Fjórir ungir umhverfisaktívistar

Aðgerða er þörf í loftslagsmálum heimsins en vegna aðgerðaleysis stjórnvalda hefur ungt fólk um allan heim tekið málin í sínar hendur. Á Vesturlöndum hefur hin sænska Greta Thunberg verið í sviðsljósinu, en hún er ekki sú eina sem hefur vakið athygli fyrir ötula baráttu gegn hamfarahlýnun. Blaðamaður Stúdentablaðsins kynnir til leiks fjóra unga umhverfisaktívista sem hafa hvatt stjórnvöld til að grípa til tafarlausra aðgerða.

 

Autumn.Peltier.jpg

Autumn Peltier                                                                                                        

Autumn Peltier er 15 ára og hefur hlotið friðarverðlaunin Children‘s Peace Price sem snúa að málefnum barna. Þá hefur hún talað á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðana um mikilvægi þess að tryggja að almenningur um allan heim hafi aðgang að hreinu drykkjavatni. Á ráðstefnunni sagði hún meðal annars: „Our water should not be for sale. We all have rights to this water as we need it.“ Autum Peltier kemur frá Kanada og hefur verið kölluð „Water Warrior“.

 

isra-activist.jpg

Isra Hirsi

Hin 16 ára gamla Isra Hirsi er einn stofnenda samtakana US Youth Climate Strike, en það eru grasrótarsamtök ungmenna sem beita sér fyrir loftslagsmálum. Þau standa meðal annars fyrir mótmælum gegn aðgerðaleysi stjórnvalda. Irsa Hirsi kemur frá Minneapolis í Bandaríkjunum. Hún segir hamfarahlýnun af mannavöldum vera vandamál sinnar kynslóðar og berst fyrir tafarlausum aðgerðum til að sporna gegn henni.

 

Greta.jpg

Greta Thunberg

Greta Thunberg hefur verið mjög áberandi í vestrænum miðlum að undanförnu. Hún er 16 ára og kemur frá Svíþjóð. Greta segir stjórnmálafólk bera ábyrgð á loftslagsvánni og skorar á stjórnvöld að gera eitthvað í þessum málum. Greta átti upptökin að föstudagsmótmælum fyrir loftslagið, „Skolstrejk för klimatet“, sem nú fara fram í hverri viku um allan heim. Þá kom nýverið út bókin Húsið okkar brennur sem segir frá baráttu Gretu fyrir loftslagsmálum og persónulegri sögu hennar.

 

xiuhtezcatl.jpg

Xiuhtezcatl Martinez

Xiuhtezcatl Martinez er 19 ára umhverfisaktívisti og hip-hop tónlistarmaður. Hann kemur frá Colorado-fylki í Bandaríkjunum og hefur talað fyrir umhverfismálum frá 6 ára aldri. Hann starfar fyrir Earth Guardians, en það eru samtök ungs fólks sem vill hafa áhrif á samfélagið og talar fyrir aðgerðum gegn hamfarahlýnun. Xiuhtezcatl Martinez hefur talað máli þeirra á alþjóðlegum vettvangi, til dæmis á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var í Rio de Janeiro árið 2012.