Nám í jarðvísindum og íslensku við HÍ
Þegar rýnt er í kennsluskrá HÍ blasir við fjöldinn allur af spennandi námsleiðum og fjölbreyttum greinum. Sumar þeirra hafa meiri sérstöðu en aðrar og trekkja jafnvel að nemendur úr öllum heimshornum. Stúdentablaðið fékk til liðs við sig nema úr íslensku annars vegar og jarðvísindum hins vegar til að skrifa nokkur orð um námið sem þau stunda.
Jarðvísindin í hnotskurn
Ísland er eins og jarðfræðilegt safn heimsins. Við búum í návígi við afskaplega lifandi land. Hér er eldvirkni, jarðhiti, jöklar, jarðhræringar og flekaskil yfir heitum reiti sem er hvergi annars staðar í heiminum. Við höfum möguleika á að komast í beina snertingu við þessi náttúruöfl sem er virkilega dýrmætt. Rannsóknarstörf í jarðvísindum á Íslandi hafa hjálpað vísindamönnum við að skilja sögu jarðarinnar. Á Íslandi leika náttúruöflin stórt hlutverk í lífi hins almenna borgara og við höfum þurft að læra að lifa með þeim. Allir þessir þættir kveiktu áhuga okkar á faginu og höfðu áhrif á val okkar á háskólanámi.
Það sem gerir námið svo skemmtilegt eru vettvangsferðir sem gefa manni innsýn í framtíð jarðvísindamannsins. Stór hluti er verklegur sem brýtur upp rútínuna og lífgar upp á námið. Þetta er ekki fjölmennt nám, sérstaklega jarðeðlisfræðin, sem gerir það að verkum að hópurinn er þéttur og sterk vinatengsl myndast. Einnig er aukin eftirspurn á vinnumarkaði eftir því sem fagið vex. En eins og á svo mörgum sviðum lífsins er mikilvægasti hluti rannsóknanna samvinnan. Jarðeðlis-, jarðefna- og jarðfræðingar eru engin undantekning þar og vinna þeir í nánu samstarfi við rannsóknir.
Edda Sól Ólafsdóttir og Hilmar Adam Jóhannsson
„Og hvað ætlar þú að gera við það?“
Ég hef alltaf haft áhuga á íslensku og þá sérstaklega bókmenntum. Á lokaönn minni í menntaskóla fengum við fyrirlestur frá stelpu sem var að læra íslensku við Háskóla Íslands og þegar hún lauk frásögn sinni var ég alveg seld, ég ætlaði að fara að læra íslensku. Þegar ég tilkynni fólki að það sé það nám sem ég hef valið mér fæ ég oft spurninguna „og hvað ætlar þú eiginlega að gera við það?“ Svarið er hreint út sagt „ég veit það ekki!“ en möguleikarnir eru margir. Kannski verð ég kennari, kannski verð ég málfarsráðunautur, kannski verð ég útgefandi hjá Forlaginu, hver veit? Það sem ég veit þó fyrir víst er að það er alltaf eftirsóknarvert að tala gott og vandað mál. Það er mjög vinsælt að kunna íslensku og fólk frá öðrum löndum streymir til landsins til að læra litla tungumálið okkar. Við erum t.d. eina þjóðin sem getur lesið fornu norrænu handritin sem varðveist hafa í fjöldamörg ár og það verður að viðurkennast að það er frekar magnað. Mér líkar íslenskan mjög vel og sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa valið þessa braut í mínu lífi.
Elva Rún Pétursdóttir