Ísbjarnahætta og íslensk mafía á Svalbarða
Þegar Nína Aradóttir var í grunnnámi í jarðfræði við Háskóla Íslands ákvað hún að fara í skiptinám til Svalbarða í eitt ár og leggja þar stund á heimskautajarðfræði. Svæðið heillaði hana svo mikið að eftir að hafa klárað grunnnámið á Íslandi hélt hún aftur til Svalbarða í meistaranám og bjó þar allt meistaranámið, eða í þrjú ár alls. Í dag stundar hún doktorsnám í jarðfræði við Háskóla Íslands og rannsakar ummerki eftir forna ísstrauma á Norðausturlandi.
Stefndi ekki á skiptinám
Nína segist ekki hafa verið að íhuga skiptinám áður en hugmyndin um Svalbarða kom upp. Segir hún að Ólafur Ingólfsson, kennari hennar í jarðfræðináminu, hafi kveikt áhuga sinn á Svalbarða. „Hann hafði þá verið með annan fótinn í rannsóknum á Svalbarða. Hann talaði mikið um þetta svæði og út frá því kviknaði áhuginn fyrst, bæði hjá mér og öðrum nemendum. Við vorum nokkur sem fórum á skrifstofuna til að spyrjast fyrir um skiptinám til Svalbarða og við vorum síðan tvær sem enduðum á að fara alla leið með þetta,“ segir Nína sem bjó fyrst á Svalbarða skólaárið 2013-14. Hún segir að áhugi hennar á jöklum, heimskautasvæðinu og útivist hafi verið það helsta sem ýtti undir að hún hafi ákveðið að prófa að búa á nyrsta byggða bóli veraldar.
Háskólasetur og kolanámur
Þó svo að við Íslendingar búum líka á eyju á norðurhveli jarðar er erfitt að ímynda sér hvernig daglegt líf á Svalbarða er. „Það eru um 2500 manns með fasta búsetu á eyjaklasanum. Vísindasamfélagið er mjög stór hluti þess en á Svalbarða er háskólasetur sem rekið er af tveimur stærstu háskólunum í Noregi,“ segir Nína. „Þarna er líka mjög mikil ferðaþjónusta og hún fer hratt vaxandi. Einnig er þarna rússneskur kolanámubær en byggðin á Svalbarða byggðist fyrst í kringum þessar kolanámur,“ upplýsir hún. Hún segir samfélagið í raun vera eins og við eigum að venjast. „Á Svalbarða býr líka bara venjulegt heimilisfólk. Þarna er grunnskóli og þrír leikskólar, en þarna er mikið af ungum börnum.“ Matvara á Svalbarða er dýr, sér í lagi ferskvara vegna þess að flytja þarf hana inn. „Mjólk og ostur er ekki eitthvað sem nemendur geta leyft sér. Ég fylgdist vel með tilboðum og gerði mikið af því að kaupa mjög tæpt grænmeti á útsölu vegna þess að það var komið á síðasta séns,“ segir Nína. „Við nemendurnir vorum líka mjög duglegir að fylgjast með því þegar rauðvínsbeljur fóru á útsölu, þá var mikil gleði!“ bætir Nína við glottandi.
Aðspurð hvort að hægt sé að lifa tiltölulega eðlilegu lífi á Svalbarða segir Nína svo vera. „Já, já. Þarna eru barir, bíó og kaffihús. Svo er meira að segja klúbbur, sem er reyndar mjög fyndinn staður,“ segir hún og hlær. „Það sem vantaði helst í mitt líf, eins og annarra nemenda, var fjölskyldan. Margir þarna eru langt frá fjölskyldum sínum eins og fylgir því að flytja til annarra landa. Það hjálpaði heldur ekki til að stúdentagarðarnir voru ekkert sérstaklega vistlegir. Ég var heppin að það voru margir Íslendingar á svæðinu á meðan ég bjó á Svalbarða, kannski 15-20 þegar mest var. Ég varð hluti af góðum kjarna þarna og við kölluðum okkur íslensku mafíuna. Við urðum eins konar fjölskylda og það hjálpaði mikið að eiga þau að.“
Fleiri ísbirnir en menn
Fólk stundar minni útivist yfir dimmustu mánuðina, ekki aðeins vegna myrkurs heldur einnig vegna hættunnar á því að rekast á ísbirni. „Þetta er ísbjarnasvæði. Það er erfitt að ná nákvæmum tölum á fjölda þeirra en almennt er talið að á Svalbarðasvæðinu séu fleiri ísbirnir en menn. Þar af leiðandi þarf fólk á Svalbarða að vera mjög meðvitað um hættuna sem stafar af þeim.“ Nína segir allar ferðir vera skipulagðar með þetta ofarlega í huga. „Allir nemendur sem koma til Svalbarða fara á öryggisnámskeið og læra hvernig eigi að bregðast við ef maður rekst á ísbjörn og einnig hvernig eigi að forðast þá. Í öllum ferðum utan bæjar þarf að hafa með í för bæði blysbyssu og riffil. Háskólinn leigir út riffla og heldur eins konar „rifflalottó“ þar sem sá sem vinnur fær aðgang að riffli tímabundið og getur þar með farið í ferðir út fyrir bæjarmörkin.“ Segir hún að fyrstu viðbrögð ættu þó alltaf að vera að koma sér úr aðstæðum frekar en að þurfa að lenda í átökum við ísbjörninn. „Við erum auðvitað að koma inn á hans svæði en ekki öfugt og það ber að virða,“ segir Nína alvörugefin á svip.
Myrkur allan sólarhringinn
Nína segir að Svalbarða svipi að mörgu leyti til Íslands en þar sé allt á vissan hátt öfgakenndara. „Þegar ég bjó á Svalbarða voru um 57% svæðisins hulin ís. Þetta eru fimm ára gamlar tölur svo að prósentan hefur því miður örugglega minnkað mikið síðan þá. Landslaginu svipar helst til Vestfjarða eða Austfjarða á Íslandi, það er að segja há fjöll með bröttum hlíðum og jökulgrafnir firðir.“ Landslagið á Svalbarða er ekki eingöngu ýktara en hérlendis heldur ríkir svartamyrkur allan sólarhringinn frá miðjum nóvember fram í lok janúar. „Á þessum tíma grínast sumir með það að til þess að átta sig á því hvort klukkan sé tólf á hádegi eða miðnætti þurfir þú að athuga hvort búðin sé opin eða ekki, því það er nákvæmlega enginn munur á birtustigi eftir tíma sólarhringsins.“
Aðspurð hvernig henni hafi fundist að búa á stað þar sem dimmt er allan sólarhringinn segir Nína að henni hafi tekist ágætlega að þola myrkrið. „Maður verður bara að passa að hafa alltaf eitthvað fyrir stafni. Fyrstu tvö árin mín á Svalbarða var ég í áföngum og hópaverkefnum og það gekk vel. Á síðasta árinu mínu, þegar ég var að skrifa meistararitgerðina mína og þurfti að vinna meira sjálfstætt, fann ég að þetta var töluvert erfiðara. Þannig ég myndi segja að það að halda rútínu og að vera duglegur að fara út á meðal fólks skipti höfuðmáli til að þola svona mikið myrkur.“
Það vegur kannski upp á móti myrkrinu að á Svalbarða er meiri miðnætursól en á Íslandi. „Sumartíminn er ekki síður ruglingslegur vegna þess að þá er heldur enginn munur á degi eða nótt,“ segir Nína. „Sumir eiga jafnvel erfiðara með birtuna. Fólk verður að hafa góð myrkvunargluggatjöld vegna þess að líkamsklukkan virkar nákvæmlega ekki neitt í þessum aðstæðum“. Hún segir þetta reyndar vera mjög persónubundið. „Allar þessar öfgar kenndu mér að kunna aðeins betur að meta Ísland. Öll þrjú árin fór ég heim til Íslands yfir jólin og fann að það var mikill munur á Íslandi og Svalbarða varðandi myrkur. Við höfum það miklu betra hér en við höldum, tel ég,“ segir Nína að lokum.