1. sæti í Smásagnasamkeppni Stúdentablaðsins: Verkvit á tímum kólerunnar
Stúdentablaðið efndi til smásagnasamkeppni fyrir fyrsta tölublað skólaársins. Sögurnar áttu að vera 300-600 orð og þurftu að tengjast þemanu „Þrautseigja á óvissutímum“ á einn eða annan hátt. Smásagan „ Verkvit á tímum kólerunnar “ eftir Magnús Jochum Pálsson bar sigur úr býtum og hlýtur höfundurinn kaffikort í Hámu, gjafabréf á Stúdentakjallarann, tvö þriggja skipta kort í Tjarnarbíó og afleggjara frá ritstjóra Stúdentablaðsins. Dómararnir voru Birnir Jón Sigurðsson, sviðshöfundur og rithöfundur, Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur og bókavörður, og Matthías Tryggvi Haraldsson, leikskáld Borgarleikhússins 2020-2021.
Stúdentablaðið óskar Magnúsi innilega til hamingju!
Verkvit á tímum kólerunnar
- Magnús Jochum Pálsson
Ástandið hefur aldrei verið eins slæmt. Svo segja yfirmenn mínir. Nú þurfa allir að leggja sitt á vogarskálarnar. Því hefur stofnunin innleitt nýtt eftirlitskerfi til að hámarka afköst. Starfsmenn fá vikulegan verkefnaskammt sem þeir verða að klára fyrir vikulok þegar eftirlitsmaðurinn kemur í heimsókn.
Ég held varla í við þessa vikuskammta þeirra. Samt hef ég aldrei unnið jafn mikið og undanfarinn mánuð. Ég vakna við sólarupprás, borða grautinn minn og fer svo út að vinna. Dagurinn fer í að moka mold. Ég moka og moka þar til myrkrið skellur á. Þá hætti ég mokstrinum en held áfram að vinna. Fylli grafirnar með eins mörgum hjólbörum og ég megna að bera áður en ég örmagnast.
Sendingarnar eru hættar að berast mér í svörtum bílum. Nú koma hvítir sendiferðabílar með þær og sturta þeim við enda garðsins. Í síðustu viku ávítti eftirlitsmaðurinn mig. Þriðju vikuna í röð. Hann sagði að ég gæti ekki skilið við líkamsparta svona á víð og dreif. Bæði er mikil smithætta af þeim og svo er óþefurinn yfirgengilegur. Það verður að koma þeim jafnóðum í mold. Hann skilur ekki að það er hvorki auðvelt né skemmtilegt að skrönglast í myrkrinu með barmafullar hjólbörur af rotnandi líkamspörtum.
Klukkan er tólf. Ég á eftir að grafa meira en sextíu grafir og eftirlitsmaðurinn kemur í fyrramálið. Það er ómögulegt að koma öllum þessum skrokkum í jörðina fyrir morgundaginn. Ég neyðist til þess að fela þá á meðan hann er í heimsókn. Sem betur fer veit ég um fullkominn felustað. Inni í miðjum kirkjugarðinum er stórt rjóður sem enginn veit af. Þar get ég geymt líkin þangað til mér dettur í hug betri lausn.
Átta vikur eru liðnar frá því ég faldi fyrstu líkin. Síðan þá hef ég farið með hvern einasta skrokk sem mér hefur borist í rjóðrið. Fyrstu vikurnar var eftirlitsmaðurinn gríðarlega ánægður með mig en ég er hræddur um að hann sé farinn að gruna eitthvað.
Í síðustu heimsókn spurði hann mig ítrekað hvernig ég færi eiginlega að þessu, hvernig mér tækist að viðhalda sama hraða þó svo að skammtarnir væru orðnir tvöfalt stærri. Ég yppti öxlum og nefndi aukna skilvirkni. Hann trúði mér ekki, ég sá það á honum. Skiljanlega vakna grunsemdir þegar nályktin er orðin jafn óbærileg og raun ber vitni.
Þessa dagana sef ég ekkert. Þegar ég leggst á koddann finnst mér ég alltaf heyra í einhverjum læðast um garðinn. Í gær heyrði ég þrusk nálægt rjóðrinu og fór að kanna málið. Þar sá ég dökkklæddann mann sem leit út eins og eftirlitsmaðurinn að aftan. Í geðshræringu minni hóf ég skófluna á loft og barði hann af öllu afli í hnakkann. Hins vegar var þetta ekki eftirlitsmaðurinn heldur grafræningi sem ég hef rekist á nokkrum sinnum hér í garðinum. Ég fann ekki neinn hjartslátt svo ég henti honum inn í rjóðrið.
Eftirlitsmaðurinn er á leiðinni til mín með lið manna. Hann segist ætla að fara yfir kirkjugarðinn gröf fyrir gröf til að athuga stöðuna á plássinu. Það er ekki satt. Hann vill komast að því hvað ég gerði og afhjúpa mig. En ég er tilbúinn og bíð hans. Í nótt eyddi ég restinni af sparnaðinum mínum í bensín sem ég er búinn að hella yfir kjötfjallið í rjóðrinu.
Nú stöndum við saman og horfum á eldtungurnar sleikja himininn á meðan lyktin af grilluðu kjöti fyllir vit okkar.