5 bækur til að lesa í haust

Nú er haustsins grámi formlega tekinn við af sólríku sumrinu og dagarnir farnir að styttast töluvert. Þá er upplagt að finna góða leið að dægrastyttingum, bæði í takt við veðráttu og ástandið í samfélaginu. Líkt og bókmenntafræðinema sæmir finnst mér lestur góður kostur til slíkra dægrastyttinga. Þess vegna mæli ég með fimm bókum sem ég tel fullkomnar til lesturs að hausti.

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur:

Þetta er allra uppáhaldsbókin mín og ég tala um hana í tíma og ótíma. Steinunn Sigurðardóttir lýsir lífi Öldu Ívarsen, miðaldra tungumálakennara við Menntaskólann í Reykjavík, á ljóðrænan og einstakan hátt. Alda er í góðri fjárhagslegri stöðu þökk sé foreldrum sínum og lifir góðu lífi í fyrrum húsakynnum þeirra í vesturbæ Reykjavíkur. Hún hefur alltaf verið sjálfstæð og kærir sig lítið um almenningsálit þar til einn daginn rambar hún á ástina sem umturnar lífi hennar að eilífu. 

Kannski er það af því að sagan hefst á skólasetningu MR að hausti að mér finnst hún svona kjörinn lestur á þessum árstíma. Ég hef lagt það í vana minn að lesa þessa bók á hverju hausti og ég mæli með að þú gerir slíkt hið sama.

10,5/1,5 eftir Viktoríu Blöndal:

Ég hef mjög gaman af ljóðum og les mikið af þeim. Ljóðabókin 10,5/1,5 kom út í sumar og fannst mér þá kjörið að lesa hana nú þegar hún er tiltölulega nýkomin á markaðinn. Ljóðabókin er fyrsta bók höfundar og samanstendur einna helst af ljóðum og stuttum textum um hversdagsleikann. Ritstíll Viktoríu er ferskur, raunsær og fyndin sem gerir það að verkum að samtíminn er settur í skemmtilegt samhengi í textanum. Hún tvínónar ekki við hlutina í frásögnum sínum og ég efast ekki um að flest nái að tengja við einhver ljóð bókarinnar. 

Karítas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur: 

Í þessari sögu er sagt frá ævi Karítasar Jónsdóttur, ungrar konu á fyrrihluta 20. aldar. Karítas á erfitt uppdráttar, faðir hennar deyr ungur og móðir hennar berst mjög hart að því að koma öllum sínum börnum til menntunar. Við fylgjum Karítas í gegnum erfið tímabil í lífi hennar sem litast af sorg, örvæntingu og missi en einnig af hamingju og ást. Þá fá lesendur verksins einnig innsýn í stöðu og hlutskipti kvenna á Íslandi á árum áður. Karítas er mörgum kostum gædd og er hæfileiki hennar á sviði myndlistar einn af þeim. Hún upplifir mikla togstreitu á milli þess sem skiptir hana mestu máli, þ.e. ástarinnar og listarinnar. 

Þessi bók er ótrúlega áhugaverð og mér þótti mjög vænt um að fá svo hreinskilna og góða innsýn í líf íslenskra kvenna á þessum tíma. Þrátt fyrir að Karítas hafi verið uppi fyrir um það bil hundrað árum fannst mér ég skilja og jafnvel tengja við margt sem hún var að ganga í gegnum.

Pride and Prejudice eftir Jane Austen:

Ég verð alltaf svolítið rómantísk í mér á haustin. Til að uppfylla ástarþrána sem býr í mér þegar trjálaufin visna finnst mér klassískar og jafnframt mjög dramatískar umfjallanir um ástina henta sérstaklega vel. Þess vegna mæli ég með sögunni um Elizabeth Bennet, breska sveitalífið snemma á 19. öld og togstreituna um hvort skuli ganga í hjónaband vegna ástarinnar eða fjárhags. 

Eitt helsta deilumál lesenda verksins er hvort að Mr. Darcy sé algjör auli eða misskilin persóna, og það er komin tími til að finna endanlega niðurstöðu í því máli. 

Kláði eftir Fríðu Ísberg:

Sögurnar í smásagnasafni Fríðu eru sjálfstæðar frásagnir ólíkra persóna í samtímanum. Ritstíllinn er einfaldur en fallegur og auðvelt er að hrífast með frásögninni frá byrjun. Það eina sem allar persónur sagnanna eiga sameiginlegt er að finna fyrir einhverskonar óþægindum eða kláða undan kröfum og væntingum samfélagsins. Það er fullkomið að grípa þessa bók og lesa eina smásögu þegar þörf er á að hvíla námsbækurnar í örskamma stund. 

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

MenningKatla Ársælsdóttir