Mál „beggja“ kynja
Varla hefur það farið fram hjá neinum að íslenskan hefur margsinnis verið gagnrýnd af jaðarhópum fyrir kynjaðan orðaforða, ójafnréttlátt orðafar og íhaldssemi. Margt bendir til þess að karlmennsku sé hampað á Íslandi frekar en t.d. kvenleika. Þetta kemur fram í frösum líkt og þú keyrir eins og kerling eða vá, hvað þetta er hommalegt. Orðræða sem þessi byggir á þeim hugmyndum að kvenlegir eiginleikar, sem og aðrir eiginleikar jaðarhópa, séu ekki eftirsóknarverðir. Þegar þessir eiginleikar eru svo kenndir við hóp sem getur erfiðlega eða engan veginn flúið þá (þ.e. að vera kona eða að vera hinsegin), hefur almenningur, með tungumálið að vopni, náð að brennimerkja þann hóp fyrir það eitt að vera til. Flest rök sem mæla gegn þessari jaðarsetningu benda á að maður segi bara svona, en þetta þýði ekki að sá hinn sami sé viljandi að níðast á jaðarhópum. En með því að nýta eiginleika ákveðinna jaðarhópa til þess að færa þá frá „norminu“ er sá hinn sami að móta raunveruleika þessara hópa.
Tungumálið getur verið góður gluggi inn í kynjaða skiptingu samfélagsins og sýnir hvað kynjahlutverk eru enn inngróin í okkar samfélag. Þekktasta dæmið er líklega starfsheitið hjúkrunarkona (sem flestir eru þó hættir að nota, sem betur fer). Google translate sýnir þennan glugga vel, en þýðingarvélin byggir á alls kyns rituðum heimildum sem hún vinnur svo úr til þess að ná fram réttri þýðingu. Eins og flestir vita þá er enska ekki kynjað mál (nema þá þegar kemur að fornöfnunum he/she/it). Ef þýtt er frá ensku yfir í íslensku verður þýðingarvélin að ákveða t.d. hvaða kyn lýsingarorð fái sé setningin í fyrstu persónu. Til þess nýtir hún ritaðar heimildir úr íslensku. I am fragile, I am stupid og I am vulnerable eru allt eiginleikar sem teljast vera neikvæðir og þýðast orðin öll yfir í kvenkyn, þ.e. brothætt, heimsk og viðkvæm. I am educated, I am classy og I am tough eru hins vegar álitnir jákvæðir eiginleikar og þýðast þeir allir yfir í karlkyn; menntaður, flottur og sterkur. Þetta gæti auðvitað bara verið tilviljun en þó er hægt að finna mun fleiri dæmi um þetta og gæti það þannig verið vísbending um hvaða persónulegu eiginleikar samfélagið telji vera karlmannlega eða kvenlega.
Tengsl tungumáls við raunveruleikann eru einnig augljós í íslenskum lögum. Til að mynda gátu lög um kynferðisofbeldi lengi aðeins náð utan um konur, en í þeirri grein stóð „Ef kvenmanni er þröngvað til holdlegs samræðis með ofbeldi eða frelsissviptingu...“. Þessari grein hegningarlaganna var svo ekki breytt fyrr en 1992. Jaðarsetning kemur einnig fram í málinu vegna kynjatvíhyggjunnar, þ.e. að einungis séu til karlar og konur. Í 3. gr. laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda kemur þetta nokkuð vel fram en þar stendur „Kynáttunarvandi: Upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu“. Þarna er þá talað um hitt kynið, en það gefur í skyn að aðeins séu tvö kyn. Þessi skilgreining ýtir því fólki sem ekki flokkar sig sem karl né konu út á jaðar. Flestir sem eiga að falla undir þessa skilgreiningu finnst hún í raun útilokandi, bæði fyrir fólk sem hefur ekki upplifað sig sem trans alla æfi (þar sem áhersla er lögð á að til sé rangt kyn) sem og kynsegin fólk sem ekki fellur inn í kynjatvíhyggjuna. Kynsegin fólk hefur því lengi setið utan tungumálsins þar sem ekki var t.d. til kynhlutlaust fornafn, sem nú er þó til og er hán. Margir hafa mótmælt þessu fornafni og segja þetta fáránlegt, að fornöfn séu lokaður orðflokkur (ekki sé hægt að bæta í hann) og við séum nú þegar með fornafnið það. En hver vill vera kallaður það? Allavega ekki kynsegin fólk. Og ætti það í sjálfu sér að vera næg rök gegn því.
Margir ergja sig við þá tilhugsun að þurfa að breyta eigin máli bara til þess að þóknast einhverjum hóp fólks. Íhaldssemi sem kemur fram í málrækt sumra hefur oft afleiðingar sem brjóta á réttindum annarra. Þó svo að íslenskan sé fallegt mál og við finnum fyrir ákveðinni skyldu til að vernda hana þá á það ekki að vera gert á grundvelli ójafnréttis. Ég tel að í stað þess að fylgja fornum hefðarökum, ættum við að huga að jafnrétti allra. Þjóðarstolt og þjóðararfur er ekkert nema eitraður sé hann látinn bitna á þeim sem verða undir í samfélaginu. Æfum okkur í náungakærleik og notum ekki tungumálið til að níðast á öðrum. Það eru réttindi hvers og eins að vera kallaður það sem sá hinn sami vill ásamt að þurfa ekki að líða fyrir það að eiginleikar sínir séu notaðir á grundvelli óréttlætis.