Lífið 101 - Námskeiðið sem vantar í kennsluskrána

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Velkomin í heim hinna fullorðnu, þar sem allir eru bara að þykjast vita hvað þeir eru að gera. 

Ég veit ekki alltaf hvað ég er að gera. Reyndar veit ég oftast ekki hvað ég er að gera en hluti af því að fullorðnast er að takast á við þessar fullorðinsákvarðanir og fullorðinshluti sem sveima um meðan lífið gengur sinn vanagang. Fullorðnir þurfa að kaupa í matinn, elda, þvo þvott, vinna, finna sér þak yfir höfuðið og taka allar þær ákvarðanir sem tengjast því. Viltu leigja, kaupa eða búa hjá ættingja þangað til þú þarft í alvöru að takast á við hvort þú ætlar að kaupa eða leigja? Og svo er það allt hitt. Allt hitt sem ég hefði verið til í að læra í menntaskóla.

Ég hefði verið til í að læra að fylla út skattaskýrslu, þá væri hún ekki árlegt stress þar sem ég vona að ég sé að gera hana rétt. Ég hefði verið til í að læra fleira fjármálatengt. Hvernig virka eiginlega peningar, hvernig kaupi ég íbúð, hvernig virka lífeyrissjóðir, lífeyrissparnaður, hver er munurinn á verðtryggðu og óverðtryggðu láni?Við göngum út í lífið eftir menntaskóla án margra mikilvægra verkfæra sem við hefðum átt að fá í hendurnar og förum mistilbúin inn á vinnumarkaðinn. Ég brenndi mig til dæmis á því að kunna ekki að lesa launaseðla. Ég hefði verið til í að læra að lesa úr þeim og vita hver réttur minn er sem starfsmaður og manneskja, vita hvað stéttarfélög og verkalýðsfélög gera. Hvað gera þau fyrir mig og hvað get ég fengið frá þeim? Vissir þú til dæmis að flest, ef ekki öll, stéttarfélög veita félagsmönnum sínum styrki til náms? Hafðu samband við þitt stéttarfélag!

Í þessum þarfa áfanga væri ég til í að læra að vera sjálfbærari, geta séð um smávægilegar lagfæringar heima við, læra að tappa af ofnum, skipta um dekk, laga föt til þess að þau endist lengur, vita hvert ég á að fara til þess að fá mismunandi aðstoð, t.d. heilsutengda eða lögfræðiaðstoð, læra að hugleiða, hugsa um geðheilsuna, iðka sjálfsást, læra á mörk og uppgötva mín eigin og læra á heilbrigð sambönd.

Margt af þessu hef ég lært að skilja, þó ekki nema að einhverju leyti, en alls ekki allt. Ég var til dæmis að tryggja mig og krakkar, það gekk ekki vel. Ég ýtti því fyrst til hliðar allt of lengi en lét verða af því í nóvember í fyrra að senda póst á tryggingafélög og biðja um tilboð. Þar er fólk í vinnu við að reyna að selja öðru fólki tryggingar. Fólk sem sendi mér ítrekunarpósta og hringdi í mig til þess eins að reyna að tryggja mig og mér leið eins og ég væri að valda þeim vonbrigðum þegar ég íhugaði að svara þeim ekki. Ég las yfir tilboðin en skildi voðalega lítið í þeim. Ég bókaði frían tíma hjá tryggingaráðgjafa sem ætlaði að koma heim til mín í síðustu viku en við þurftum að færa tímann yfir í vikuna á eftir. Það er þó búið núna og ég er loksins tryggð, það tók bara þrjá mánuði (og tveggja ára vangaveltur). Það hefði getað tekið minni tíma ef ég hefði ekki verið stressuð um að klúðra þessu því ég skildi þetta ekki.

Sumt af þessu er ef til vill kennt að einhverju leyti í sumum skólum en alls ekki öllum og ekki nógu vel. Þessa hluti, sem og aðra, mætti útlista og einfalda fyrir ungu fólki sem mun þá vonandi ganga inn í fullorðinsárin með aðeins meira öryggi en ég gerði. Kennum áfangann „Lífið 101“, léttum á stressi og frestunaráráttu og útskrifum einstaklinga sem eru betur búnir undir lífið.