Meiri áhyggjur af Kópavogi en Kópavogskróniku
Ég hitti Kamillu Einarsdóttur í Tjarnarbíó 9. mars síðastliðinn. Þá var frumsýning Kópavogskróniku handan við hornið og samkomubann enn þá bara draumur introverta. Þó svo að frumsýning verksins hafi átt að vera 14. mars, tveimur dögum fyrir samkomubann, ákvað Þjóðleikhúsið, í ljósi aðstæðna, að skella í lás fyrir frumsýningarhelgina.
Forvitnilegasta kynlífslýsing ársins
Kópavogskrónika - til dóttur minnar með ást og steiktum (2018) er fyrsta skáldsaga Kamillu sem hefur einnig skrifað pistla, átt sögu í bók um ástarsögur kvenna og aflað sér talsverðra vinsælda með skrifum sínum á Twitter. Allir stúdentar ættu þó að hafa rekist á Kamillu þar sem hún vinnur á Þjóðarbókhlöðu okkar allra. Í Kópavogskróniku talar móðir til dóttur sinnar og segir henni frá lífi sínu og samskiptum við menn. Sögusviðið er, eins og titillinn gefur til kynna, Kópavogur, bær sem sagt er að hafi verið slys. Frásögnin er hispurslaus, kaldhæðin og skemmtileg. Bókin hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina árið 2018, verðlaun sem lestrarfélagið Krummi veitir fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum bókmenntum.
Bókin kom út hjá Bjarti-Veröld en þeir höfðu samband við Kamillu af fyrra bragði. „Mig minnir að þeir hafi bara sent Facebook-skilaboð. Það voru líka einhver önnur forlög búin að tala við mig. Sko, mig langaði eiginlega ekkert að skrifa bók eða beint gefa út bók allavega. Pabbi minn er náttúrulega í þessu og systir mín og mér fannst bara meira framboð en eftirspurn eftir ritverkum frá þessari famelíu,“ segir Kamilla. Hún fór samt og hitti þau hjá Bjarti-Veröld og ákvað að kýla á þetta.
Aðspurð um hvort bókin væri að einhverju leyti byggð á ævi sinni svaraði Kamilla játandi en bætti við að þetta væri ekki skýrsla um líf hennar eða nokkurn tímann ævisaga. „Það eru hlutir sem hafa gerst á báðum stöðum en það er inn á milli algjör vitleysa. Ég veit heldur ekki hvað nokkur man hluti og ég er hraðlygin. Þannig, já og nei.“ Undirtitill bókarinnar er til dóttur minnar með ást og steiktum. Kamilla mundi ekki af hverju bókin bar nákvæmlega þann undirtitil og játaði að hún ætti erfitt með að gera titla. Hugmyndin hafi þó verið að titillinn væri ekki of þungur eða alvarlegur þar sem hann væri til dóttur frá móður. „En já, það eru engar djúpar pælingar af minni hálfu. En þú mátt ljúga því að ég hafi sagt eitthvað mjög gott svar við þessu,“ segir Kamilla.
Bók verður að leikriti
Ilmur Kristjáns og Silja Hauksdóttir skrifuðu handrit upp úr bókinni. „Þær höfðu samband og svo hitti ég þær á kaffihúsi og ég bara fann strax að ég myndi treysta þeim. Mér fannst það bara rosa heiður og gaman,“ segir Kamilla en hún hafði engan grun um að bókin yrði nokkurn tímann að leikriti. „Silja, ég þekkti hana þá ekki neitt, en vissi að hún er svalasti leikstjóri landsins og bara ógeðslega svöl gella og ógeðslega klár. Svo er náttúrulega Ilmur geðveikt fyndin,“ segir Kamilla. „Mér finnst rosa heiður að einhver taki listaverk sem ég hef búið til og búi til annað listaverk úr því. Og ég treysti þeim 100% til að gera það. Þannig ef þær hefðu bara ákveðið að þetta ætti allt að vera afturábak og á klingonsku, þá hefði ég bara verið fyrsta manneskjan til þess að fagna því.“
Aðspurð um hvort aðalpersónan sé eins og hún hafi ímyndað sé segir Kamilla að Ilmur leiki hlutverkið betur en hún hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér. Hún ákvað að skipta sér ekki mikið af ferlinu þó að Silja og Ilmur hafi boðið henni það. Kamilla vildi ekki vera með í skrifunum en hefur aðeins kíkt á samlestra og æfingaferlið en reynir að eigin sögn að þvælast ekki fyrir. „Mér finnst að þær eigi ekkert að hafa of miklar áhyggjur af því hvað ég sé að spá. Þegar þær hafa gert eitthvað sem ég hefði ekki gert, þá er ég bara ótrúlega impressed og finnst það töff og flott og gaman.“ Kamilla hefur ekki áhyggjur af sínu listaverki eða persónum en grípur inn í þegar eitthvað passar ekki sem viðkemur Kópavogi, til dæmis um tré ársins eða Catalinu.
„Mér finnst ótrúlega gaman að fá að vera með og ég er búin að læra ógeðslega mikið um leikhús,“ segir Kamilla og bætir við að hún sé orðin mikil áhugamanneskja um sviðsmyndir allt í einu, eitthvað sem hún hafi aldrei áður pælt í. Henni finnst gaman að fylgjast með ferlinu og lofar starfsmenn og aðstandendur sýningarinnar í hástert. Um Auði, sem er listamannsnafn Auðuns Lútherssonar, segir hún „Það breytir svo miklu og náttúrulega bara rosa heiður að þannig listamaður sé að gera tónlist við verk sem ég skrifaði í þynnku á Catalinu. Það er bara ótrúlegt eitthvað.“ Blaðamaður viðurkennir að hafa aldrei farið á Catalinu en lofar að bæta úr því um leið og samkomubanni lýkur. „Þetta er mjög næs staður, í alvöru. Þetta er svo blandað, þetta er svona hverfispöbb. Það er bara eitthvað kennaralið sem var að klára að kenna þann daginn og fólk að horfa á íþróttaleiki og eitthvað svona. Mér finnst það mjög kósí. Og ég í alvöru skrifaði rosa mikið þarna. Af því það er bara einhvern veginn mikið pláss og bjart og góð tónlist,“ segir Kamilla. „Þegar maður er að skrifa bók um Kópavog er gott að vera nálægt innblæstrinum.“
Besta leiksýning allra tíma?
Blaðamaður spurði Kamillu hver besta leiksýning sem hún hefði séð væri. „Besta leiksýning allra tíma? Úff, þetta er erfið spurning. Heyrðu, það er ein, ég þarf að googla, mig minnir að það hafi verið Ilmur Stefáns sem setti hana upp, hún hét Common Nonsense. Má ég googla?“ Kamilla googlar sýninguna til þess að vera viss um að hún sé með rétta sýningu í huga, en þar sem blaðamaður sá ekki símann gæti hún alveg eins hafa verið að biðja vin um aðstoð, skoða kattamyndbönd eða leita að 10 bestu sýningum á Íslandi. Líklegast er þó að hún hafi verið að leita að því sem hún sagðist vera að leita að. „Já, það var Ilmur Stefáns, ókei ég ætla að segja það. Sýning sem ég sá í Borgarleikhúsinu, það hefur verið 2004, Common Nonsense sem Ilmur Stefánsdóttir setti upp. Þetta var rosa absúrd, bara fólk að spila á saumavélar og hárið sitt og henda sér fram af svölum og eitthvað. Og ég var í kasti allan tímann, þannig ég mæli með því og allt sem hún myndi gera held ég að væri skemmtilegt.“
Aðspurð hvort hún sé undir einhverjum áhrifum af skrifum föður síns segir Kamilla að hún hafi ekki lesið allt eftir hann og sé ekkert að reyna að herma eftir því. En óhjákvæmilega hljóti hann að hafa áhrif á hana. Hann las bækur fyrir hana þegar hún var barn og benti henni á bækur til þess að lesa, þó það sé gagnkvæmt núna. Þau tala saman á hverjum degi og því hefur talsmáti hans mikil áhrif á hana. „Þannig ég myndi segja já og nei. Það er ekki meðvitað að ég setjist niður og bara eitthvað, jæja nú er kominn tími á næstu Djöflaeyju eða neitt þannig. Og hann les ekki yfir neitt hjá mér eða neitt þannig. En ég held við séum öll undir áhrifum af okkar umhverfi og svona. Sjálfsafgreiðsluvélarnar í Bónus hafa líka áhrif á mig og eitthvað svona, bara allt í umhverfinu,“ segir Kamilla.
Blaðamaður spurði Kamillu hvernig skrif á næstu bók gengju. „Ugh, ekki eins vel og ég myndi vilja. Þetta leikritastúss er... Eigum við ekki bara að vona það besta.“