3. sæti í Smásagnasamkeppni Stúdentablaðsins: Sautjánhundruð, góðan dag
Stúdentablaðið efndi til smásagnasamkeppni fyrir fyrsta tölublað skólaársins. Sögurnar áttu að vera 300-600 orð og þurftu að tengjast þemanu „Þrautseigja á óvissutímum“ á einn eða annan hátt. Dómararnir voru Birnir Jón Sigurðsson, sviðshöfundur og rithöfundur, Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur og bókavörður, og Matthías Tryggvi Haraldsson, leikskáld Borgarleikhússins 2020-2021.
Í 3. sæti var sagan „Sautjánhundruð, góðan dag“ eftir Hörpu Dís Hákonardóttur. Stúdentablaðið óskar Hörpu hjartanlega til hamingju.
Sautjánhundruð, góðan dag
- Harpa Dís Hákonardóttir
Hún tók rétta ákvörðun. Hún fylgdi verkferlunum. Hún gerði allt eins og hún átti að gera. Röddin ómaði samt ennþá í höfði hennar. Nýtt símanúmer birtist á tölvuskjánum og beið þess að hún svaraði. Hún hunsaði númerið, tók af sér handfrjálsa búnaðinn og gekk inn á kaffistofu. Klukkan var rétt að ganga ellefu og hún var þegar komin á þriðja drykk, heil klukkustund í hádegismat. Það var eitthvað róandi við að hlusta á malið í hraðsuðukatlinum. Hún varð að reyna að ná röddinni úr höfðinu. „Það var maður sem hóstaði á mig í búðinni,“ hafði röddin sagt, vildi komast í sýnatöku strax sama dag. Hún hafði spurt rólega hvort röddin fyndi fyrir einkennum. „Nei.“ Enginn hiti, enginn hósti, engir erfiðleikar með andardrátt. Hún vildi vita hvenær atvikið í búðinni hefði átt sér stað. „Fyrir klukkutíma.“
Hraðsuðuketillinn var búinn með sitt, um leið og hann þagnaði heyrðist í símanum hringja inni á skrifstofunni. Hún leiddi það hjá sér, reyndi að ná tökum á röddinni í höfðinu. Dreifa huganum. Bara eitthvað til þess að losna við röddina. Hún tók tepokann úr bréfinu og lagði hann í brennheitt vatnið. Kippti honum upp og lét hann síga niður til skiptis. Ásökunnartónninn þótti henni verstur. „Ætlar þú að bera ábyrgð á nýju smiti,“ hafði röddin sagt. „Veistu hvað eitt smit leiðir af sér mörg til viðbótar? Gengur starfið þitt ekki út á að hjálpa fólki?“
Hún leit út um gluggann, horfði á bíl leggja í stæði við bygginguna á móti. Himininn var heiður þennan dag og vindurinn mildur, hún fann það inn um opinn gluggann. Hún vissi að Binna á borðinu við hliðina á henni myndi segja; leiddu þetta hjá þér, fólk er kvíðið yfir ástandinu. Svana á borðinu á móti kæmi með uppörvandi dæmisögu, enda hokin af reynslu og hún sjálf myndi segja við sig; þú ert bara að sinna þínu starfi, ekki taka þessu persónulega.
„Ég veit að ég er með Covid, þú heyrðir ekki hvernig þessi maður hóstaði,“ röddin lýsti atvikinu í búðinni fimm sinnum og hún hafði haldið í verkferlana sína, talað um einkennin, talað um tímann og talað um lykilinn í sóttvörnum almennings. Hvorki hún né röddin hinu megin við línuna voru sáttar þegar símtalið endaði. Tepokinn hafði litað tevatnið, hún dró djúpt andann og gekk aftur inn á skrifstofu, síminn pípti lágt en örugglega.