„Við höfum varpað ábyrgðinni á ykkar herðar“
Við settumst niður með Guðna Elíssyni, prófessor í almennri bókmenntafræði við HÍ, í Tjarnarbíói á hrekkjavöku og ræddum loftslagsmál. Loftslagsmál hafa lengi verið Guðna hugleikin og því var hann fyrsti maðurinn sem kom til hugar þegar við komumst að því hvert þema blaðsins var.
Guðni fór fyrst að velta loftslagmálum fyrir sér í kringum aldamótin en fór ekki að skrifa markvisst um þau fyrr en í kringum 2004 - 2006 og hafa þau verið rauður þráður í öllu því sem hann hefur skoðað síðan. „Mér fannst óþægilegt að vera að blanda mér inn í umræðu sem var svona svolítið flókin og erfið. En ég byrjaði líka á stað þar sem hentaði best minni menntun, í greiningu á orðræðu loftslagsmála og skoðaði þá hvers konar rökum fólk beitti til þess að tala um loftslagið og hvernig beiting tungumálsins stýrði upplifun þess á veruleikanum,“ segir Guðni.
Þetta hentaði okkur ekki
„Það var því í raun ekki umfang vandans, það hversu mikilvægt það var fyrir mannkynið að leysa þetta mál sem eiginlega kveikti í mér fyrst, heldur það hvað mér þótti forvitnilegt og skrýtið að hugmyndafræði stýrði afstöðu okkar til vísindalegra staðreynda. Það er að segja, við vorum að hafna ákveðnum grunnsannindum um tilveruna einfaldlega vegna þess að þau hentuðu okkur ekki. Þá fór ég að elta uppi hina pólitísku orðræðu, skoða það hvernig til dæmis frjálshyggjumenn hafa lengi staðið gegn umræðunni og afvegaleitt hana á þessu tiltekna sviði í tæpa þrjá áratugi núna. En viðbrögðin við loftslagsvánni stýrast ekki aðeins af hugmyndafræðilegri blindu, heldur höfum við einnig tilhneigingu til þess að ýta burt upplýsingum sem okkur þykja óþægilegar, en þar er okkur stýrt af ýmiss konar hvötum sem hugræna sálfræðin hefur leitast við að greina. Upp úr þessu sprettur svo löngun mín að koma á samræðu milli sérfræðinga og almennings, finna leiðir til þess að setja fram hina vísindalegu þekkingu markvisst, draga upp skýra mynd af ástandinu þannig að fólk utan af götu skilji um hvað málin snúast og svo framvegis.“
Hlutverk stjórnvalda
„Ég myndi segja að þetta sé eitt af stóru verkefnum stjórnmálamanna samtímans,“ segir Guðni en varar þó við þeirri hugmynd að stjórnmálamenn eigi að leysa vandamálið fyrir almenning. „Okkur er kennt að þetta tvennt sé aðskilið í svona míkró makró aðgreiningu á loftslagslausnunum þar sem okkur er annars vegar sagt að við eigum að setja upp sparperur á heimilinu, við eigum að flokka rusl og svo framvegis, en er svo líka réttilega bent á að málin þurfi að leysa í milliríkjasamningum. Vandinn er bara sá að þeir sem horfa ekki nær sér beita sér ekki á hinu pólitíska sviði. Ég vil því ekki halda þessu aðgreindu. Ef við ætlum að láta stjórnmálamennina okkar leysa þetta mál þurfum við bæði að veita þeim aðhald og stuðning. Það gerum við með því að brenna í skinninu um þessi mál, leggja línur og það gerum við með því að efla okkar loftslags- og umhverfisvitund, bæði heima hjá okkur og á hinum opinbera vettvangi. Stjórnmálamennirnir hefðu átt að taka á þessum málum af alvöru fyrir þrjátíu árum, því að þá var enginn vandi að leysa þetta mál. Fyrir tuttugu árum var það orðið flókið og núna er það svo risavaxið vandamál að það er í rauninni spurning hvort okkur takist að leysa það á þann hátt sem við hefðum kosið.“
Hvað getum við sem þjóð gert?
„Við hefðum getað og gætum enn farið fram með fögru fordæmi. Við búum við infrastrúktur sem er í einhverjum skilningi orðsins einstakur, við eigum græna orkugjafa. Það sem við verðum samt að passa okkur á er að skilja að afskaplega mikið af kolefnislosuninni sem Íslendingar bera ábyrgð á mælist ekki í tölum hjá okkur einfaldlega vegna þess að hún er innflutt neysluvara. Í öllum þessum hlutum sem við erum að kaupa þá er það upprunastaðurinn eða framleiðslustaðurinn sem losar en í rauninni berum við ábyrgðina sem kaupendur vörunnar.“ Guðni vill að Íslendingar séu leiðandi í loftslagsmálum en hann vill líka vekja þjóðina til vitundar um önnur og raunverulegri gildi. „Við erum ekki að gefa neitt mikilvægt eftir, við erum ekki að tapa neinu með því að fara aðrar leiðir í þessum málum. Við getum til dæmis ræktað vina- og fjölskyldutengslin betur. Það eru allir alltaf í 150% störfum við það að reyna að eiga næga peninga til þess að kaupa sér meira af drasli.“
Hvað geta háskólanemar gert?
„Háskólanemar eiga að veita háskólanum aðhald. Þeir eiga að spyrja sig krítískra spurninga um háskólastofnanir. Háskólastofnanir eru gríðarlegar losunarmaskínur, það er eiginlega varla til óhreinni vinnustaður ef þú horfir til kolefnislosunar,“ segir Guðni. Margir skólar eru í alþjóðlegu samstarfi sem er gott og stuðlar að því að þekking berist hratt milli skóla. Gallinn er hins vegar sá að kolefnisfótspor prófessora er gífurlegt en margir þeirra fljúga til útlanda 10-15 sinnum á ári. Nýlega sendu um 130 kennarar við háskólann frá sér yfirlýsingu þess efnis að þeir vildu draga úr koltvísýringslosun meðal annars með því að draga úr óþarfa flugferðum.
„Það sem við þurfum að skoða er hvernig getum við unnið hlutina frá grunni og horft bæði á það smáa og hið stóra. Ég held að þetta þurfi að vinnast í einhvers konar samvinnu milli kennara og nemenda,“ segir Guðni.
„Parísarsáttmálinn er ekki raunhæfur“
„Það væri mjög erfitt að uppfylla Parísarsáttmálann eins og hann er núna og við erum ekki að sjá nein merki þess í okkar nánasta umhverfi að hugur fylgi máli. Ef þið horfið í kringum ykkur þá sjáið þið að það er „business as usual“ alls staðar. Það er enginn að lifa sínu lífi út frá þeirri þekkingu sem við höfum,“ segir Guðni.
Parísarsáttmálinn er samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Markmið hans er að halda hlýnun jarðar undir 1,5-2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar. Sáttmálinn gekk í gildi á heimsvísu þann 4. nóvember 2016 og skuldbindur 188 ríki til þess að vinna saman gegn loftslagsbreytingum.
„Parísarsáttmálinn er ekki raunhæfur,“ segir Guðni. „Þegar fólk hugsar um Parísarsáttmálann verðum við að spyrja okkur hvað við eigum við með Parísarsáttmálanum. Er átt við þær hugmyndir stjórnmálamanna að halda hitastigi á jörðinni milli 1,5-2°C, en þannig hugsa flestir um Parísarsáttmálann. Ef við skoðum Parísarsáttmálann og þær skuldbindingar sem felast í honum þá hafa hinar viljugu þjóðir lagt fram skuldbindingar sem myndu leiða til þess að við séum að lenda í kringum 3°C, þ.e.a.s. ef við erum heppin, en nýjar tölur sem lúta að jafnvægissvöruninni gefa til kynna að mögulega verði hlýnunin talsvert meiri. Það sem við höfum skrifað undir eru því í kringum 3°C. En það þykir ýmsum of mikið. Bandaríkjamenn eru til dæmis að draga sig út og Ástralir og Brasilíubúar hafa verið með alls kyns hótanir um að þeir ætli ekki að gera þetta.“
Það sem fer upp kemur aftur niður
Bókmenntafræði er líklegast ekki sú fræðigrein sem fólki dettur fyrst í hug þegar kemur að loftslagsmálum. Guðni segir hins vegar að loftslagsmálin verði að nálgast frá fjölbreyttum sviðum eigi að vera hægt að skilja vandann því að hann snúi ekki aðeins að veðurfari og vistkerfum, heldur öllum þáttum mannlegs samfélags. Bókmenntafræði hjálpi þar líka. „Til dæmis snúast margar sviðsmyndir framtíðarinnar þegar við ræðum mögulega losun og áhrif hennar á loftlagsbreytingar um frásagnir af heiminum. Það skiptir máli að skilja hvernig þessar frásagnir verða til, hvernig þær eru mótaðar og hvernig forsendur liggja undir. Ef við viljum til dæmis forðast að falla í blinda dómsdagsorðræðu er gott fyrir okkur að geta greint hana og sögu hennar. Þá er líka mikilvægt að skilja að ekki má leggja allar dómsdagsspár að jöfnu,“ segir Guðni og bætir við að bókmenntafræðin geti líka hjálpað okkur að skilja hvernig almenningur og vísindamenn tala um loftslagsbreytingar. „Við byggjum upp vonir, væntingar og ótta inn í frásagnir. Og allt þar á milli. Bókmenntafræðingar geta lesið í þessa texta.“
Þá segir Guðni að einnig sé mikilvægt að við áttum okkur á því að öll loftslagsumræðan sé með einum eða öðrum hætti sveigð inn í fyrirframgefna frásagnarstrúktúra sem hafi svo áhrif á það hvernig við lítum til þessa málaflokks. Loftslagsbreytingar eru ekki texti, en við þurfum að færa þessar breytingar í orð til þess að skilja þær og þá geta komið upp skekkjur af ýmsum toga. „Og svona frásagnarformgerðir geta líka stýrt tregðunni til að bregðast við vandanum. Það heyrist oft í umræðunni að mannlífið hafi aldrei verið betra en þá er mikilvægt að hafa það í huga að blind framfaratrú er ekki síður hættuleg en innantómar dómsdagsspár. Það hefur aldrei gerst í mannkynssögunni að það sem fari upp komi ekki aftur niður. Þannig að bókmenntafræðin er afskaplega mikilvægt tæki til að greina ákveðna hefðbundna frásagnarstrúktúra sem geta legið undir umræðunni allri,“ segir Guðni.
Við erum þetta vaxtarræktartröll
Guðni segir að það eigi að lýsa yfir neyðarástandi en því verði að fylgja einhver hugur. Hann lýsir því sem svo að ef brunabjöllur byrji að hringja en enginn fari út úr byggingunni sé lítið gagn í bjöllunum. Því verðum við að takast á við það augljósa neyðarástand sem er í gangi og bregðast við því á skynsamlegan máta. „Neysla hefur aldrei verið meiri í heiminum en einmitt núna og Asíumarkaðirnir tútna núna út í ofanálag. Í gamla daga var ég með mynd af stóru vaxtarræktartrölli á glærunum mínum og sagði að svona liti vestrænn efnahagur út. En svo bætti ég við að hægt væri að ímynda sér hvernig hjarta- og æðakerfið í þessum manni væri, hvað hann hefði gert til þess að ná þessum „árangri“. Svo dó hann og ég gat ekki notað glæruna lengur. Hann var þá á miðjum aldri. Við erum eins og þetta vaxtarræktartröll. Við erum mössuð og lítum alveg „hrikalega“ út, en það er vegna þess að við erum búin að pumpa okkur upp af alls konar sterum sem eiga eftir að gera út af við okkur ef við endurskoðum ekki hvert við stefnum. Kerfið sem heldur öllu þessu uppi er að hruni komið og það má sjá ótal vísbendingar um það,“ segir Guðni.
Ábyrgð á ykkar herðum sem á ekki að vera þar
Blaðamenn Stúdentablaðsins spurðu Guðna út í föstudagsmótmælin og skoðun hans á að ungmenni séu að skrópa í skólann til að mæta á þau. Guðni telur dapurlegt að ungmenni þurfi að stíga inn vegna aðgerðaleysis fullorðna fólksins. „Biskupinn okkar talaði um siðrof nú á dögunum þegar hún ræddi vaxandi guðleysi í samfélaginu. Hún var réttilega gagnrýnd fyrir orðavalið, en það má nota orðið til þess að greina það hvernig mín kynslóð og kynslóðirnar þar á undan yfirgáfu í raun yngri kynslóðirnar. Þetta er arðrán í dýpsta skilningi orðsins því að við erum að svipta komandi kynslóðir tilveruréttinum. Þetta er kynslóðaarðrán og við höfum varpað ábyrgð á ykkar herðar sem þið eigið ekki að þurfa að bera. Við erum slegin siðferðilegri blindu og dómur sögunnar yfir þeim kynslóðum sem hér bera ábyrgðina verður þungur,“ segir Guðni. Hann bætir við að honum finnist hugarfarsbreytingarnar sem orðið hafa vegna aðgerða ungmenna í raun ótrúlegar. En vandinn sé sá að slíkar aðgerðir hefðu átt að gerast 15-20 árum fyrr. „Þetta er þó í fyrsta skipti í fimmtán ár sem ég hef einhverja von um að það komi einhverjar breytingar,“ segir Guðni.
Er of seint að grípa til aðgerða?
Guðni segir að við verðum að taka mark á hættunni en við megum ekki láta stöðuna buga okkur. Aðgerðaleysi síðustu þriggja áratuga hefur þegar kallað yfir okkur alls kyns hörmungar í framtíðinni, en staðan mun aðeins versna með hverju ári sem líður. „Það er hættulegt að setja einhver tímamörk á aðgerðir, en tíminn sem við höfum til þess að búa unga fólkinu og komandi kynslóðum sómasamlega framtíð styttist stöðugt. En jafnvel þótt við séum búin að glata mörgu eigum við að bretta upp ermarnar og kafa djúpt í allar lausnir,“ segir Guðni. Hann bendir einnig á að til þess að áhrifaríkar breytingar geti átt sér stað þurfi róttækar leiðir sem muni hafa áhrif á lífsstíl okkar. Slíkt er ekki hægt án viðhorfsbreytingar og fyrsta breytingin verður að vera sú að hafna afneitunarorðræðunni og senda skýr skilaboð til þeirra sem stunda hana.