Við óskum þér finnskra jóla: Tvær uppskriftir til að gera veturinn aðeins huggulegri
Þýðing: Bergrún Andradóttir
Sofia Hartikainen er frá Finnlandi og stundar nám við Háskóla Íslands. Hún kom til þess að læra íslensku í eitt ár, og við vorum meðleigjendur á Stúdentagörðunum þangað til ég flutti. Auk persónuleika síns hafði hún meðferðis magnaða baksturshæfileika, rétt eftir að töfrar súrdeigsbrauðsins voru uppgötvaðir hér á landi.
Talandi um töfra, þá eru jólin á næsta leiti og því höfum við ákveðið að færa ykkur smá smakk af hvernig Finnar halda upp á Joulu (jólin). Meðfylgjandi eru tvær uppskriftir með finnsku ívafi.
Jólin eru ekki bara gjafir og ljós; það verður að finna lykt og bragð af jólum. Þegar kemur að því að halda upp á jólin að norrænum sið eru piparkökur því ómissandi. Hér höfum við uppskrift frá ömmu Liisu.
Piparkökurnar hennar ömmu (Mummon joulupiparit)
150 ml gyllt síróp
200 gr sykur
250 gr brætt smjör
2 tsk malaður kanill
1 tsk malað engifer
2 tsk malaður negull
1 msk niðurrifinn appelsínubörkur
2 egg
3 tsk matarsódi
½ kg hveiti
Setjið síróp, sykur, brætt smjör, krydd og appelsínubörk í pott.
Hitið að suðu og hrærið vel.
Fjarlægið frá hita og látið blönduna kólna.
Bætið eggjum við kældu blönduna og hrærið vel.
Hrærið hveiti og matarsóda saman við svo úr verði deig.
Hyljið deigið og setjið í kæli yfir nótt.
Hitið ofninn í 200°C og setjið bökunarpappír á ofnplötu.
Fletjið deigið svo það verði þunnt.
Skerið kökurnar í form sem ykkur líkar.
Bakið í 5-8 mínútur.
Hvernig væri veturinn án heitra ilmandi drykkja? Hérna eru tvær útgáfur af finnsku glöggi, uppáhald margra fullorðinna og barna! (Ekki hafa áhyggjur, í Finnlandi eru bæði áfengar og óáfengar útgáfur.)
Jólaglögg (Talviglögi)
2 kanilstangir
2 stjörnuanísbelgir
10 heilir negulnaglar
Örlítið af fersku engifer
3 strimlar af appelsínuberki
200 gr sykur
300 ml sólberjasafi
750 ml vatn (fyrir áfenga útgáfu: ein flaska af rauðvíni og hægt er að bæta við vodka eða koníaki fyrir sterkari útgáfu.)
„Jólin í Finnlandi geta verið frekar þunglyndisleg. Við förum í kirkjugarðinn, svo borðum við hádegis- eða kvöldmat með fjölskyldu og ættingjum,“ segir Sofia. Kemur það á óvart að Finnar ríði ekki hreindýrum að Rovaniemi til þess að hjálpa jólasveininum (Joulupukki) að pakka inn gjöfum?
Óáfeng útgáfa
Setjið kanilstangir, stjörnuanís, negul, engifer, appelsínubörk og vatn í pott.
Hitið á vægum hita og bætið við sykri og safa. Hrærið vel.
Hitið þar til blandan er nálægt suðu.
Sigtið krydd í burtu.
Skreytið með kanilstöngum og stjörnuanís og berið fram.
Áfeng útgáfa
Setjið kanilstangir, stjörnuanís, negul, engifer og appelsínubörk í pott.
Bætið við sykri og safa.
Hitið blönduna þar til hún er orðin þykk, eins og síróp (sirka 10 mínútur).
Fjarlægið pottinn af hitanum, bætið við víni og hrærið vel.
Sigtið blönduna til að fjarlægja kryddin.
Skreytið með kanilstöngum og stjörnuanís og berið fram.
„Í Finnlandi fara allir í sánu á jóladag. Það er eiginlega skylda,“ bætir Sofia við. Það er erfiðara að fylgja þeirri hefð á Íslandi, en ef þið eruð svo heppin að hafa aðgang að sánu gætuð þið prófað að halda upp á jólin að finnskum sið!