Svona Röskvutýpa
Í tilefni af aldarafmæli SHÍ á árinu birtir Stúdentablaðið pistla frá fyrrverandi formönnum Stúdentaráðs. Björg Magnúsdóttir reið á vaðið í 3. tölublaði, en hún sinnti starfi formanns skólaárið 2008-2009.
Loftið var þrungið spennu og gleðin skein úr hverju andliti. Þetta var sá tími kvölds þegar allt er enn gaman. Ég var í stóru tjaldi á Háskólalóðinni og það var Októberfest. Ég hafði aldrei komið á annan eins viðburð enda var þarna sirka korter síðan ég hóf nám í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Sæt og skelegg stelpa með alpahúfu vatt sér upp að mér og sagði að ég væri svona Röskvutýpa. Ég kannaðist við hana því hún hafði verið forseti í MH. Ég vissi alls ekki hvað þýddi að vera Röskvutýpa en með þessari setningu hófust mín fyrstu kynni af stúdentapólitík.
Þetta var þegar útrásarvíkingarnir voru enn mestu spaðar Íslands og Hrunið hafði ekki breytt öllu. Á yfirborðinu var orðið velmegun líklega ágætt til að lýsa þjóðfélaginu. En það kraumaði eitthvað undir.
Sem sagt. Ég hellti mér út í starf Röskvu af fullum þunga. Fór í framboð sem fól til dæmis í sér að hringja í samnemendur fyrir kosningar til Stúdentaráðs. Já, góða kvöldið. Er það Jafet í geislafræðinni? Sæll, ég heiti Björg og er í sama háskóla og þú. Ég er í framboði, ertu til í að kjósa mig? Einhvern veginn svona byrjuðu þessi símtöl. Ég reyndi auðvitað að vera kurteis en veit alveg hvernig þetta hljómar. Algjörlega fáránlega. Og mörg símtölin voru það. Krakkar í fullorðinsleik.
Mér er samt enn minnisstætt samtal sem ég átti við líffræðinema. Hinum megin á línunni var rödd ungrar konu, einstæð tveggja barna móðir, sem útskýrði fyrir mér veruleika sinn. Hún varð að geta treyst á lánaframfærslu LÍN þar sem hún hafði ekkert millistéttabakland eða öryggisnet. Hún þurfti líka að reiða sig á að geta leigt stúdentaíbúð og leikskólapláss hjá FS á viðráðanlegum kjörum. Ef þessi kerfi virkuðu ekki, þyrfti hún að fara út á vinnumarkaðinn og setja háskólanám á ís. Þarna birtist mér nýr veruleiki, sem ég er þakklát fyrir að hafi lifað í minninu.
Stúdentapólitík er oft á tíðum frekar hallærisleg. Hvorki fyrr né síðar hef ég til dæmis rökrætt í jafnmargar mínútur um viðeigandi fjölda millistykkja í skólastofum. En svo eru augnablik, eins og samtalið við líffræðinemann, sem ramma inn stúdentapólitík fyrir mér. Kjarninn er að fulltrúar stúdenta séu öflugt þrýstiafl sem sýni stjórnendum skólans og þjóðarinnar markvisst aðhald. Og hafi metnað til þess að viðhalda samfélagi þar sem allir hafa tækifæri til háskólamenntunar.
Ég var formaður Stúdentaráðs fyrir hönd Röskvu þegar Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland. Þegar þjóðfélagið leystist upp sýndi sig mjög hversu mikilvægt er að hafa öflugt háskólasamfélag þar sem rödd stúdenta heyrist hátt og skýrt. Það þarf nefnilega stanslaust viðhald þegar kemur að réttindabaráttu og því að stuðla að framförum eins og Stúdentaráð hefur sýnt og sannað í gegnum tíðina með gríðarlegu umbótastarfi á kjörum nemenda.
Á hverju hausti, þegar hvíta og bláa tjaldið fer upp á háskólalóðinni, hreiðrar um sig nostalgía innra með mér. Ég man eftir stelpunni með alpahúfuna og öllum hinum vinum mínum, sem ég lærði svo mikið af. Á sama tíma finnst mér stórkostlegt að vita til þess að á hverju einasta ári, inni í þessu sama tjaldi, fær einhver háskólbusi að heyra að hann sé klárlega svona Röskvutýpa.