Sundlaugar: Undur íslenskrar menningar

Grafík: Elín Edda Þorsteinsdóttir

Grafík: Elín Edda Þorsteinsdóttir

Eftir krefjandi dag eða viku er fátt meira endurnærandi en að slaka á í heitum potti, skilja við áhyggjur sínar og rækta geðheilsuna. Sundlaugar landsins eru eins konar samkomustaður Íslendinga en þar koma saman grunnskólakrakkar í sundkennslu, fjölskyldur í sunnudagssundferð og ísbíltúr og námsmenn í pásu frá streitunni sem fylgir náminu. Sundlaugar eru undur íslenskrar menningar þar sem fólk frá öllum sviðum þjóðfélagsins kemur saman og nýtur kyrrðarinnar og netleysisins sem sundlaugarnar eiga sameiginlegt.

Griðastaður í netleysinu

Frá því að stigið er inn í sundlaugarbyggingu og þar til komið er út ríkir fullkomið netleysi. Sundlaugar eru tilvalinn stefnumótastaður, bæði fyrir vini og elskendur, þar sem að samræður fá að fljóta og engin leið er til þess að flýja vandræðalega þögn með því að kíkja í símann. Það felst ákveðinn hlýleiki í því að fara í góðra vina hópi í sund og eiga gæðastund í heitu pottunum og ræða mál án þess að einhver utanaðkomandi truflun eigi sér stað. 

Spjallið í heitu pottunum 

Gestir sundlauga eru af margvíslegum toga; sumir vilja synda nokkrar sundferðir en aðrir flýja streitu hversdagsins. Umræðurnar í heitu pottum landsins eru ekki síður ástæða til þess að fara í sund. Með því að hlusta á þær er hægt að komast að því hvaða málefni brenna helst á vörum landsmanna og komast að þeirra vinkli. Hvort sem að það eru stjórnmálaumræður, íþróttir eða önnur málefni líðandi stundar. Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi árið 2016, varði miklum tíma í sundlaugum landsins á tímum kosningaherferðar sinnar. Að hennar mati var þetta ein besta leiðin til þess að vita hvaða málefni skiptu hinn almenna borgara máli. 

Grafík: Elín Edda Þorsteinsdóttir

Grafík: Elín Edda Þorsteinsdóttir

Stúdentablaðið hefur tekur saman lista yfir nokkrar skemmtilegar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu sem allar hafa gott hjólastólaaðgengi:

Árbæjarlaug

Það er einhver sjarmi sem fylgir Árbæjarlauginni; innréttingin í klefunum og anddyrinu gefa svo ótrúlega hlýlegt og vinalegt viðmót og útiklefarnir eru algjör snilld fyrir þá sem eru svo djarfir að afklæðast úti í kuldanum. Sérstaða Árbæjarlaugarinnar liggur í útsýninu sem sundlaugargestir hafa yfir Elliðaárdalinn, eina af perlum Reykjavíkur.

Laugardalslaug

Laugin er staðsett í miðju Reykjavíkur, Laugardalnum, og er einn af gimsteinum Reykjavíkur. Laugardalslaugin er nafli fjölbreytileikans en þar kemur saman fólk frá ólíkum heimshornum og baðar sig undir berum himni. Það er eitthvað svo ótrúlega fallegt við það. 

Lágafellslaug

Laugin er staðsett í Mosfellsbæ og er laugin virkilega fjölskylduvæn þar sem afþreyingin fyrir börn er mjög góð. Eimbaðið er klárlega aðdráttarafl númer eitt, en þar getur þú látið erfiði hversdagsins streyma úr líkamanum og átt stund með sjálfu/m/ri þér í heitu og röku loftinu. Í búningsklefunum eru útiklefi og útisturta sem er algjör snilld. 

Breiðholtslaug 

Þegar gengið er inn í Breiðholtslaugina finnur maður fyrir svo ótrúlega heimilislegu andrúmslofti. Laugin hefur haldið þessum gamla skólasjarma þrátt fyrir að miklar endurbætur hafi átt sér stað. Kaldi potturinn í Breiðholtslaug er klárlega einn besti kaldi potturinn á höfuðborgarsvæðinu.