Hvaða kosta fötin okkar?

„Í vestrænum löndum skilgreinir fólk sig í auknum mæli eftir hlutunum sem það á eða hvernig lífstíl það lifir.“ Ljósmynd/Unsplash

„Í vestrænum löndum skilgreinir fólk sig í auknum mæli eftir hlutunum sem það á eða hvernig lífstíl það lifir.“ Ljósmynd/Unsplash

Tilkoma hnattvæðingar

Heimurinn okkar er sífellt að minnka. Með aukinni hnattvæðingu eru tengslin á milli landa sífellt að verða meiri og mismunandi hagkerfi verða háðari hvort öðru. Í vestrænum löndum skilgreinir fólk sig í auknum mæli eftir hlutunum sem það á eða hvernig lífstíl það lifir. Aukin alþjóðaviðskipti auðvelda okkur að fullnægja neysluhyggju okkar með því að bjóða upp á sérhæfingu. Sérhæfingin felst í framleiðslu á ákveðnum vörum og þjónustu sem hefur jákvæð áhrif á neytendur í formi lægra verðs og fjölbreyttara vöruúrvals. Með tilkomu hnattvæðingar hafa skapast tækifæri fyrir þróunarríki að taka að sér framleiðslu á ýmsum varningi, til að mynda fatnaði. Fatnaðurinn yrði síðan fluttur og seldur í vestrænum ríkjum gegn lágu gjaldi. Þróunarríkin þykja ákjósanlegur framleiðsluaðili fyrir hagnaðardrifin fyrirtæki þar sem launakostnaður fyrirtækjanna lækkar til muna. Lækkun kostnaðar skilar sér í lægra verði og meiri hagnaði. Þrátt fyrir að skapa betri aðstæður fyrir okkur, vestræna neytendur, þá hefur hnattvæðing ákveðna vankanta. Framleiðsla á fatnaði hefur skaðleg áhrif á framleiðendurna. Vinnufólkið starfar við bágar og óöruggar aðstæður.

 

Neyslumynstur vestrænna ríkja

Í vestrænni menningu hefur skapast sá hugsunarháttur að við þurfum að vera í nýrri flík við hvert tilefni og að það sé skömmustulegt að mæta í sömu fötum tvisvar í viku. Við leyfum okkur að hugsa svona af því það er svo margt sem okkur stendur til boða og verðið lágt. Vöruúrvalið er orðið svo mikið með aukinni hnattvæðingu og tilkomu skynditísku (e. fast fashion). Skynditíska er fólgin í því að framleiða ódýr föt í lélegum gæðum sem hafa ekki langtímanotagildi. Mikill hraði er innan tískugeirans og fatakeðjurnar kynna nýjar vörur nánast vikulega með það að markmiði að bjóða neytandanum upp á nýja upplifun í hvert sinn sem hann labbar inn í verslunina. Lága verðið sem okkur býðst fyrir fötin segir ekki alla söguna. Fataiðnaðurinn er nefnilega annar stærsti mengunarvaldur í heimi.

 

Mengunarvaldandi framleiðsla 

Meirihluti þess fatnaðar sem tilheyrir skynditískustefnunni er úr bómull. Bómullarræktun krefst mikils vatns, en að meðaltali þarf 2700 lítra af vatni til að framleiða einn stuttermabol sem er jafn mikið og meðalmanneskjan drekkur á 3 árum. Henni fylgir einnig mikil notkun eiturefna, á borð við skordýraeitur, sem getur annars vegar haft slæmar heilsufarsafleiðingar fyrir bændurna og fólk sem býr í grennd við ræktunarsvæðin og hinsvegar skaðað jarðveginn. Á Indlandi, sem er einn af stærstu bómullarframleiðendum heims, eru heilu bómullarræktunarsvæðin ónýtanleg þar sem jarðvegurinn er gjöreyðilagður og getur ekki séð bómullarplöntunni fyrir nauðsynlegri næringu. Eiturefnaúrganginum er síðan fargað í nærtækasta stöðuvatn. Hátt hlutfall krabbameins og annarra heilsukvilla má finna í ýmsum þorpum sem staðsett eru í nágrenni við bómullarframleiðslu og verksmiðjur sem fást við litun á fatnaði þar sem eiturefnin skila sér út í drykkjar- og baðvatn þorpsbúa. Pólýester er annað vinsælt efni í fatnaði frá skynditískustefnunni enda er ódýrt og auðvelt að vinna með það. Ár hvert þarf yfir níu milljónir tonna af olíu í pólýesterframleiðslu. Pólýester er unnið úr plasti og við þvott pólýesterfatnaðar losna agnarsmáar plastagnir úr honum. Plastagnirnar skolast síðan út í hafið og geta endað á matardiskunum okkar. 

 

Förgun á fatnaði 

Með komu skynditísku er notagildi hverrar flíkar sífellt að verða minna, þar sem gæði efnisins eru slakari og veltan í tískuheiminum er svo mikil að fötin eru „dottin úr tísku“ áður en við vitum af. Góðgerðarstofnanir á borð við Rauða krossinn ráða ekki við það magn af fatnaði sem þær fá. Einungis 15% af þeim fatnaði sem er gefinn til góðgerðarstofnanna enda í söluhillum. Fötin sem verða afgangs eru send til urðunar. Lággæða gerviefni, á borð við pólýester, er hægt að finna í 72% af framleiddum fatnaði og eru í allt að 200 ár að brotna niður. Meðalfjölskyldan í vestrænum ríkjum fargar um 30 kg af fatnaði ár hvert, þar af eru sirka 21,6 kg gerð úr gerviefnum. 

 

Ómannsæmandi vinnuaðstæður 

Meirihluti þess fatnaðar sem við klæðumst dagsdaglega er framleiddur innan þrælakistna (e. sweat shop). Þrælakista er vinnustaður þar sem aðstæður eru bágar, kjörin léleg og vinnutími langur. Þrælakisturnar eru staðsettar í þróunarríkjum á borð við Kína, Bangladess og Indlandi, þar sem laun eru almennt lág og vinnueftirlit lítið. Meðalvinnuvika verksmiðjufólks er 60 klukkustundir á viku, 12 klst á dag miðað við 5 daga vinnuviku, og mánaðarlaun eru  £25, sem er rétt yfir 4.000kr. Árið 2013 létu 1.129 manns lífið og 2.500 slösuðust alvarlega þegar fataverksmiðjan Rana Plaza sem er staðsett í Bangladess gaf sig. Þrátt fyrir athugasemdir frá vinnufólki varðandi slæmt ásigkomulag byggingarinnar var framleiðslunni haldið áfram þar til byggingin loks gaf sig. Rana Plaza framleiddi fatnað fyrir merki á borð við Gucci, Versace, Mango og Primark. Ofbeldi og barnaþrælkun eru daglegt brauð innan fatakistna. 

 

Hvað er hægt að gera?

Vert er að hafa í huga hvert notagildi fötin sem okkur langar í hafa fyrir okkur, gott er að reyna að forðast að kaupa föt sem þú ætlar bara að nota einu sinni og þá frekar reyna að fá lánað. Þú sparar bæði pening og minnkar umhverfisáhrifin. Áður en verslað er við ákveðna fatakeðju getur reynst gott að kynna sér umhverfisstefnu hennar og við hvaða aðstæður fötin eru framleidd. Greinin Ábyrg fatakaup í Reykjavík eftir Sóleyju sem birtist hér seinna í blaðinu býður upp á auðveldar og sniðugar lausnir við þessum vanda sem tískuiðnaðurinn er ábyrgur fyrir.