Anna og Karitas kynna leikárið 2020-2021
Það eru eflaust mörg fegin því að leikhúsin séu að opna dyr sínar á ný eftir margra vikna lokun vegna samkomutakmarkanna. Það erum við allavega, og fannst þess vegna tilvalið að varpa öndinni með því að kynna fyrir sviðslistarþyrstum samnemendum okkar það sem verður á boðstólum í vetur. Sumt sem var ekki hægt að sýna í vor kemst á fjalirnar í haust og þ.a.l. er ekki hægt að sleppa því að nefna sýningar á borð við 9 líf og Kópavogskróniku, sem hafa þurft að vera á bið frá í mars. Við viljum einnig benda á ungmennakort leikhúsanna fyrir 25 ára og yngri, þá er um að ræða 50% afslátt á 3-4 sýningar. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðum leikhúsanna! Við vonum að leikárið verði ánægjulegt öllum leikhúsunnendum og kynnum með stolti leikárið 2020-2021.
Borgarleikhúsið
Kvöldstund með listamanni
Í ljósi sögunnar með Veru Illuga (13., 14. og 20. febrúar)
Fílalag með Bergi Ebba og Snorra Helga (21. október, 11. nóvember og 2. desember)
Milda hjartað með Jónasi Sig
Útlendingurinn - Frumsýnd 2. október
Árið 1970 fannst kvenmannslík í Ísdal rétt fyrir utan Bergen í Noregi. Konan var alls ekki búin til útivistar og í farangri hennar fundust meðal annars hárkollur og ýmis dulargervi. Við eftirgrennslu lögreglu kom í ljós að konan hafði ferðast vítt og breitt um Evrópu á fölsuðum skilríkjum, en hvorki tókst að upplýsa hver hún var, hvaðan hún kom né hvað í ósköpunum hún var að gera í Bergen. Þegar sviðslistamaðurinn Friðgeir flyst til Bergen heillast hann af ráðgátunni og sannfærist um að geta leyst hana, þrátt fyrir að vera hvorki lögreglumaður né hafa reynslu af slíkum störfum. Getur Friðgeir leyst gátuna?
Veisla - Væntanleg í október
Á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir komst þjóðin ekki í neina veislu og er því veisluþyrst! Hugsa sér öll afmælin sem enginn gat mætt í, árshátíðirnar, útskriftarveislurnar, brúðkaupin og matarboðin. Þá eru ótalin trúnóin við hálfókunnugar konur, slúður um valdamikið fólk, hátt spiluð lög og grillaðar pylsur á miðnætti sem enginn fékk að njóta. Þjóðin á inni í gleðibankanum og Veisla er kærkomin vökvun eftir langa þurrð.
Orlandó - Frumsýnd 30. desember
Orlandó er glæsilegur og töfrandi aðalsmaður sem lifir ævintýralegu lífi. Hann er elskhugi Elísabetar I Englandsdrottningar, heillar konur, upplifir sögulega viðburði, ferðast um heiminn og sukkar og svallar. En kvöld eitt í Konstantínópel þegar Orlandó er rúmlega þrítugur að aldri, leggst hann til svefns og vaknar sem kona. Meðan heimurinn í kringum hana tekur stöðugum breytingum, aldirnar líða og tuttugasta öldin rennur upp, þarf Orlandó ekki einungis að aðlagast nýjum heimi heldur einnig nýju kyni og kynhlutverki með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.
9 líf - Væntanleg í október
Bubbi Morthens er samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum birtingarmyndum: Stjarnan sem rís úr slorinu; málsvari verkalýðsins, alþýðusöngvari þjóðarinnar, atómpönkari og gúanórokkari sem breytist í ballöðu-poppara sem syngur með stórsveitum. Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkillinn, kvennamaðurinn, friðarsinninn og boxarinn. Sögur Bubba Morthens eru sögur okkar allra; sögur Íslands. En hver er hann í raun og veru? Og hver erum við?
Þjóðleikhúsið
Framúrskarandi vinkona - Væntanleg í nóvember
Slegið verður upp ítalskri leikhúsveislu á Stóra sviðinu, þar sem leikhúsgestir geta notið þess að sjá allar sögurnar öðlast líf í uppfærslu með mörgum af fremstu listamönnum þjóðarinnar. Áhrifarík saga um djúpa en flókna vináttu, heitar ástir, afbrýðisemi, sárar fórnir, æðruleysi, örvæntingu og baráttu fyrir tilverurétti. Öllu verður tjaldað til við uppsetninguna á þessari mögnuðu sögu. Hér er sannkölluð stórsýning í vændum!
Kardemommubærinn - Frumsýnd í september
Kardemommubær er yndislegur bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. Þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum: þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka! Þegar ræningjarnir fá þá hugdettu að ræna sjálfri Soffíu frænku til að sjá um húsverkin fyrir sig færist heldur betur fjör í leikinn. Kardemommubærinn var fyrst sýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1960 og er nú settur á svið í sjötta sinn. Hver kynslóð verður að fá að kynnast töfraheimi Thorbjörns Egner!
Kópavogskrónika - Frumsýnd í september
Í Kópavogskróniku gerir ung, einstæð móðir upp fortíð sína. Óvenjulega opinskátt verk um samband móður og dóttur, þar sem móðir segir dóttur sögu sína og lýsir hispurslaust samskiptum við karlmenn og sukksömu og hömlulausu líferni. Frásögnin er kjaftfor, kaldhæðin, átakanleg og hjartaskerandi, en um leið fyndin og frelsandi.
Ásta - Frumsýnd í janúar
Hin dulúðuga listakona Ásta Sigurðardóttir var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndlist hennar og ritverk vöktu aðdáun en líka hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs þessarar hæfileikaríku en breysku konu og höfundarverks hennar óljós. Ásta hikaði ekki við að ögra ríkjandi viðhorfum og fylgja kalli hjarta síns, en brenndi kertið í báða enda og féll frá langt fyrir aldur fram. En saga Ástu er líka saga um vonir, langanir og drauma sem enn geta ræst. Í þessu nýja verki er svipmyndum af Ástu og skáldskap hennar fléttað saman.
Sjö ævintýri um skömm - Frumsýnd í apríl
Eftir að hafa verið rekin úr lögreglunni ákveður Agla að reyna að ná stjórn á lífi sínu. Hún ryðst inn á stofu geðlæknis og krefst þess að hann skrifi upp á lyf sem nái að svæfa hana í þrjá sólarhringa. Geðlæknirinn vill ekki verða við þessari ósk Öglu en segir henni hinsvegar frá kenningu sinni um að sjö ævintýri um skömm liggi að baki allri geðveiki. Agla þarf því að rekja þessi ævintýri sem stjórna lífi hennar til að ná bata.
Hádegisleikhúsið, Þjóðleikhúskjallarinn og Loftið
Þjóðleikhúsið verður ekki bara með sýningar á Stóra sviði leikhússins heldur verður nóg um að vera í Kassanum, Kúlunni, Þjóðleikhúskjallaranum og á Loftinu. Við bendum líka á nýjungina Hádegisleikhúsið.
Tjarnarbíó
Die Schöne Müllerin - Frumsýnd í ágúst
Die schöne Müllerin (Malarastúlkan fagra) er einn ástsælasti ljóðaflokkur heimsbókmenntanna og tónlist Franz Schuberts við ljóðið er með fegurstu perlum klassískrar tónlistar. Saklaus malaradrengur verður ásfanginn af malarastúlkunni fögru og tilvera hans riðar til falls, náttúran snýst gegn honum og hann týnir sjálfum sér. Í túlkun Sveins Dúu Hjörleifssonar tenórs og leikstjórans Grétu Kristínar Ómarsdóttur er verkið skoðað í öðru ljósi sjálfsuppgötvunnar, kyntjáningar og húmors fyrir óreiðu tilverunnar.
Tréð - Frumsýnd í september
Sítrónutréð hans Ara hefur glatað garðinum sínum og hann þarf að hjálpa því að finna nýtt heimili áður en það visnar upp. Ari leggur því í langt ferðalag og lendir í ýmsum hrakförum við að reyna að bjarga litla trénu sínu. Þessi 45 mínútna barnasýning fjallar á myndrænan hátt um veruleika og stöðu flóttabarna.
Polishing Iceland - Frumsýnd 17. september
Polishing Iceland er sviðsverk eftir Pálínu Jónsdóttur sem leikstýrir einnig. Verkið er byggt á ævisögulegu smásagnasafni eftir pólska höfundinn Ewu Marcinek og segir frá upplifun pólsks innflytjanda sem fetar sín fyrstu skref á Íslandi. Leikstjórn Pálínu Jónsdóttur breytir glundroða í gaman og ótta í orrustu. Í gegnum holdlegt og fjarstæðukennt leikhús líkamans greinir Polishing Iceland frá sammannlegri sögu þess sem eltir upp mannleg tengsl og skilur umfram tungumál.
Sunnefa - Frumsýnd 10. október
Sunnefa Jónsdóttir er tvívegis dæmd til drekkingar snemma á átjándu öld. Hún var sögð hafa eignast börn með yngri bróður sínum fyrst þegar hún var sextán ára og svo þegar hún var átján. Leikhópurinn Svipir setur upp kvennatvíleik þar sem leikkonurnar tvær kafa ofan í magnaða sögu Sunnefu. Leikkonurnar raða brotunum saman, kafa dýpra, setja sig í spor Sunnefu og smám saman lifnar saga hennar á sviðinu.
Lokasýning - Frumsýnd í febrúar
Gul viðvörun: Heimsendir er í nánd! Amazon skógarnir brenna, hafið súrnar, drepsóttir geysa og hitastigið hækkar. Uppgangur fasisma virðist óumflýjanlegur. Dómsdagsklukkan telur niður. En óttist ekki, því fimm listamenn Sóma þjóðar ætla að bjarga heiminum á einni kvöldstund, í einni örvæntingarfullri atrennu, með öllum tiltækum ráðum.
Leikfélag Akureyrar
Fullorðin - Frumsýnd 30. október
Fullorðin er frumsaminn gamanleikur um hvað það er að vera fullorðin og misheppnaðar tilraunir fólks til að sannfæra aðra og sjálft sig um hæfni þess í því hlutverki. Fullorðið fólk á að vita hvað það er að gera, en staðreyndin getur verið sú að flestir geri sér það upp og leikhópurinn leggur upp í ferðalag til að kanna fyrirbærið „fullorðinsárin“.
Benedikt Búálfur - Frumsýnd 13. febrúar
Leikfélag Akureyrar, í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, setur á svið söngleikinn Benedikt Búálf sem var frumsýndur árið 2002. Hann er einn allra þekktasti barnasöngleikur þjóðarinnar og hefur unnið hug og hjörtu íslenskra barna á öllum aldri. Benedikt Búálfur er byggður á samnefndum bókum eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson og fjallar um vinina Benedikt Búálf, Dídí mannabarn og ferðalag þeirra um Álfheima.