Hvað getum við gert?
Til eru margar leiðir til þess að hjálpa umhverfinu okkar og það er mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum. Við erum komin að þeim tímamótum að það er ekki lengur hægt að sitja hjá og gera ekki neitt. Við þurfum að leggjast á eitt til þess að leysa úr þeim vanda sem mannfólkið hefur skapað sjálft. Þú getur gert margt þó þér finnist það kannski smávægilegt, en margt smátt gerir eitt stórt og það á við hér. Það er okkar hlutverk að kenna börnunum hvernig á að umgangast náttúruna og bera virðingu fyrir henni. Þú þarft ekki að gjörbreyta lífsstílnum á einum degi, en hvert lítið skref í átt að umhverfisvænni neysluhegðun er betra en ekkert. Fáðu svo fjölskyldu og vini með þér í lið!
Plast
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að plast er að verða stórt vandamál í samfélaginu. Plast er mjög mengandi fyrir umhverfið og tekur mörg hundruð ár að brotna niður. Ef plastmagnið eykst með sama áframhaldi verður meira plast í sjónum en lífverur árið 2050.
Ráð:
• Kaupa gler frekar en plast
• Kaupa mat í plastlausum umbúðum
• Endurnýta plastflöskur
• Kaupa fjölnota poka og ílát
• Kaupa fjölnota kaffibolla, hnífapör, rör, vatnsbrúsa
• Flokka plast
• Það er hægt að setja allt plast í lokaðan glæran plastpoka, henda í almennt rusl og sorpubíllinn sér um rest
Flokkun
Endurvinnsla er mikilvæg. Ef við flokkum rusl er hægt að endurvinna til dæmis umbúðir og búa til eitthvað nýtt úr hinu gamla. Svo er gott að finna nýjan tilgang fyrir það mikla plast sem við eigum fyrir. Best er auðvitað að kaupa sem minnst af óþarfa plasti og pappa til að takmarka úrgang.
Ráð:
• Endurvinna það sem hægt er að nýta
• Hafa flokkunartunnur heima og nota þær (plast, pappír, almennt rusl, lífræna tunnan)
• Kynna sér vel hvernig flokkun fer fram, t.d. á vefnum www.sorpa.is
• Fara með hluti sem þú notar ekki lengur í Sorpu þar sem þeir geta nýst einhverjum öðrum og fengið nýtt heimili.
• Nýta lífrænan úrgang í moltugerð
Matarsóun
Matarsóun er því miður algeng á mörgum íslenskum heimilum. Við getum til dæmis lagt okkar af mörkum til þess að koma í veg fyrir það með því að hugsa um vinnuna sem liggur að baki hverrar matvöru og nýta betur það sem er til í ísskápnum hverju sinni.
Ráð:
• Skrifa innkaupalista fyrir búðarferðir
• Ekki fara svangur/svöng/svangt í búðina
• Nýta það sem er til heima, það er til dæmis hægt að nýta afganga í súpur, pítsu, búst og pottrétti
• Taka afganga með í nesti
• Nýta þjónustur á borð við „Eldum rétt“ fyrir þau sem hafa lítinn tíma, þar er skammtað réttu magni af hráefni
• Gæta þess að vörur renni ekki út í ísskápnum
Vegan
Kjötiðnaður er stór þáttur í hamfarahlýnun af mannavöldum. Því er ekki vitlaus hugmynd að íhuga hvað þú ert að borða og hvaða kolefnisspor það hefur í för með sér. Þótt grænmeti og ávextir hafi stundum ferðast langar vegalengdir til Íslands þá er það ekki eins slæmt fyrir umhverfið og kjöt- og mjólkurframleiðslan. Minnkun á kjöti og mjólkurvörum er eitt skref í því að sporna gegn loftslagsvánni. Veganúar er sniðug leið til að kynnast vegan lífsstíl, en þá prófar fólk að vera vegan í janúar og fær alls kyns ráð og fræðslu á meðan á átakinu stendur.
Vörur
Neysluhyggja hefur mjög neikvæð áhrif á umhverfið okkar. Hún hefur líka neikvæð áhrif á tilfinningalífið, en fólk er að verða svo háð hlutum að það gleymir hvað er mikilvægast í lífinu. Kvíði er afleiðing neysluhyggjunnar og er vandamál bæði meðal fullorðinna og barna. Jólagjafir geta t.d. orðið hreinasti hausverkur. Það er mikilvægt að fólk íhugi hvaða vörur það kaupir og hvort það þurfi virkilega á þeim að halda. Hvar verða þessar vörur eftir nokkur ár?
Ráð:
• Kaupa vörur úr náttúrulegum efnum, t.d. tannbursta úr bambus í stað plasts
• Kaupa snyrti- og hreinsivörur án mengandi efna
• Versla í búðum sem sérhæfa sig í umhverfisvænum vörum fyrir heimilið
• Huga að umbúðum
• Ekki kaupa hluti að óþörfu
• Nota leitarvélina Ecosia í tölvunni eða símanum
• Prófa nýjar leiðir, t.d. rafbókakaup
Ferðamáti
Einkabílar eru allsráðandi á Íslandi og fjölskyldur eiga jafnvel 2-3 bíla. Bílaumferð eykst með hverju ári, en útblásturinn hefur slæm áhrif á loftslag jarðarinnar. Þess vegna eru almenningssamgöngur lykilþáttur í að draga úr umferðarmengun. Þá má ekki gleyma menguninni sem flugvélar gefa frá sér, en þótt orðið „flugskömm“ sé nýtt af nálinni er það ekki úr lausu lofti gripið.
Ráð:
• Taka strætó
• Hjóla eða ganga milli staða, það er bæði gott fyrir umhverfið og heilsuna
• Samnýta bíla
• Hafa bíllausan dag einu sinni til tvisvar í viku
• Ferðast innanlands
• Fara færri ferðir til útlanda og dvelja frekar lengur á hverjum stað