„Það er hlustað eftir því sem stúdentar segja og vilja“
Dagur B. Eggertsson tók á móti blaðamönnum Stúdentablaðsins í Ráðhúsinu þann 13. nóvember síðastliðinn. Rætt var um málefni stúdenta í borginni á sólríkri skrifstofu borgarstjórans, en áherslan var lögð á samgöngu- og húsnæðismál á háskólasvæðinu.
Lifandi háskólaborg
„Það er stundum sagt að það séu bara til tvær gerðir af borgum, annars vegar deyjandi borgir og hins vegar háskólaborgir,“ segir Dagur aðspurður um þau mál sem borgin sinnir og hafa bein áhrif á stúdenta. „Ég hef reynt að lifa eftir þessu á meðan ég hef verið í borgarpólitíkinni og leyfi mér að hugsa um Reykjavík sem unga, áhugaverða skemmtilega borg. Það hefur í raun og veru gildi í sjálfu sér.“ Dagur segir að margir hlutir verði hins vegar að vera í lagi til að borgin geti þjónað öllum. „Til þess að menntun sé ekki forréttindi heldur eitthvað sem er á færi allra þarf að huga að fjölbreyttum þáttum eins og námslánum og kjörum námsmanna. En það þarf ekki síður að huga að hlutum á borð við leikskóla og húsnæðismál.“
Samkvæmt Degi hafa húsnæðismálin verið eitt af forgangsatriðunum í borginni að undanförnu. „Við höfum verið að gera gangskör í húsnæðismálunum í samvinnu við stóra, öfluga og reynda aðila til að koma upp góðu, vel staðsettu húsnæði sem liggur vel við almenningssamgöngum og er á færi venjulegs fólks.“ Dagur segir stúdenta vera meðal þessara stóru aðila í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar þegar kemur að uppbyggingu stúdentagarða.
Fjölbreyttari ferðavenjur
Í ljósi þess að þema blaðsins er umhverfismál liggur beinast við að spyrja borgarstjóra um vistvænar samgöngur í kringum háskólasvæðið. „Þetta er risastórt viðfangsefni því við búum í borg sem breyttist úr algjörum smábæ á hundrað árum. Á miðju því tímabili eða um árið 1960 var tekin ákvörðun um að Reykjavík ætti að verða hin fullkomna iðnaðar- og bílaborg,“ segir Dagur. „Miðað við íbúafjölda erum við með bílaeign á við mestu bílaborgir Bandaríkjanna.“ Dagur segir það hafa verið mjög stórt verkefni á undanförnum árum að snúa þessu olíuskipi við. „Við höfum gert það með því að auka og bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi og leggja meiri áherslu á strætó og almenningssamgöngur. Við þurfum að fara í orkuskipti en við þurfum ekki síður að breyta ferðavenjum.“
Aðspurður um þéttingu byggðar segir Dagur það vera mikilvægt skref hvað loftslagsmálin varðar. „Það þarf að breyta skipulaginu í grundvallaratriðum. Þegar við erum að tala um að þétta byggð er það ekki markmiðið í sjálfu sér, heldur erum við að reyna að minnka ferðalagið frá heimili til vinnu. Þá minnkum við umferðina og þá minnkum við útblásturinn og mengunina.“ Dagur bætir við að í kjölfarið fylgi aukinn íbúafjöldi og þar með skapist rekstrargrundvöllur fyrir þjónustu í nærumhverfinu.
Samgöngukort fyrir stúdenta
Stúdentar hafa barist fyrir því að svokallaður U-passi verði innleiddur að erlendri fyrirmynd. Um er að ræða kort sem gildir í fjölbreyttar almenningssamgöngur sem stúdentar ættu kost á gegnum stúdentakort sín. Kortið myndi veita aðgang í strætó, væntanlega Borgarlínu, deilihjólaleigur og fleira. Aðspurður um afstöðu borgarinnar til samgöngupassa fyrir stúdenta segist Dagur vera jákvæður. „Ég er spenntur fyrir U-passanum eða H-kortinu eins og ég hef stundum kallað það. Við beittum okkur fyrir því að farið yrði í samstarf háskólanna tveggja og Landspítalans í samgöngumálum, en þessir stóru vinnustaðir hafa mjög mikið um umferðarmálin að segja. Mér finnst eðlilegt að svona þekkingarstofnanir séu leiðandi í þeim samfélagsbreytingum sem við þurfum að sjá og borgin telur að hún eigi einnig að vera það. Ég bind miklar vonir við þetta samstarf.“
Dagur segir aðkomu stúdenta að breytingum á háskólasvæðinu mikilvæga. „Ég vil nefna hlutverk stúdenta í þessu, en mín tilfinning er sú að stúdentar átti sig stundum ekki á því hversu krafmikið afl þeir eru í raun og veru. Þeir geta gefið tóninn, ekki bara varðandi þróun háskólanna og háskólasvæðisins heldur samfélagsins alls. Allar meginbreytingar á samfélögum til góðs hafa byrjað með aktívisma og þátttöku ungs fólks. Það er hlustað eftir því sem stúdentar segja og vilja.“ Dagur fagnar baráttu stúdenta í umhverfismálum og segir afstöðu þeirra hafa breyst hratt á undanförnum árum. „Þegar við fórum að ræða grænar breytingar á háskólasvæðinu fyrir nokkrum árum var andstaðan ekki síst meðal stúdenta sjálfra. Núna upplifi ég það hins vegar að stúdentar séu í fararbroddi loftslagsbaráttunnar og þar er borgin algjörlega hönd í hönd.“
Einkabílum verði fækkað á háskólasvæðinu
Það þekkist að fólk leggi bílum sínum við háskólann og gangi þaðan til vinnu í miðbænum. Uppi hafa verið hugmyndir innan háskólans um að tekin verði upp gjaldtaka á bílastæðum við skólann. „Borgin hefur verið bæði opin fyrir og áhugasöm um það í mörg ár,“ segir Dagur aðspurður um bílastæðamálin. „Það er í raun búið að innleiða þetta á Landspítalasvæðinu, en í deiliskipulaginu fyrir nýjan Landspítala er talað um að það verði gjaldskylda á öllum stæðunum þar. Borgin ræður þessu hins vegar ekki heldur háskólarnir sjálfir,“ segir Dagur. „En við erum til í að koma inn þar sem við eigum bílastæðasjóð og höfum ýmsa reynslu í þessu. Það er engin spurning að háskólarnir gætu nýtt þær tekjur sem þannig myndu skapast til eigin verkefna. Við þekkjum það líka að það næst betri nýting á landi ef þú stýrir aðgengi að bílastæðum.“
Þá telur Dagur að alhliða samgöngukort á borð við fyrrnefnt H-kort sé augljóst verkefni í framhaldi af þessari umræðu. „Mín framtíðarsýn er sú að þegar við horfum nokkur ár fram í tímann verðum við komin með alhliða samgöngumiðstöð á umferðarmiðstöðvarreitinn þar sem BSÍ er núna. Þangað fáum við Borgarlínuna, strætó utan af landi og innan höfuðborgarsvæðisins, en verðum líka með hjólaleigur, rafskútur og jafnvel deilibíla fyrir fólk sem á ekki bíl en þarf kannski bíl einu sinni í viku eða einu sinni í mánuði.“ Dagur segir háskólasvæðið verða hluta af þessu neti og ítrekar að H-kortið muni ekki eingöngu gilda fyrir strætó og Borgarlínu heldur einnig fjölbreyttari ferðamáta.
„Stundum í umræðunni er talað um þá sem keyra bíl eða þá sem taka strætó eða þá sem hjóla eða þá sem labba. En í raunveruleikanum þá erum við flest einhver blanda af þessu. Það sem við viljum gera er að það verði fleiri sem læra að elska að nota strætó, fleiri sem eru ekki fastir í einhverjum einum óumhverfisvænum ferðamáta heldur nota almenningssamgöngur til þessara lengri ferða, gangi og hjóli styttri ferðir og noti deilibíla þegar þar á við. Þess vegna höfum við verið að leggja svona mikla áherslu á að fá inn deilihjólaleigur í borgina og prófa þær líka yfir veturinn.“ Dagur segir að þótt H-kortið myndi örugglega byrja sem strætókort yrði það fljótlega þróað yfir í að vera alhliða samgöngukort með þessum möguleikum.
Talið berst að rafhjólum, en Dagur segir að það væri spennandi að fá þau inn á deilihjólamarkaðinn. „Rafhjólin hafa bætt alveg nýrri vídd inn í ferðamátana í borginni. Við erum komin með frábæran ferðamáta þar sem mótvindur og leiðinlegar brekkur eru ekki til.“ Þá bendir Dagur á að rafhjólin geti jafnvel verið jafnheilsueflandi og hefðbundin reiðhjól. „Áhugaverð rannsókn sem gamall vinnufélagi minn var að nefna við mig sýnir að maður brennir meira að segja jafnmörgum kaloríum á rafhjóli og venjulegu hjóli. Ég bara trúði þessu ekki og þarf að kynna mér þessa rannsókn, en auglýsi hana hér með.“
Aðgengi stúdenta að sundlaugum borgarinnar
Þrír stúdentaráðsliðar hittu Pawel Bartoszek, forseta borgarstjórnar, í október og ræddu við hann um möguleika á að fá afslætti fyrir stúdenta í sund. Aðspurður um framgang málsins innan borgarstjórnar segist Dagur ekki vita nákvæmlega hvar það sé statt. Hins vegar er málið borgarstjóra nokkuð skylt, en þegar Dagur var formaður Stúdentaráðs náði hann samningi við borgina um sundkort fyrir stúdenta. „Sundlaugarnar eru auðvitað dásamlegar númer eitt. Þær eru ótrúlega heilsueflandi, og þá er ég ekki bara að tala um líkamlega hreysti heldur bara það samfélag sem sundlaugarnar eru. Þó ég viti ekki til þess að það hafi verið rannsakað af miklu viti, þá held ég að fyrir andlega líðan og næringu hljóti sund að vera ótrúlega gott. Svo ég er bara mjög tilbúinn til þess að skoða með Stúdentaráði hvað við getum gert í þessu máli, því sundlaugarnar eru eitt af því sem ég er stoltastur af í Reykjavík. Ef stúdentar eru að veigra sér við því að fara í sund vegna kostnaðar þá hljótum við að verða að skoða það, því borgin á að vera góð fyrir ungt fólk.“
Þéttari þjónusta í Vatnsmýrinni
Fréttir hafa borist af fyrirhugaðri líkamsræktarstöð og matvöruverslun á háskólasvæðinu, en Dagur segir að þess megi vænta að þéttari þjónusta verði byggð upp í kringum háskólann. „Við viljum þétta byggðina. Þétt þjónusta kemur að hluta til í kjölfar íbúðabyggingar því þjónustan vill vera þar sem viðskiptavinirnir eru. Við höfum verið að vinna að því með Félagsstofnun stúdenta að fjölga stúdentaíbúðum og nýir stúdentagarðar með 244 íbúðum verða teknir til notkunar í upphafi næsta árs. Þetta verður stærsti stúdentagarður landsins, sem er auðvitað alveg frábært.“ Dagur segir fleiri verkefni vera á teikniborðinu, annars vegar viðbyggingu við Gamla garð, sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, og hins vegar stóran stúdentagarð í Skerjafirði sem muni rúma 160 íbúðir.
Líkamsræktin á háskólasvæðinu verður til húsa á jarðhæð Grósku, en Dagur segir að fólk átti sig ef til vill ekki á því hvað Gróska sé byltingarkennd hugmynd. „Þarna verða höfuðstöðvar CCP og fullt af frumkvöðlafyrirtækjum. Kannski verður háskólinn líka með ákveðna aðstöðu þarna. Stærðargráðan á Grósku er eins og hálf Kringlan, svo þetta verður langstærsta frumkvöðlasetur landsins og beinlínis innspýting inn í þetta umhverfi. Mér stendur þetta nærri hjarta og ég er ótrúlega ánægður með þetta.“ Dagur leggur áherslu á að með byggingu Grósku sé verið að byggja upp mikilvægt vísinda- og frumkvöðlaumhverfi. „Þetta er mikið samkeppnis- og hæfnismál fyrir borgina og er einn liður í því að gera það eftirsóknarvert og áhugavert að búa í Reykjavík.“
Aðspurður um aðkomu borgarinnar að heilsugæslu á háskólasvæðinu segir Dagur það vera á könnu ríkisins fremur en borgarinnar. „Ég veit hins vegar að heilsugæslan í Hlíðunum er að leita að nýju húsnæði. Ég veit ekki hvort þau hugsi sér að fara alveg út á Vísindagarðasvæðið, en einhvers staðar í Vatnsmýrinni gæti verið snjallt að koma upp heilsugæslu.“
Félagsstofnun stúdenta synjað um styrk
Hátt hlutfall stúdenta býr á stúdentagörðum, en þeir eru reknir af sjálfseignarstofnuninni Félagsstofnun stúdenta. FS naut lengi undanþágu frá fasteignagjöldum og fékk síðar styrki eftir að styrkjakerfi var tekið upp. Nú eru fasteignagjöld að hækka en FS var synjað um styrk síðast þegar sótt var um. Þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa á stúdentagörðum og hækkað leiguna töluvert. Aðspurður um hvort borgin sjái ekki lengur fyrir sér að styrkja húsnæðisaðstæður stúdenta segir Dagur styrkina hafi breyst. „Núna koma þeir með beinum hætti í gegnum húsaleigubætur og húsnæðisbætur. Síðan erum við með stofnstyrk í tengslum við einstök verkefni. Þá komum við inn með 12% af byggingarkostnaði. Þannig að við erum engu að síður að styðja við uppbyggingu stúdentagarða, bæði hjá Félgasstofnun stúdenta, Háskólanum í Reykjavík og Byggingafélagi námsmanna. En formið á þessu hefur breyst.“
Dagur segir stúdenta þó þurfa að borga hærri fasteignagjöld eins og aðrir. „En stuðningurinn til þess að stuðla að leigulækkun kemur beint til stúdenta sjálfra í gegnum húsnæðisbætur. Stuðningurinn kemur einnig til FS í gegnum þetta nýja stofnstyrkjakerfi, en ekki í gegnum afslætti af fasteignagjöldum eins og var áður. Stuðningurinn kemur þannig eftir öðrum leiðum.“
Íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur
Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á háskólasvæðinu rúma stúdentagarðar varla alla stúdenta HÍ. Aðspurður um aðgerðir borgarinnar í húsnæðismálum ungs fólks segir Dagur að borgin sé í samstarfi við fleiri aðila um að búa til hagstæðari leigumarkað. „Við erum til dæmis í samvinnu við verkalýðshreyfinguna um að byggja 1000 íbúðir í Reykjavík á stuttum tíma.“ Þá segir Dagur borgina einnig hvetja verktaka til að byggja minni íbúðir sem verði þá ódýrari. „Fermetraverðið er kannski ekki ódýrara en af því að þú getur skipulagt íbúðina betur og fermetrarnir í heild eru færri, þá er þetta betra.“ Þá nefnir Dagur nýtt verkefni sem borgin er að vinna að sem snýr að íbúðum fyrir ungt fólk. „Ég verð að viðurkenna að fyrir svona fimm árum þá bjuggumst við við því að við myndum vera með leiguíbúðir með Félagsstofnun og Bjargi og fleiri óhagnaðardrifnum félögum en markaðurinn myndi einnig koma inn með fleiri íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Okkur fannst það hins vegar ekki gerast, að minnsta kosti ekki á þeim skala sem við höfðum séð fyrir okkur.“
Í kjölfarið setti borgin af stað nýsköpunarverkefni þar sem auglýst var eftir nýjum leiðum til þess að koma til móts við ungt fólk og fyrstu kaupendur. „Við fengum fullt af hugmyndum og ákváðum í kjölfarið að auglýsa lóðir á níu svæðum fyrir verkefni af því tagi fyrir um það bil 500 íbúðir. Það verkefni hefur núna þroskast þannig við erum búin að veita töluvert mörg lóðarvilyrði. Nú hefur verið sýnt fram á að það sé hægt að byggja töluvert meira á þessum lóðum þannig þær enda líklega í svona 700-750. Íbúðirnar verða fyrst og fremst fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, en þetta eru ýmist leiguíbúðir eða kaupíbúðir. Þær eru á mjög áhugaverðum og fjölbreyttum svæðum, til dæmis í Skerjafirðinum, Veðurstofuhæð og á Stýrimannaskólareit.“ Aðspurður segir Dagur að það sé sett sem skilyrði að íbúðirnar séu seldar ungu fólki og fyrstu kaupendum.
Ungt fólk ýtist út á jaðarinn
Dagur segir það mikilvægt að ungt fólk geti keypt húsnæði í miðbænum og haft áhrif á nærumhverfið þar. „Eitt af því sem borgir eru að glíma við þegar þær verða eftirsóttar er að þá hækkar húsnæðisverðið. Við höfum verið að setja fram samningsmarkmið á öllum nýjum byggingarreitum þannig að þegar einhver verktaki vill byggja margar íbúðir þá segjum við að 20% af þeim íbúðum komi inn á leigumarkaðinn. Þær íbúðir koma ýmist inn félagslega eða með því að við kaupum, en borgin kaupir um 5% af öllum íbúðum sem eru byggðar í Reykjavík.“
Dagur segist einnig sjá fyrir sér að verktakar eða aðrir stofni leigufélög til þess að íbúðirnar komi út á leigumarkaðinn en verði ekki aðeins lúxusíbúðir fyrir suma. „Þarna erum við að beita afli borgarinnar til þess að borgin verði blönduð, líka félagslega og í aldurshópum, því það er ákveðin tilhneiging til þess að eldra fólk með mikið fé á milli handanna safnist á ákveðin svæði eða í ákveðin sveitarfélög - nefnum engin nöfn. Ungt fólk ýtist svolítið út á jaðarinn í þessum eftirsóttu hverfum en þar er finnst mér vera mikils misst.“ Borgarlínan mun hins vegar koma til með að stækka miðborgina að mati Dags. „Núna þegar við erum komin með nýja innviði, afkastamiklar almenningssamgöngur og Borgarlínu þá erum við að teygja okkur út á stærra svæði. Í raun erum við að fara að skapa miðborgarkarakter víðar með því að byggja þétt upp við stöðvarnar og vera þar með minni íbúðir fyrir fólk sem sparar sér að reka bíl. Þá erum við í raun að stækka það svæði sem við kannski höfum hingað til kallað miðborg og búa til svæði í anda miðborgarinnar á fleiri stöðum í borginni.“
Stórar ákvarðanir í átt til grænnar framtíðar
Að lokum segist Dagur vera sérstaklega ánægður að vera í viðtali í tölublaði Stúdentablaðsins sem leggi áherslu á umhverfismál. „Mér finnst þetta ekki bara mikilvægur málaflokkur heldur mikilvægt að fólk átti sig á að við erum stödd á ákveðnum krossgötum. Við þurfum að taka margar stórar, réttar ákvarðanir í átt til grænnar framtíðar og það er frábært ef háskólarnir og ungt fólk ætla sér að verða leiðandi í því. Borgin er búin að reyna að draga vagninn í loftslagsmálum alveg sérstaklega á undanförnum árum, en það veitir ekki af því að fólk sem hugsar um þessa hluti gangi í bandalag við að koma þessum hlutum í verk. Nú er tíminn.“