2. sæti í Smásagnasamkeppni Stúdentablaðsins: Fjársjóðsleit hugans

Stúdentablaðið efndi til smásagnasamkeppni fyrir fyrsta tölublað skólaársins. Sögurnar áttu að vera 300-600 orð og þurftu að tengjast þemanu „Þrautseigja á óvissutímum“ á einn eða annan hátt. Dómararnir voru Birnir Jón Sigurðsson, sviðshöfundur og rithöfundur, Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur og bókavörður, og Matthías Tryggvi Haraldsson, leikskáld Borgarleikhússins 2020-2021.

„Fjársjóðsleit hugans“ eftir Maríu Ramos lenti í 2. sæti. Stúdentablaðið óskar Maríu hjartanlega til hamingju.

Fjársjóðsleit hugans

-María Ramos

Í gær var flóð.
Sjórinn gleypti hjólreiðamann á göngustíg. Það var rauð viðvörun og þið settuð gangstéttarhellur ofan á ruslatunnurnar. Um morguninn gekkstu upp götuna og taldir trén sem höfðu rifnað upp með rótum. Eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex... Þú komst ekki lengra. Vindurinn feykti þér aftur heim. 

Í dag er lægð. 

Rigningin bankar á gluggann og þú manst ekki hvenær þú fórst síðast í sturtu. Til hvers? Það bankar enginn á gluggann nema rigningin. Þú lokar augunum, ferð inn í þig. Kjarnar þig. Stundum er alltof auðvelt að gleyma sér og týnast á milli dropanna. 

Í kvöld er myrkur. 

Þig langar að spila en hann nennir því ekki. „Þú vilt aldrei spila við mig,“ segirðu og horfir biðjandi augum á hann. Hann gefst upp og þú byrjar að stokka. Þú hvíslar í eyra hans: „Kveiktu á kertum og settu plötu á fóninn,“. 

Hann sækir tvo bjóra og þú hækkar í ofninum. Þegar þú ert búin að vinna vill hann ekki spila meira. Hann vill aldrei spila aftur nema hann vinni sjálfur. Þess vegna nennir hann aldrei að spila. 

Á morgun verður þurrt. 

Hvaðan kom þessi skyndilega þráhyggja fyrir því að gera upp gömul húsgögn? Endurfæðist lífsviljinn með hverri mublu sem þú málar? Hvað ætlarðu að gera þegar það verða engin fleiri húsgögn sem þarfnast endurnýjunar? Ætlarðu að byrja á því að rífa niður veggi? Kannski burðarveggi svo allt hrynji niður í kringum þig, einungis svo þú fáir að byggja það upp aftur? 

Um haustið falla laufin af trjánum.  

Þú týndist í vor. Kúventist um í sjálfsvorkunn og doða. En einn daginn leistu upp. Þú taldir skýin á himninum og sást í gegnum þau. Þau voru ekki eins yfirþyrmandi og þig minnti. Þarna var ský sem var eins og kanína, annað sem leit út eins og dreki. Breytingin varð ekki á augabragði. Þú fannst engan skarpan mun á sjálfri þér frá því daginn áður. En þegar þú lítur til baka þá veistu að það voru ekki húsgögnin sem hjálpuðu þér. Ekki heldur rigningin eða samverustundir við kertaljós. Bara þú sjálf. 

Hvað gerist næst?

Á skrifborðinu liggur fjársjóðskort með stóru x-i í miðjunni. Þegar hann spyr þig hvað þú hafir gert í dag snýrðu blaðinu við og yppir öxlum. Þetta er fjársjóðurinn þinn, leyndarmálið þitt. 

MenningRitstjórn