Nemía hjálpar nemendum að hámarka námsgetu sína
Gylfi Tryggvason, stofnandi Nemíu, tók á móti blaðamanni Stúdentablaðsins í nýjum höfuðstöðvum Nemíu í Álfabakka. Nemía er fyrirtæki sem býður upp á einkakennslu í hinum ýmsu fögum fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum. Mesta eftirspurnin er eftir aðstoð við stærðfræði. Einnig eru í boði námskeið fyrir lokapróf.
Vildi sameina hópa í kringum Nemíu
Aðspurður um hvernig hugmyndin að stofnun Nemíu hafi orðið til segist Gylfi hafa verið að stússast í einkakennslu í nokkur ár en fundist umræðan um íslenska skólakerfið svo þurr: „Ég sá tækifæri til að koma með eitthvað ferskara og skemmtilegra í kringum menntun. Ég vildi búa til vörumerki sem gæti sameinað nemendur sem vilja standa sig betur, eitthvað sem léti nemendur hugsa jákvætt um menntun og kennslu.“
Ætlaði að gera sitt besta og sjá hvar þetta myndi enda
Nú á dögunum fagnaði Nemía eins árs afmæli. Samkvæmt Gylfa hafa móttökurnar verið góðar og fólk mjög opið fyrir Nemíu: „Ég vissi ekki hvaða væntingar ég átti að hafa þar sem ég hafði enga fyrirmynd sem ég gat borið saman við. Ég ætlaði bara að gera mitt besta á hverjum degi og sjá hvar þetta mundi enda.“ Vinsældir Nemíu hafa farið stigvaxandi frá stofnun og vörumerkið er að breiðast út: „Við fáum alveg skilaboð frá mömmum sem segja að sonur vinkonu þeirra hafi farið í kennslu hjá okkur og fundist það geggjað þannig að þær ætli að senda syni sína líka. Það er ótrúlega gaman.“ Nemía hefur verið í samstarfi við ýmsa framhaldsskóla og auglýst innan nemendafélaga: „Við höfum verið í samstarfi við einhverja framhaldsskóla til að peppa þetta meira upp. Það er þó nóg að gera í þeim skólum sem við erum ekki í samstarfi við. Í grunninn erum við að gera eins vel og við getum og ef nemendafélögin vilja vera með í því að hjálpa okkur að stuðla að bættum námsvenjum fólks erum við alltaf opin fyrir því.“
Kemst næst því að eiga barn
Nemía er Gylfa afar kær. Aðspurður um hvað hafi komið mest á óvart við stofnun fyrirtækis svarar Gylfi: „Ætli það hafi ekki komið mér mest á óvart við stofnun Nemíu hvað mér þykir vænt um fyrirtækið mitt. Það hafa örugglega allir heyrt að fyrirtækið manns sé svona eins og barnið manns. Ég á reyndar ekki börn þannig að ég hef ekki samanburðinn en ég myndi giska á að þetta kæmist nálægt því að eiga barn. Það er magnað hvað maður er tilbúinn til að fórna miklu fyrir velgengni fyrirtækisins.“
Mikilvægt að bæði hjartað og heilinn samþykki
Gylfi telur að það sé mikilvægt að hafa góða tilfinningu fyrir hugmyndinni þegar maður er að hugsa um að stofna eigið fyrirtæki: „Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa góða tilfinningu fyrir konseptinu, bæði í hjartanu og heilanum. Það er fullt af hugmyndum sem eru frábærar en meika bara ekki sens þegar þú hugsar þær með heilanum. Ég held að þú þurfir bæði að fá hjartað og heilann til að samþykkja og svo bara kýla á það.“ Gylfi segir að það sé aldrei neinn 100% viss þegar hann hefst handa við að stofna fyrirtæki en mikilvægt sé að gera sér grein fyrir afleiðingunum: „Ég var ekkert 100% viss að þetta færi svona af stað en ég hafði einhverja tilfinningu fyrir þessu og var tilbúinn til þess að taka afleiðingunum. Hvað gerist ef að Nemía mistekst? Hvað hefði gerst ef ég hefði stofnað Nemíu og rekið fyrirtæki í þrjá mánuði og við hefðum fengið einn nemanda? Þá hefði ég tapað einhverjum peningum og helling af tíma. En ég hugsaði, er ég tilbúinn til þess að fórna þessum tíma ef að þetta mögulega gengur ekki upp? Svarið var bara já.“
Sækist eftir kennurum sem vilja gefa af sér
Aðspurður um hvað Gylfi leggi áherslu á í kennslu og vilji að samkennarar sínir tileinki sér segir hann að mikilvægt sé að nemendur fái eins mikið út úr tímanum og þeir mögulega geta: „Ef að ég ætti að lýsa Nemíu í einni setningu þá hefur það verið sama setning síðan á fyrsta degi: Nemía hjálpar nemendum að hámarka námsgetu sína. Mér finnst þetta svo töff stefna. Maður sækist eftir einstaklingum í kennslu sem maður finnur að eru að fara að gefa eins mikið af sér og þeir geta. Við sem erum að kenna hjá Nemíu gerum það fyrst og fremst af því að okkur finnst gaman að gefa af okkur og viljum gefa eins mikið af okkur og við getum á þessum stutta tíma sem við höfum með nemendum.“
Stytting framhaldsskóla kann að hafa áhrif á vinsældir Nemíu
Nýlega átti sér stað stytting náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Gylfi segir að sú breyting gæti hafa ýtt undir vinsældir Nemíu en aftur á móti hefur markhópur þeirra minnkað: „Frá mínu sjónarhorni sem rekandi Nemíu hefur eftirspurn eftir okkar þjónustu hugsanlega aukist en á móti kemur að búið er að fækka um 25% af krökkum í framhaldsskólum. Þannig að markhópurinn okkar er minni en er kannski líklegri til að vilja koma í einkatíma til okkar út af því að námið er orðið erfiðara.“