Að færa tilfinningar yfir á annað form
Tónlistarkonan Katrín Helga Ólafsdóttir gengur undir listamannsnafninu K.óla. Í mars síðastliðnum hlaut hún tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, bæði í flokki björtustu vonarinnar og fyrir fyrstu plötu sína, Allt verður alltílæ, sem var tilnefnd poppplata ársins. Platan hlaut einnig Kraumsverðlaunin, sem hafa það að markmiði að styðja við verk ungra tónlistarmanna og vekja þannig athygli á því sem er nýtt og spennandi í íslenskri tónlist. Katrín var einn stofnmeðlima hljómsveitarinnar Milkhouse og er einnig meðlimur Post-dreifingar, hóps sjálfstæðs ungs listafólks sem leggur áherslu á tilraunamennsku og hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum. Katrín, sem er 23 ára gömul, er á lokaári í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands.
Aftenging við hið persónulega
Platan Allt verður alltílæ verkar á hlustandann eins og dagbók. Textarnir lýsa á einlægan hátt ferðalagi tilfinninga og í þeim kveður við persónulegan tón. „Merkilegt nokk byrja ég samt yfirleitt á laginu og pæli síðast í textanum,“ segir Katrín. „Oft getur það verið hausverkur fyrir mig að semja texta. Mig langaði samt að textarnir á plötunni væru eitthvað sem ég myndi raunverulega segja, út frá því sem ég hef upplifað. Á sama tíma er ég byrjuð að leika mér að nota grímu, sem mér finnst gaman. Með hana þori ég að segja ýmislegt sem ég myndi aldrei gera augliti til auglitis. Það myndast einhver furðuleg aftenging við hið persónulega í textunum en í krafti þess þori ég að vera ennþá persónulegri, sem er áhugaverð þversögn. Ég er sjálf enn að átta mig á grímunni.“
Nýjasta plata Katrínar, PLASTPRINSESSAN, kom út í febrúar á þessu ári og hefur yfir sér draumkenndari og ævintýralegri blæ en sú fyrri. Þar er deilt á neysluhyggju og loftslagsvanda nútímans. „Ég vildi fá útrás fyrir sorgina sem ég finn fyrir yfir ástandi heimsins. Maðurinn er svo stórt vandamál. Með plötunni vildi ég líka miðla samviskubitinu mínu og viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég er hluti af vandanum. Við erum það öll. Þegar við tókum upp tónlistarmyndband í Krónunni hrósaði fólk mér fyrir plastkjólinn sem ég var í, sem var skrýtin tilfinning. Það stakk sérstaklega þegar ég sá litla stelpu horfa stóreyga á mig. Þó að platan sé í fantasískum búningi þá er þetta nútíminn, hann er svona skrýtinn. Við pökkum öllu í plast og viljum hafa stjórn á öllu.“
Hnyttni og leikgleði
Tónmál Katrínar blandar saman ólíkum hefðum popptónlistar og klassíkur. Á báðum plötum hennar er klassískum útsetningum fyrir strengjakvartett skeytt saman við poppaðri stef, slagverk, frjálslega raddbeitingu og hispurslausa texta. „Ég er bæði að gefa út mína eigin tónlist og í klassísku tónsmíðanámi. Stundum eru sameiginlegir fletir þarna á milli, en oft er það mjög ólíkt,“ segir Katrín. „Ég geri kannski popptónlist og gef hana út á Spotify, en geri líka annars konar verk í skólanum, vinn með rými og prófa ólíkar hugmyndir. Á síðasta ári gerði ég verkið „Hlaupari ársins“ sem er samið fyrir hljóðfæraleikara og hlaupara á hlaupabretti. Ég myndi ekki gefa það út á plötu en er samt mjög glöð að það sé til. Það sem sameinar þessi ólíku form sem ég vinn með er kannski einmitt einhvers konar hnyttni og leikgleði,“ segir hún.
Katrín segir það geta verið vandasamt að finna tíma fyrir eigin tónlistarsköpun og stunda samhliða því háskólanám í tónsmíðum. „Fyrstu tvö árin í Listaháskólanum var ég ótrúlega upptekin við námið,“ segir Katrín. „Það var skrýtin upplifun að líða eins og ég hefði ekki samið neitt en samt verið í tónsmíðanámi. Síðan þá hef ég unnið meira sjálfstætt, sem hentar mér vel. Námið býður mér alls konar verkfæri sem ég þarf svo að velja úr, út frá því sem er rétt fyrir mig. Það hefur líka gefið mér ákveðið sjálfstraust sem smitast yfir í popptónlistina.“
„Ég hefði örugglega aldrei þorað að skrifa fyrir strengjakvartett ef ég væri ekki í tónsmíðum,“ bætir Katrín við. „Það virkar kannski öfugt líka, ég leyfi mér sömuleiðis að leika mér og vera svolítið frjáls í tónsmíðanáminu. Mér finnst skemmtilegt að sjá einhvern svitna og segja eitthvað skrýtið á hlaupabretti í kirkju, umkringdan hljóðfæraleikurum, og leyfði mér að framkvæma það,“ segir hún. „Það var líka ómetanlegt að geta nýtt tímann á sumrin í skapandi sumarstörfum í Kópavogi. Þá leið mér samt stundum svolítið eins og svikara, af því að ég vildi bara semja popptónlist.“
Að færa tilfinningar yfir á annað form
Tónlistarferill Katrínar hófst þegar hún fór að læra á píanó í grunnskóla. „Ég flosnaði samt næstum upp úr píanónáminu því ég nennti aldrei að æfa mig eins og ég átti að gera,“ segir hún. „Mér fannst alltaf skemmtilegra að spila eins og mig langaði, sem var svolítið illa séð. Fljótlega fór ég að semja mína eigin tónlist með Milkhouse og það var mesti skóli sem ég hef upplifað. Maður lærir svo margt á því að vera í hljómsveit; samskipti, samvinnu, að gera málamiðlanir, fjárhagslega og praktíska þætti. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það,“ segir Katrín.
„Þegar ég var unglingur notaði ég tónlist til að reyna að skilja flóknar tilfinningar,“ bætir hún við. „Tónlist hefur alltaf verið leið fyrir mig til að koma því sem ég skil ekki yfir á eitthvað form. Fyrir öðrum getur þetta verið að semja texta eða mála mynd, en fyrir mér var það bara að setjast niður við píanóið og spila eins og mér leið.“
Meira rugl og skemmtilegheit
Aðspurð hvort til sé eitthvað í tónlist sem hún vilji gjarnan prófa segist Katrín vera spennt fyrir því að spreyta sig á fleiri hljóðfæri. „Svo væri ég alveg til í meiri tilraunavettvang í klassíska tónlistarheiminum,“ segir hún. „Eitthvað kollektíf sem væri sambærilegt tilraunamennskunni í post-dreifingu. Fólk hikar svolítið við að mæta á viðburði þar sem ný tónlist er flutt. Ég hef heyrt fólk segja að það upplifi sig heimskt og að það tengi ekki við tónlistina. Það er ólíkt því að hlusta á kórtónlist sem smýgur inn í mann eða popptónlist þar sem maður er allt í einu farinn að dansa, eða kvikmyndatónlist sem fer með mann í tilfinningaferðalag. Það er gjarnan þröngur hópur sem mætir til að hlusta á nýja klassíska tónlist. Ég væri til í meira rugl og skemmtilegheit svo fólk átti sig á að það er hægt að flippa í nýrri tónlist, blanda mögulega saman ólíkum miðlum gjörninga, tónlistar og myndlistar. Það er spennandi.“
Nóg er á döfinni hjá Katrínu um þessar mundir, en meðal annars vinnur hún nú að lokaverkefni sínu við Listaháskólann. Afraksturinn verður sambland af kvikmynd, leikhúsi og tónleikum. „Þetta er samspil af live-flutningi og stafrænni upptöku, bæði sjónrænt og hljóðrænt. Mér finnst spennandi að vinna með ólíka miðla og virkja ólík skynfæri,“ segir hún.
Auk þess stefnir hún á að gefa PLASTPRINSESSUNA út á vínyl, vinnur að tónlist fyrir tvær stuttmyndir, undirbýr þátttöku á hátíðinni „Ung nordisk musik“ í Finnlandi í sumar og er þegar farin að vinna að nýrri plötu.