Leikhúslíf í kjölfar Covid-19

„Saman í sóttkví“ Ljósmynd/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

„Saman í sóttkví“ Ljósmynd/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

Nú eru fordæmalausir tímar eða svo virðast allir segja. Fordæmalausir og skrítnir tímar þar sem samvera og snerting getur reynst hættuleg. Samkomubann hefur sett strik í reikning leikhúsa sem hafa brugðið á það ráð að streyma skemmtun á netinu. En það eru ekki bara leikhúsin sem eru að skemmta landsmönnum í gegnum netið. Sífellt fleiri streymi birtast dag hvern þar sem fólk leggur hönd á plóg við að skemmta, hugga og næra í þessu samkomubanni. Hvort sem það er jóga, hugleiðsla, tónlist, ljóðalestur, leiklist, uppistand eða annað. Allir eru að miðla þessari næringu sem við þurfum. Auk þess er gægjuþörf landsmanna fullnægt þegar við fáum að kíkja inn á alls konar heimili.

Þeir sem eru fastir heima leita í list og menningu, útvarp, sjónvarp og netið. Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið, Tjarnarbíó og Sinfóníuhljómsveit Íslands eru öll að streyma efni. Íslenska Óperan í samstarfi við Mbl.is byrjaði að streyma Aríu dagsins 24. mars en þegar þessi pistill er skrifaður er það verkefni ekki farið af stað. Í sölum leikhúsanna sitja aðeins örfáir, þar eru tæknimenn, fulltrúar fjölmiðla og leikhússtarfsmenn með minnst tveggja metra bil á milli sín. Þessi streymi veita listamönnum þó ekki fjárhagslegt öryggi og ekki er á allra færi að fara þá leið.

21. mars síðastliðinn var tilkynnt að Mennta- og menningarmálaráðuneytið hygðist sporna við efnahagsáhrifum COVID-19 með 750 milljónum króna innspýtingu í menningarverkefni og stuðning við starfsemi íþróttafélaga á næstu vikum. Samkomubannið hefur haft gríðarleg áhrif á tekjur listafólks og þá sérstaklega í sjálfstæðu senunni. Í umfjöllun frá Sjálfstæðu Leikhúsunum sem birtist á vef þeirra kemur fram að miðað við þann tíma sem áætlað samkomubann stendur yfir munu að lágmarki 20 sviðsverk sjálfstæðra hópa falla niður ásamt um 83 sýningum en áætlað tekjutap af miðasölu er á bilinu 35 – 40 milljónir. Með lengdu samkomubanni munu þessar tölur hækka. Veiran var farin að hafa áhrif um miðjan mars með dvínandi miðasölu og auknum afbókunum. Einnig er hætta á að fólk muni vera tregt við að fara aftur í leikhús eftir að banninu verður aflétt.

Tjarnarbíó er heimili sjálfstæðra sviðslista. Meira en 60% af rekstrarfé Tjarnarbíós þarf að koma frá miðasölu- og barveltu en ljóst er að leikhúsið þarf meiri aðstoð frá Reykjavíkurborg á þessum tímum til þess að hægt sé að halda því á floti. Sjálfstætt starfandi listafólk er flest verktakar en það kemur sér illa á tímum sem þessum í kerfi sem er hannað fyrir launþega. Staða sjálfstætt starfandi listafólks er því afar viðkvæm um þessar mundir. 

„Saman í sóttkví“ Ljósmynd/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

„Saman í sóttkví“ Ljósmynd/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

Saman í sóttkví í Tjarnarbíó

Í Tjarnarbíó hittust listamenn og tóku upp skemmtun fyrir landsmenn undir fyrirsögninni Saman í sóttkví. Spritt gekk á milli manna og hljóðnemar og hljóðfæri sprittuð í hvert sinn sem nýr listamaður steig á stokk. Margrét Erla Maack kenndi dans, Kristrún Lárusdóttir Hunter gerði öndunaræfingar fyrir fólk með kvíða en það ætti að falla í kramið hjá þessari stressuðu þjóð. Ásta, K.Óla, Svavar Knútur, Tendra og Vísur og Skvísur spiluðu lög sín, Þorvaldur S. Helgason fór með ljóð og Ævar Vísindamaður flutti kafla úr bók sinni, Þín eigin þjóðsaga, líkt og hann hefur flutt Risaeðlur í Reykjavík á Facebook síðu sinni hvern dag síðan 16. Mars. Jono Duffy, Kimi Tayler, Stefán Ingvar Vigfússon og Vilhelm Netó fóru með uppistand. Hvert spyrðu? Nú, heim í stofu til þín, því þetta er streymi. Viðburðinum verður streymt á Hringbraut 23. mars, 30. mars, 6. apríl og 13. apríl.

Blaðamaður Stúdentablaðsins talaði við Ingunni Láru sem skipulagði Saman í sóttkví ásamt Ingibjörgu Sædísi, Ragnheiði Erlu og Laufeyju Haraldsdóttur. Ingunn sagði að hugmyndin hafi komið frá spjalli á kaffihúsi. „Við byrjuðum bara að tala um alla listamennina sem við þekktum sem voru ekki að fara að fá neitt lifibrauð og höfðu ekkert að gera. Við hugsuðum, hvað ef við sköpum einhvers konar vettvang fyrir alla og kannski hvetjum fólk til þess að styrkja listamennina.“ Ingunn er listamaður í sjálfstæðu senunni en starfar einnig sem blaðamaður hjá Fréttablaðinu og er aðeins komin yfir í sjónvarpið. Hún sagði að síðustu dagar hefðu einkennst af skrifum um kórónaveiruna en veiran hefur meðal annars þau áhrif að sviðslistamenn á Íslandi geta ekki unnið sína vinna. „Fólk áttar sig ekki á því að meirihlutinn, bara lang-meirihlutinn af listamönnum á Íslandi, og kannski annars staðar í heiminum líka, eru í sjálfstæðu senunni. Og þeir eru ekki tryggðir. Þeir hafa ekki stofnun á bak við sig, eins og Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið og Íslensku óperuna og Sinfó, sem að getur borgað þeim áfram. Nú getur fólk ekki komið saman á samkomum út af samkomubanni, það er ekki hægt að hafa áhorfendur,“ segir Ingunn.

„Fólk er heima, kemst ekki út, hvað gerir það? Það hlustar á tónlist, kveikir á sjónvarpinu, það sækir í listina, bara 100% í afþreyingu. Eitthvað sem læknar sálina og ég held að það sé alveg ótrúlega gott að geta veitt fólki afþreyingu og skemmtun. Eitthvað til að hlægja að og eitthvað sem snertir hjartaræturnar. Listamenn eru alltaf fyrstir til að gefa vinnuna sína og það er allt of sjálfsagt. Þess vegna vil ég hvetja fólk til að styrkja þá, og þú veist, gefa 500 kall, gefa þúsund kall,“ segir Ingunn en allir styrkir fara beint í vasa listafólksins. 

„Saman í sóttkví“ Ljósmynd/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

„Saman í sóttkví“ Ljósmynd/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

Streymi og ljóð fyrir þjóð í stofnanaleikhúsunum

Í Þjóðleikhúsinu er í gangi verkefnið Ljóð fyrir þjóð í samstarfi við RÚV. Almenningur getur sent inn ósk um ljóð. Á hverjum virkum degi á meðan samkomubannið er í gildi fær einn þátttakandi boð um að koma í Þjóðleikhúsið og fá ljóðið flutt af einum leikara hússins á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ljóðalestrinum er útvarpað á Rás 1 í Víðsjá.

Í Borgarleikhúsinu eru ýmsar uppákomur í samkomubanninu. YouTube rás leikhússins er mjög virk um þessar mundir en auk þess eru streymi frá Borgarleikhúsinu á Vísi. „Við verðum með leiklestra, við verðum með upplestur, pestalestra úr fyrri hörmungum heimsins, við verðum með barnaefni, við verðum með lifandi tónlist, við verðum með brot úr fyrri leiksýningum, við verðum með heilar leiksýningar, alls konar efni, samveru og næringu og fróðleik sem okkur langar til að bjóða ykkur,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri í kynningarmyndbandi leikhússins á YouTube. Borgarleikhúsið er með beint streymi alla daga kl. 12 og nú þegar hafa mörg streymi verið sett á netið. Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri, fjallaði um sýningar sínar Elly og Níu líf, Maríanna Clara og Hjörtur Jóhann lásu úr Tídægru, Haraldur Ari Stefánsson las upp úr Gosa, streymt var frá leiklestri á Bláskjá eftir Tyrfing Tyrfingsson og Bubbi hélt föstudagstónleika eins og hann hyggst gera alla föstudaga meðan samkomubann ríkir. Hjörtur Jóhann er dagskrárstjóri streymisins.

Fyrir samkomubann náði annar leikhúsgagnrýnenda Stúdentablaðsins að komast á frumsýningu leikhópsins Ást og Karókí á Skattsvik Development Group sem sýnd var í Borgarleikhúsinu en hún var fyrsta sýningin sem Borgarleikhúsið streymdi í þessu samkomubanni. Skattsvik Development Group var sýnd á nýju sviði Borgarleikhússins. Miðað við hana og Kartöflur, fyrstu sýningu Umbúðalaust, er umræddur gagnrýnandi orðinn spenntur fyrir þriðja og síðasta verki leikársins á því sviði, Ertu hér? eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Það verk ættu Borgarleikhúsgestir að ná að sjá í eigin persónu eftir að allt fellur í ljúfa löð.

Þegar þessir skrítnu tímar eru liðnir skulum við fjölmenna í leikhús og næla okkur í þessa mikilvægu næringu beint í æð.