Gulleggið 2020: Á þín hugmynd heima í raunveruleikanum?
Sagt er að öll hafi einhvern tímann á ævinni fengið milljón dollara hugmynd. Það er misjafnt hvort að fólk taki undir það eða ekki, en fyrir þau sem vilja skoða hvort þeirra hugdettur geti orðið að veruleika, þá er þáttaka í Gullegginu kjörið „fyrsta skref“.
Keppnin hefur verið haldin árlega síðan árið 2008, og var þá fyrsti formlegi vettvangur sem studdi við frumkvöðlastarfsemi innan veggja háskólanna, auk þess að vera opin utanaðkomandi aðilum. Hún var mikilvægur þáttur í að stuðla að því lifandi samfélagi sem er til staðar í dag fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á Íslandi. Einnig er í boði að sækja um þátttöku án hugmyndar og eiga kost á að verða sett í teymi með öðrum í keppninni, en sú leið er sívinsælli með árunum.
Þátttakendum bjóðast þrjár vinnusmiðjur á netinu, þar sem þeir hafa tækifæri á að læra um mótun viðskiptahugmynda með hjálp helstu sérfræðinga landsins úr röðum reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra stjórnenda. Í vinnusmiðjunum er farið yfir það helsta hvað varðar mótun hugmynda og stofnun fyrirtækja, áætlanagerð, hönnun og markaðsmál, hagnýt tæki og tól, undirbúning fyrir fjárfestakynningar og ýmislegt annað gagnlegt.
Að vinnusmiðjunum loknum geta teymin sent viðskiptahugmyndir sínar í keppnina sjálfa þar sem þær fara í yfirlestur hjá rýnihópi. Tíu stigahæstu hugmyndirnar keppa síðan til verðlauna frammi fyrir dómnefnd keppninnar. Það hefur þótt mikil viðurkenning að lenda í tíu efstu sætum keppninnar sem fer nú fram í fjórtánda sinn. Ýmis flott fyrirtæki hafa orðið til fyrir tilstilli Gulleggsins, þar má nefna fyrirtæki á borð við Meniga, Controlant og Pay Analytics sem öll hafa náð eftirtektarverðum árangri í starfsemi sinni.
Þau tíu teymi sem kepptu til úrslita í Gullegginu árið 2020 eru eftirtalin:
Electra: Electra veitir áfengis- og vímuefnasjúklingum sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi bætta þjónustu með tilkomu hugbúnaðar.
Eno: Eno gerir notendum kleift að tengja gögn við gagnagrunn og nálgast þau á einfaldan hátt í Excel með notendaauðkenningu.
Frosti: Matvælin Frosti innihalda frostþurrkaðar, lífrænar og laktósafríar skyrflögur með íslenskri blárri spírulínu.
Hemp Pack: Með því að nýta iðnaðarhamp og örverur mun Hemp Pack framleiða lífplast sem brotnar alveg niður í íslenskri náttúru.
Heima: Heima er smáforrit sem skiptir húsverkum og huglægri byrgði heimilishalds jafnt á milli sambýlinga.
Kinder: Kinder er leikjavæddur vettvangur þar sem öll geta sótt sér verkefni í sínu nærumhverfi og unnið þau í skiptum fyrir umbun frá sveitarfélaginu.
Máltíð: Máltíð þróar næringarútreiknaða matseðla fyrir grunnskóla með það markmið að minnka matarsóun.
Orkulauf: Orkulauf er snjallsímaforrit sem hvetur notendur sína til að tileinka sér umhverfisvænni og sjálfbærari lífsstíl.
Showdeck: Showdeck er miðlægur vefvangur til framleiðslu og varðveislu á sviðslistaverkum og viðburðum á heimsvísu.
Your Global Guide: Your Global Guide er rafræn leiðsögulausn fyrir snjalltæki sem hámarkar upplifun ferðamanna og hagnað ferðaþjónustufyrirtækja.
Eftir að efstu tíu liðin eru valin er þeim boðið í síðustu tvær vinnusmiðjurnar, þar sem enn frekari aðstoð er veitt við mótun hugmynda. Að þeim loknum kemur að lokadeginum, þar sem sigurvegarinn er valinn. Þetta ár setti sitt strik á lokahóf Gulleggsins, en vegna þeirra sóttvarnarreglna sem settar voru þann 5. október var ákveðið að halda lokahófið á netinu, líkt og allar vinnusmiðjur þetta árið. Þau voru ekki síðri hátíðarhöldin, en meðal þeirra sem fóru með ávarp voru Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, Edit Ómarsdóttir, verkefnastjóri Gulleggsins og Salóme Guðmundsdóttir, forstöðukona Icelandic Start Up. Teymin höfðu hvert eina mínútu til að halda lokakynningu á hugmynd sinni fyrir dómnefnd, sem hafði svo það erfiða verkefni að ákveða hverjar þeirra þóttu skara fram úr. Það var enginn önnur en Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem tilkynnti efstu þrjú sætin:
Heima
Hemp Pack
Frosti
Auk þess voru veitt sérverðlaun. Hemp Pack unnu samtalsleit einkaleyfa hjá Hugverkastofu, 8 stunda ráðgjöf hjá Össuri og 20 klukkustunda ráðgjöf hjá KPMG. Frosti unnu 10 klukkustunda ráðgjöf hjá Advel lögmönnum. Við óskum öllum teymum innilega til hamingju, og hlökkum til að sjá hugmyndirnar verða að veruleika í íslensku samfélagi. Að sama skapi hvetjum við öll til að vera vakandi fyrir Gullegginu á næsta ári og prófa að taka þátt sjálf, það kostar ekkert og reynslan er ómetanleg!