrifa eitthvað gáfulegt.

Það hefur samt komið mér á óvart hvað það hefur reynst vel að vera námsmaður með ungt barn. Ungbarnaleikskólar FS tóku við syni mínum 11 mánaða gömlum á tíma þar sem ómögulegt getur verið að finna dagmömmu og sveigjanleg dagskráin færir mér stundum auka hálftíma af svefni. Ég er þakklát fyrir að geta verið til staðar á veikindadögum, sem eru fleiri en mig hafði órað fyrir. Stress vegna starfsdaga, yfirvofandi verkfalla og vinnutaps er minna en gengur og gerist. Ég get auðveldlega hlaupið til komi eitthvað upp á. Auk þess er svo einn mesti lúxus lífsins að geta farið í Bónus um miðjan dag frekar en á háannatímum. Það eru alger forréttindi að geta haldið áfram námi með lítið barn og ég er þakklát fyrir tækifærið.

Gunndis.jpeg

Gunndís Eva Baldursdóttir

Háskólamamma með verkfallsbarn. Logi Hrafn er næstum sex ára ljúfmenni með meiru, fróðleiksfús og forvitinn. Ég segi oft við hann að ég viti allt, sé með augu í hnakkanum og kunni að galdra, en sannleikurinn er sá að mamma er ekki almáttug. Mamma getur til dæmis ekki verið á tveim stöðum í einu, hvar er Dumbledore með tímaflakkarann þegar þörf er á?

Þrátt fyrir að eiga einstaka samnemendur og kennara sem eru allir af vilja gerðir til að koma til móts við mömmuna, sem laumar plús einum í kennslustund og reynir að láta fara lítið fyrir í þeirri von að geta drukkið í sig smá þekkingu, þá hefur það reynst mér erfitt að taka hann með mér í fleiri kennslustundir en raun ber vitni. Logi má eiga það að hann er einstaklega tillitssamur og rólegur drengur en eins og önnur næstum sex ára gömul börn er hann með takmarkaða þolinmæði og ég hef ekki getað gert honum það að sitja fleiri kennslustundir. Í draumaheimi gæti ég nálgast fyrirlestra vikunnar á Uglunni og með því kynnst kennaranum mínum örlítið betur, séð hvers hann ætlast til af mér og hvernig nálgun hann hefur. En raunin er sú að ég missi af fróðleiksmolum sem ekki koma fram í glærum og hnyttin svör samnemenda minna sem oftar en ekki vekja upp áhugaverðar pælingar fara á mis.

Ég hef litið á síðastliðið skólaár sem upphitun fyrir komandi tíma í þeirri von að ég finni gott jafnvægi milli náms og fjölskyldu. Þessi önn hefur þá sérstöðu að hún er lituð af verkföllum sem svo sannarlega hafa sett strik á afkastagetu mína í námi. Það mun síðan reyna enn betur á aðlögunarhæfnina þegar Logi Hrafn hefur grunnskólagöngu í haust.

Ég tel háskólann geta bætt aðgengi að námi. Við erum öll að reyna okkar besta en það er ómögulegt að vera alls staðar. Sveigjanleg mæting og upptaka kennslustunda eru verkfæri sem flestir tækju fagnandi, ekki bara foreldrar heldur einnig þeir sem vegna aðstæðna sjá sér ekki fært til þess að mæta. Það er samfélaginu í hag að fólk hljóti góða menntun og því ætti háskólinn að gera sitt besta svo allir hafi jafnan aðgang að henni. Aðstæður námsmanna eru misjafnar og ekki ætti að mismuna einstaklingum sem allir eru í sama skipinu í átt að sömu höfn.

Gunnlaugur.JPG

Gunnlaugur Bjarnason

Ég sit einn í Hámu í Árnagarði. Reyndar ekki alveg einn. Með mér er sonur minn, tæplega eins árs. Hann situr í barnavagninum sínum og japlar á eplabita á meðan ég drekk kaffi og borða kleinu. Ég er rúmlega 22ja ára og í fæðingarorlofi með fyrsta barn. Enginn af vinum mínum eða samnemendum er á sama stað og ég. Til að sýna hvað ég er þroskaður og langt á undan hinum fer ég reglulega upp í skóla á meðan orlofinu stendur og sýni einkasoninn. „Sjáið mig. Ég er ungur, ábyrgðarfullur faðir. Þetta er afkvæmi mitt.“ Ekki áfellast mig, ég er bara mannlegur og þrái viðurkenningu eins og allir aðrir og þar sem ég hef aldrei átt snjallsíma get ég ekki verið að fylla samfélagsmiðla með myndum af börnunum mínum.

Inn á kaffistofuna gengur einn af samnemendum mínum. Við byrjum að spjalla saman og talið berst fljótlega að syni mínum. Ég kem með frekar lélegan brandara um að hann sé yngsti stúdentinn hérna í HÍ. Hún hlær uppgerðarhlátri. Eins og til að fylla upp í þögnina spyr hún mig, með vorkunnartóni, hvort þetta sé ekki bara „næs“, að eiga börn í námi.

Næs? Að eiga börn í námi? Þegar þessi stelpa spurði mig að þessu fyrir fimm árum síðan var ég ekki kominn með nægilega reynslu á þetta. Ég vissi ekkert hvað þessu fylgdi. Eftir sex ár í föðurhlutverkinu (reynslubolti) og þar af öll árin í námi, bæði við HÍ og í tónlistarnámi, get ég kannski sagt með nokkurri vissu; jú, þetta er ansi næs. Það eru þó ekki hlutir eins og ungbarnaleikskólar fyrir stúdenta eða annað sem gert er sérstaklega fyrir stúdenta með börn sem gera þetta sérstaklega næs. Það er tíminn. Ég hef oftast haft nægan tíma til að vera með börnunum mínum. Vissulega koma stundir þar sem er mikið að gera en þær stundir eru ekki í meirihluta. Ef eitthvað kemur upp á, veikindi eða annað ófyrirsjáanlegt, þá skiptir það ekki öllu máli þó að ég missi af einum tíma í bókmenntasögu eða einum fyrirlestri. Maður er ansi sveigjanlegt foreldri þegar maður er í námi. Maður er vissulega ekki mjög peningamikill á meðan náminu stendur en peningar eru hvort sem bara aukaatriði í lífinu. Hvað eru peningar í samanburði við tíma? 

Mér er greinilega farið að líka ansi vel við þetta ástand. Kannski er ég háður því. Eftir fjóra mánuði mun ég eignast mitt þriðja barn og viti menn, ég er enn í námi og sé ekki fyrir endann á því…

Idunn.jpeg

Iðunn Brynjarsdóttir

Það að verða foreldri í fyrsta sinn umbreytir lífi manneskju á ótalmargan hátt og við háskólanemar erum þar engin undantekning. Ég átti eldri dóttur mína, Bríeti, þegar ég var að byrja annað ár í BA námi. Ég var í námi við frekar litla deild þar sem nemenda- og kennarahópurinn er náinn og allir þekkjast vel. Kennararnir tóku mjög vel í að ég tæki barnið með í tíma þegar þess þurfti sem einfaldaði lífið verulega og var mikill léttir. Allt viðmót sem ég fékk í minni deild og frá kennurum og samnemendum var með besta móti, svo það kom okkur töluvert á óvart að maðurinn minn fékk ekki alveg sömu móttökur og var hreinlega beðinn um að taka hana ekki með í sínar kennslustundir. Það kom ekki að sök fyrir okkur en vekur samt upp spurningar og hefði eflaust reynst einhverjum erfitt. Okkar upplifun var því sú að ákvörðunin væri fyrst og fremst undir kennurunum sjálfum komin án þess að ákveðin reglugerð eða álíka lægi að baki.  

Sú þjónusta sem FS býður foreldrum upp á var okkur mikil lífsbjörg. Við fengum fjölskylduíbúð á háskólasvæðinu og Bríet komst mjög fljótlega inn á frábæran ungbarnaleikskóla á þeirra vegum. Okkar aðstæður gerðu okkur kleift að komast hjá því að taka námslán, og ódýr leiga og leikskólagjöld hjá FS áttu sinn þátt í því. Með mikilli aðstoð frá foreldrum okkar, ekki síst á álagstímum í náminu, komumst við og barnið því þokkalega heil frá þessu öllu saman. Álagið er samt sem áður mikið og verður ekki minna eftir því sem barnið eldist. Til að mynda kemur fyrir að kennsla og vistunartími á leikskólanum stangist á, sem getur skapað alls konar vandræði fyrir kennara jafnt sem nemendur. Aðra einfalda hluti eins og að fjölga skiptiborðum á háskólasvæðinu mætti auðveldlega laga. Foreldrahlutverkið er krefjandi starf og aðstæður foreldra til náms aðrar en barnlausra nemenda. Háskólasamfélagið kemur til móts við foreldra að mörgu leyti en stefnan mætti vissulega vera skýrari.

LífstíllRitstjórn